Fréttamenn eru samir við sig. Að minnsta kosti virðist sumum þeirra ætla að takast að snúa á haus, flestu sem fram fór á flokksþingi Framsóknarflokksins um helgina. Í gær var hver fréttamaðurinn af öðrum óðamála að bera saman atkvæðatölur í forystukjörinu nú og svo því sem fram fór á síðasta flokksþingi, vorið 2003. Sá samanburður er hins vegar út í hött. Stjórnmálaflokkarnir halda flokksþing sín að jafnaði annað hvert ár. Algengt er að annað þingið sé haldið á kosningaári, skömmu fyrir kosningar, en hitt þá um hálfnað kjörtímabilið, og að haust- eða vetrarlagi. Á kosningaþinginu, landsfundinum eða hvað þessar samkomur eru kallaðar, er samstaða jafnan mikil og menn standa þétt að baki forystunni – nema þá að menn skipti hreinlega um forystu. Það er á milliþingunum sem ýmsir nota tækifærið og kjósa aðra en forystumennina, hvort sem það er gert til að láta í ljós óánægju með einstaka forystumenn, eða einfaldlega að senda skilaboð um það hverja þeir vilji sjá í þeirra stað í fyllingu tímans. Ef menn ætla að bera árangur forystu Framsóknarflokksins nú saman við önnur flokksþing, þá blasir við að bera árangur Halldórs Ásgrímssonar nú, þegar kjörtímabilið er bráðum hálfnað, við árangur hans við sama tímamark árið 2001. Ekki við árangurinn nokkrum vikum fyrir þingkosningar 2003.
Kosning Halldórs nú, er mun nær kosningu hans árið 2001 en þeirri sem hann fékk 2003. Kosning hans árið 2001 var raunar enn glæsilegri en sú sem hann hlaut um helgina, en þegar horft er til þess að misserum saman hefur því verið mjög stíft haldið fram að Halldór sé með öllu úr tengslum við hinn almenna framsóknarmann og að „eldar logi í flokknum“, þá sést hversu stuðningur við forystu Framsóknarflokksins hefur verið vanmetinn en stuðningur andstæðinga hans ofmetinn. Kristinn H. Gunnarsson, sem nú er þingmaður Framsóknarflokksins, lýsti því meira að segja yfir á forsíðu Fréttablaðsins í upphafi flokksþings, að hann útilokaði ekki að bjóða sig fram gegn formanni eða varaformanni flokksins. Slík yfirlýsing þingmanns er eins nálægt formlegu framboði og hægt er að fara, án þess að stíga skrefið til fulls. Hann er augljóslega að segja öllum þeim sem óánægðir eru með eitthvað, að kjósa sig nú á sunnudaginn. Kristinn H. Gunnarsson, þessi sem að sögn andstæðinga Framsóknarflokksins er í beinum tengslum við grasrótina í flokknum sem hann er nýgenginn í, hann hlaut eftir þessa yfirlýsingu 6,7 % atkvæða í formannskjöri, 5,2 % í varaformannskjöri og 2,5 % í ritarakjöri. Það er ótrúlega lítið fylgi, og sýnir hversu fráleitur hann hefur verið, lofsöngurinn um Kristin sem hljómað hefur úr málgöngum Samfylkingarinnar að undanförnu. Maðurinn sem segist sérstakur talsmaður grasrótarinnar, maðurinn sem gekk eins langt og hann þorði í þá veru að lýsa yfir framboði, fékk sex prósent gegn Halldóri, fimm prósent gegn Guðna. Kjör þeirra Halldórs, Guðna og Sivjar er hins vegar glæsilegt, en ekki ósigur eins og fréttamenn virðist dauðlanga til að segja fullum fetum. Einkum mega Halldór og Guðni vel við una, en mjög hefur verið reynt að kynda undir óánægju með þeirra störf, þó með ólíkum hætti hafi verið.
Heldur einhver að Kristinn H. Gunnarsson hefði fengið meira en hann fékk, ef hann hefði hreinlega lýst framboðinu yfir? Og hversu mikið meira þá? Jú, í formannskjörinu voru 4 % auð. Hann hefði hugsanlega getað fengið þau, en það er nú varla líklegt. Þeir menn hefðu kosið hann í gær ef þeir hefðu viljað.