Laugardagur 26. febrúar 2005

57. tbl. 9. árg.

M

Er ástæða fyrir Húsasmiðjuna að fagna aukinni samkeppni frá þýska risanum Bauhaus?

orgunblaðið sagði fréttir af því í vikunni að þýska byggingavörukeðjan Bauhaus hygðist hasla sér völl hér á landi og hefja þar með virka samkeppni við BYKO og Húsasmiðjuna. Eins og gjarnan þegar nýr aðili lætur til sín taka á einhverjum markaði þá eru þeir sem fyrir eru spurðir hvernig þeim lítist á. Undantekningarlítið eru svörin á sömu lund og svör stjórnarformanns Húsasmiðjunnar, Skarphéðins Berg Steinarssonar, sem að sögn Morgunblaðsins „segist fagna allri samkeppni“. Skarphéðinn er einn af stjórnendum fyrirtækja Baugs hér á landi og er sem slíkur í samkeppni við marga aðila, meðal annars þá sem eiga BYKO og matvöruverslanir Kaupáss, til dæmis Krónuna. Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að Krónan ætli frá og með deginum í dag að lækka verð á ýmsum matvörum um 3%-25% „til að efla samkeppnina, til hagsbóta fyrir neytendur,“ eins og Morgunblaðið hefur eftir Sigurði Arnari Sigurðssyni, forstjóra Kaupáss.

Er þetta nú allt saman mjög líklegt? Er líklegt að stjórnarformaður Húsasmiðjunnar fagni samkeppni frá þýskum byggingavörurisa eða að forstjóri matvöruverslunar sé í dag að lækka verð til að efla samkeppni og bæta kjör neytenda? Nei, það verður að segjast eins og er að þetta er ekki sérlega líklegt. Miklu líklegra er að sá sem segist fagna samkeppni harmi hana í raun eða hafi að minnsta kosti áhyggjur af henni, enda getur hann allt eins búist við að hún dragi úr hagnaði fyrirtækis hans. Hann kjósi hins vegar að segjast fagna henni þar sem yfirlýsingar um annað hljómi illa. Og það verður líka að segjast eins og er að það er miklu líklegra að sá sem segist lækka verð til að efla samkeppnina og bæta hag neytenda sé í raun að lækka verð til að efla hag fyrirtækis síns. Hann vonast líklega eftir auknum viðskiptum og að aukin sala muni gera meira en vega upp á móti lægra verði á hverja einingu.

En hvers vegna er Vefþjóðviljinn að benda á þessi ótrúverðugu viðbrögð við samkeppni og ótrúverðugum yfirlýsingum vegna lækkunar verðs? Ástæðan er sú að það gætir oft ákveðins misskilnings um eðli og gagnsemi samkeppninnar. Aukin samkeppni er til að mynda ekkert frekar fyrirtækjunum sem keppa til hagsbóta. Aukin samkeppni minnkar allt eins hagnað fyrirtækjanna og ekkert fyrirtæki hefur það að markmiði að draga úr hagnaði sínum, þvert á móti leitast þau við að auka hann. Samkeppni er hins vegar til hagsbóta fyrir neytendur, enda fari hún fram á frjálsum markaði þar sem fyrirtækin keppa um viðskiptavini með því að bjóða sem lægst verð og besta þjónustu. Samkeppni er af þessum ástæðum mjög æskileg og neytendur ættu að fagna henni en fyrirtækjunum ætti frekar að standa stuggur af henni. Yfirlýsingar um slíkt henta fyrirtækjum aftur á móti illa út frá sjónarhóli almannatengslanna og þess vegna mun almenningur vafalítið áfram fá að heyra forsvarsmenn fyrirtækja „fagna allri samkeppni“.

Þess má þó geta hér neðanmáls að ekki eru allir svo vel búnir almannatengslafulltrúum að þeir fagni jafnan allri samkeppni. Þannig hafa menn sjálfsagt orðið varir við það í gegnum tíðina að leigubílstjórar frá Suðurnesjum hafa viljað halda í þá sérkennilegu reglu að einungis leigubílar þaðan megi aka ferðalöngum frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þeir hafa viljað halda í þessa reglu þrátt fyrir að hún hafi þýtt að þeir hafi ekki mátt flytja farþega til baka úr bænum og til Suðurnesja og að kollegar þeirra af höfuðborgarsvæðinu hafi orðið að aka einir í bæinn aftur eftir að hafa ekið farþegum út á flugvöll. Viðhorf leigubílstjóranna af Suðurnesjum hafa ef til vill verið skiljanleg út frá þröngum sérhagsmunum þeirra og sérhagsmunirnir hafa eins og svo oft áður orðið öðru yfirsterkari. Þess vegna hafa þeir ekki „fagnað allri samkeppni“. Aðrir geta þó fagnað því, að nú hefur samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, ákveðið að frá og 1. október næstkomandi geti leigubílar af höfuðborgarsvæðinu tekið farþega upp í við Flugstöðina en þurfi ekki að aka tómir í bæinn eftir ferð suður á völl.