Þriðjudagur 1. mars 2005

60. tbl. 9. árg.

Ígær nefndi Vefþjóðviljinn að fréttamönnum gengur illa að átta sig á því hvað sneri upp og hvað niður á flokksþingi Framsóknarflokksins. Túlkun á kosningu forystunnar var nefnd í gær, en túlkun fréttamanna á meðferð ályktanatillagna um Evrópumál er jafnvel enn skýrara dæmi um samræmda reykvöðslu nýja. Þar er nú látið eins og þau tíðindi hafi orðið að Framsóknarflokkurinn hafi stigið skref í átt til Evrópusambandsins og sumir eru jafnvel farnir að fabúlera um að flokkurinn hafi þar með opnað á nýtt stjórnarmynstur einhvern tíma seinna. Þetta er fráleit túlkun á því sem gerðist á flokksþinginu. Ef menn horfa bæði á þann texta sem flokksþingið samþykkti og þann sem Evrópusinnar vildu fá samþykktan, sést greinilega hversu fráleitar kenningarnar um tíðindi og stefnubreytingu eru. Evrópusinnar lögðu fram tillögu á þinginu. Hún hljómaði svona:

Stefnt skal að því að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið á kjörtímabilinu og niðurstöður þeirra bornar undir þjóðaratkvæði í næstu kosningum.

Ef þessi tillaga hefði verið samþykkt, þá hefðu það verið tíðindi. Þá hefði verið tilefni að slá einhverju upp, til dæmis á forsíðu Morgunblaðsins – sem ekki var í gær eins og flestir hljóta að sjá, nú þegar rykið hefur sest. En þessi tillaga var bara alls ekki samþykkt, og fjarri því. Flokksþingið hafði engan áhuga á að samþykkja þessa tillögu. Þrívegis var málið sent aftur frá þinginu inn í nefnd, sem breytti því þannig að í hvert skipti fór það fjær tíðindum og stefnubreytingu. Að endingu var Evrópusinnum hlíft við því að verða að allsherjaraðhlátursefni, með því samþykkt var óbreytt stefna, að haldið skyldi áfram þeirri vinnu sem farið hefur fram undanfarin ár:

Á vettvangi Framsóknarflokksins skal halda áfram upplýsingaöflun og vinnu við mótun samningsmarkmiða og hugsanlegs undirbúnings aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Niðurstöðu þeirrar vinnu skal kynna næsta flokksþingi.

Það er ekki einu sinni búið að lýsa stuðningi við að aðildarviðræður verði undirbúnar! Það á bara að afla upplýsinga um Evrópumálin áfram, eins og verið hefur. Sem eru engin tíðindi. Fyrrverandi forsætisráðherra stofnaði einmitt sérstaka Evrópunefnd í því skyni á síðasta ári og þar á Framsóknarflokkurinn sína fulltrúa. Enda er ekki nokkurt samhengi milli þess að afla upplýsinga um Evrópumál og svo þess að hafa á nokkurn minnsta hátt ljáð máls á inngöngu í Evrópusambandið. Enda gerði flokksþing Framsóknarflokksins það ekki, og einu tíðindin af Evrópumálunum þar eru þau – og það eru vissulega ákveðin tíðindi – að Evrópusinnar voru gerðir afturreka með sinn málflutning hvað eftir annað.

Annað atriði er svo það, að auðvitað hefur það verið Halldóri Ásgrímssyni fagnaðarefni að fremur var lokað dyrum á Evrópusambandið en hitt, með þessari framvindu á þinginu. Hvernig forsætisráðherra væri það líka, sem nýtekinn við embætti, og það úr mun minni stjórnarflokknum, færi að gefa stjórnarandstöðunni undir fótinn um leið og hann væri kominn í stólinn? Halda menn að Halldór Ásgrímsson sé þannig?

Nei auðvitað ekki. Enda fjarlægðist Framsóknarflokkurinn Evrópusambandið í hvert sinn sem Evrópusambandssinnar voru gerðir afturreka með tillögur sínar. Það eru einu Evrópu-tíðindi flokksþings Framsóknarflokksins. Þó vissulega megi ekki vanmeta hæfni Evrópusinna til að túlka allar niðurstöður sér í vil. Meira að segja þjóðaratkvæðagreiðslur sem þeir tapa, hafa þeir kallað sigur og skref í átt að auknum samruna.