Síðastliðinn vetur áttu kennarar í löngu verkfalli, mörgum til ama. Þegar verkfallið hafði staðið drjúga stund ákvað stjórn Félags fréttamanna við Ríkisútvarpið að leggja fé í verkfallssjóð kennara til að styrkja verkfallsmenn í baráttunni og lengja verkfallið. Bogi Ágústsson ákvað þá að þeir fréttamenn sem tóku þá ákvörðun skyldu ekki segja fréttir af verkfallinu upp frá því. Það urðu fréttamennirnir mjög ósáttir við.
Nú skamma fréttamenn bæði útvarpsráð og útvarpsstjóra fyrir skort á fagmennsku. Nú mælir Bogi, órökstutt, með fimm undirmönnum sínum. Það þykir þeim öllum afar faglegt.
Gagnrýni á skipan nýs fréttastjóra Ríkisútvarpsins er hins vegar dæmigerð fyrir eitt versta einkenni Ríkisútvarpsins: kröfu starfsmanna til þess að eiga stofnunina sjálfir. Þeir vilja fá einn úr sínum hópi og vera vissir um að allt verði eins og það hefur verið; sami hópurinn, sömu vinnubrögðin og sama slagsíðan. Vissulega er hinn nýráðni fréttastjóri með minni reynslu úr fjölmiðlum en margir þeirra sem sóttu um starfið á móti honum, og það getur bæði verið kostur og galli. Þó starfsreynsla sé frá almennu sjónarmiði kostur, og raunar oft vanmetin, þá getur líka komið sér vel að fá menn utanfrá, sem ekki hafa lifað og hrærst í sama kúltúr áratugum saman. Þetta vita menn til dæmis á Morgunblaðinu, þar sem gefist hefur vel að velja aðra menn til ritstjórastarfa en þá sem lengsta starfsreynslu höfðu innan blaðsins þegar þeir voru ráðnir. Menn eins og Matthías Johannessen og Styrmir Gunnarsson voru ráðnir ritstjórar þrátt fyrir að á blaðinu væru þá fyrir fjölmargir með mun lengri starfsreynslu en þeir. Og þykir ekki ýmsum sem bærilega hafi tekist við þær ráðningar?