Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar gagnrýndi það í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi að yfirvöld gerðu ekki sömu kröfur þegar slegið væri upp dansleik eða haldin árshátíð í íþróttahúsi og á hefðbundnum skemmtistað. Sem kunnugt er þurfa eigendur veitingahúsa að uppfylla ýmis skilyrði, leggja fram fjölda vottorða og sanka að sér fjölda leyfisbréfa til að geta hafið rekstur.
Í þessu samhengi má rifja upp það sem kom fram í máli Aðalheiðar Héðinsdóttur á Viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands í síðasta mánuði. Aðalheiður sagði frá því að fyrirtæki hennar hefði þurft að skila 35 pappírum til lögreglustjóra til að geta rekið verslun í Kringlunni sem selur kaffi. Þó var verslunin hvorki með áfengissölu né með opið lengur en gengur og gerist.
Það er því ljóst að hið opinbera leggur verulegar kvaðir, aðrar en skatta, á þá sem reka veitingastarfsemi í landinu. Það getur því verið mikill ávinningur af því að komast hjá því að uppfylla allar þessar kvaðir og eðlilegt að samtök veitingahúsaeigenda geti ekki horft á það aðgerðalaus að menn geri það til að geta boðið betur en veitingahúsin.
Það er svo sérstakur kafli í þessu máli að það skuli vera íþróttafélögin í landinu sem fengið hafa íþróttahús á silfurfati frá skattgreiðendum sem leggja til atlögu við veitingahúsin með þessum hætti. Skattgreiðendur hafa ekki aðeins greitt að mestu leyti fyrir byggingu íþróttahúsanna heldur er rekstur þeirra meira og minna upp á greiðslur úr sveitarsjóðum kominn. Samkeppnin frá íþróttahúsunum er því eins ósanngjörn og frekast má vera.
Fjötrar verða notaðir í Lambaseli. |
Þeim hefur fækkað nokkuð á liðnum árum skömmtunarkerfunum og óhjákvæmilegum fylgifiskum þeirra, biðröðunum. Enn er þó verið að skammta suma hluti og enn bíða menn í röð eftir ákveðnum hlutum. Af einhverjum stórundarlegum ástæðum stjórna sveitarstjórnarmenn framboði lóða undir húsnæði.
Þegar fram í sækir verður líklega litið til síðustu 15 ára í íslensku efnahagslífi með nokkurri velþóknun. Einn skugga ber þó á. Flest sveitarfélög landsins eru á hausnum, útgjaldaaukning er stjórnlaus, skattar og gjöld á íbúa hækka látlaust og skuldir hrannast upp.
Það kemur því ekki á óvart að sveitarfélögin ráða engan veginn við að tryggja nægt framboð lóða. Myndi nokkur opinber aðili svo sem ráða við það verkefni? Sveitarfélögin eru lengi að bregðast við aukinni eftirspurn eftir lóðum og eru með alls kyns hundakúnstir við „úthlutun“ lóðanna. Á næstu dögum mun borgarstjóri til að mynda kynna nýjar reglur um úthlutun lóða við Lambasel. Ef marka má orð borgarstjórans í fjölmiðlum fram til þessa verður aðeins fjölskyldufólki, en ekki vondum verktökum, boðið að standa í biðröð eftir þessum lóðum. Lóðirnar verða jafnframt aðeins ætlaðar fjölskyldum sem ætla að byggja yfir sig og búa sjálfar í húsinu. „Það yrði þá að vera tryggt að þetta væri fólk sem væri að byggja yfir sjálft sig til að búa þarna,“ sagði borgarstjóri í viðtali við Morgunblaðið.
Í gær sagði Vefþjóðviljinn frá því að Verzlunarmannafélag Reykjavíkur ætlar að vekja skyldusparnaðinn alræmda upp frá dauðum. Eftir fund borgarstjórnar á fimmtudaginn kemur verður væntanlega búið að vekja átthagafjötrana til lífsins. Ekki myndi Vefþjóðviljinn vilja vera VR félagi í Lambaseli ef þetta gengur eftir.
Svo héldu einhverjir spekingar að hugmyndafræðilegum átökum væri lokið með sigri frjálshyggjunnar.