Helgarsprokið 27. febrúar 2005

58. tbl. 9. árg.

S pænskir kjósendur hafa nú kveðið upp dóm sinn um nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins sem lesa má hér. Meirihluti þeirra er kaus í þjóðaratkvæðagreiðslunni, samþykkti stjórnarskrána eða 76,7%. Ættu því lýðræðislega sinnaðir stuðningsmenn sambandsins að geta unað glaðir við sitt, á Spáni að minnsta kosti. Eða hvað? Raunar alls ekki. Það er nefnilega áhyggjuefni að í þessum kosningum, eins og í svo mörgum sem snúa að Evrópusambandinu, var kosningaþátttakan afar lítil. Það er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að í flestum aðildarríkjanna er þátttaka í þing- og sveitastjórnarkosningum mun meiri en í kosningum um breytingar á sáttmálum Evrópusambandsins eða kosningum til Evrópuþingsins. Þannig kusu aðeins 42% Spánverja um stjórnarskrána, sem þýðir að innan við þriðjungur kosningabærra Spánverja samþykkti stjórnarskrá Evrópusambandsins. Og þessi litla þátttaka verður þrátt fyrir að óumdeilt sé að úrslit kosninganna skipti alla borgara sambandsins verulegu máli. Umfang sambandsins er ætíð að aukast og ákvarðanir þess snerta daglegt líf borgara þess í æ meira mæli. Auk þess dregur sífellt úr möguleikum ríkjanna til að beita neitunarvaldi. Ekkert af þessu minnkar með nýju stjórnarskránni. Af þessum ástæðum er umhugsunarvert hvað veldur hinni litlu kosningaþátttöku í kosningum innan Evrópusambandsins.

„Einungis um tíu ríki Evrópu-sambandsins hafa áform um að gefa borgurum sínum kost á að kjósa um stjórnar-skrána.“

Stjórnarskráin, sem leiðtogar ríkjanna hafa fallist á og nú er til umfjöllunar og samþykktar eða synjunar í aðildarríkjunum, er nokkuð frábrugðin þeim stjórnarskrám sem við þekkjum einna best. Í stað þess að vera almenn og taka á grundvallaratriðum stjórnskipunar sambandsins, eða ríkisins, og samfélagsins, fer hún inn á ótrúleg smáatriði mannlegs samfélags, jafnvel á tilteknum svæðum, og erfitt er að átta sig á hvernig sumt hefur ratað inn eða verið valið í stjórnarskrána. Oft á tíðum er hún líka á flóknu, illskiljanlegu og tæknilegu máli. Ber hún augljós merki mikilla hrossakaupa sem einna augljósast kemur fram í lengd hennar, en hún er vel á þriðja hundruð síður. Til samanburðar er bandaríska stjórnarskráin rétt rúmar tíu síður.

Þetta gerir það að verkum að erfitt reynist fyrir marga, jafnvel flesta, borgara aðildarríkja sambandsins að setja sig almennilega inn í innihald stjórnarskrárinnar. Skortir flesta bæði tíma og fræðilegan bakgrunn til að kynna sér rækilega hið mikla plagg. Jafnvel þekktir prófessorar, sem sérhæfa sig í málefnum sambandsins, hafa haft á orði að erfitt sé að öðlast fullnægjandi þekkingu á sambandinu, enda sé það með ólíkindum flókið og yfirgripsmikið. Því skyldi engan undra að fólk veigri sér við að taka afstöðu í málum er snerta sambandið, svo ekki sé talað um að kjósa um þau.

Kosningar innan Evrópusambandsins hafa reynst áminning um að þar er lýðræðið með þeim hætti að elítan ræður öllu en lýðnum er boðið upp á hvað sem er.

Í nokkrum aðildarríkjanna er stjórnmálamönnum á hinn bóginn mikið í mun að fá almenning til að réttlæta skoðanir þeirra og ákvarðanir varðandi frekari samruna Evrópusambandsins. Því hafa einstök ríki sambandsins, til dæmis Danmörk og Írland, nokkra hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum um meiriháttar breytingar á sáttmálum sambandsins. Stuðningsmenn frekari samruna Evrópusambandsins og stofnunar sambandsríkis Evrópusambandsins þurfa þó ekki að örvænta þess vegna, enda finnur pólitísk elíta sambandsins ætíð leiðir fram hjá úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslna sem henni hugnast ekki. Annað hvort eru gerðar undanþágur, sem engu máli skipta, til að troða samþykkt í gegn, nú eða þá að látið kjósa að nýju þar til „rétt“ niðurstaða fæst. Svo er alltaf vinsælt að beita hótunum í hinu lýðræðislega Evrópusambandi: „Ef þið makkið ekki rétt og samþykkið, þá ættuð þið bara að fara að endurskoða veru ykkar í sambandinu. Ekki er hægt að láta eitt ríki stöðva vilja allra hinna til frekari samruna“. Eitt er víst í ferlinu, sem nú er í gangi, að elítan mun ekki sætta sig við nei, allra síst ef það verða „bara“ eitt eða tvö ríki sem hafna stjórnarskránni. Því er um fremur merkingarlitlar kosningar að ræða og mætti kannski frekar kalla þær almannatengslabragð.

Evrópusambandið er flókið, framandi og yfirgripsmikið fyrirbæri sem flestir eiga erfitt með að skilja til fulls. Erfitt er að halda því fram að stjórnarskrá sambandsins bæti þar úr. Einungis um tíu ríki Evrópusambandsins hafa áform um að gefa borgurum sínum kost á að kjósa um stjórnarskrána. Í þeim löndum, sem kosið verður, er útlit fyrir að kosningaþátttaka verði lítil. Auk þess er ljóst að þó að eitthvert ríkið hafnaði stjórnarskránni, þá verður fundin leið til að líta fram hjá því. Ekkert fær að raska vilja pólitískrar elítu Evrópusambandsins.

Svo lengi sem málum er svona háttað eru litlar vonir til að borgarar aðildarríkja sambandsins sýni kosningum, er varða sambandið, meiri áhuga en raun ber vitni. Hver nennir líka að kjósa um mál, sem hann hefur takmarkaðan skilning á og þar sem óvíst er að mark verði tekið á niðurstöðunum? Þetta skýrir að miklu leyti litla þátttöku í kosningum er varða Evrópusambandið. Kosningar innan Evrópusambandsins hafa af þeim sökum ekki verið merkilegir lýðræðisviðburðir heldur miklu frekar áminning um að þar ræður elítan nánast öllu en lýðurinn nánast engu.