Föstudagur 25. febrúar 2005

56. tbl. 9. árg.

Siðmennt heitir félagsskapur hér á landi „um borgaralegar athafnir“ eins og það er orðað af félagsmönnum sjálfum. Að sögn er félagið málsvari mannúðarstefnu og frjálsrar hugsunar og óháð trúarsetningum. Undanfarin ár hefur helst borið á þessu félagi í kringum það sem það kýs að kalla „borgaralega fermingu“. Talsmenn Siðmenntar hafa markaðssett þann viðburð sem einhvers konar mótvægi við þá fermingu sem hefur notið töluverðrar vinsældar hér á landi í þó nokkur ár og fram fer í kirkjum landsins að jafnaði að vori og að hausti. Borgarleg ferming Siðmenntar á víst að vera eitthvað allt annað en ferming og verður Vefþjóðviljanum að fyrirgefast þó hann skilji ekki af hverju eitthvert allt annað hugtak en fermingarhugtakið var þá ekki valið yfir þessar athafnir Siðmenntar. En kannski er fyrirgefningin of kristilegt hugtak í þessu samhengi.

En hér er ekki ætlunin að fjalla um fermingar eða viðburði á vegum Siðmenntar heldur það sem Siðmennt hefur nú upp á síðkastið fengið fjölmiðla til að fjalla um, nefnilega bænir skólabarna í skólum sveitarfélaganna. Jafnvel þótt Siðmennt hafi frjálsa hugsun að leiðarljósi þá virðist sem engar trúarsetningar megi hafa í frammi á opinberum vettvangi. Er nú úr vöndu að ráða í landi þar sem flestir landsmanna eru kristnir, að minnsta kosti samkvæmt skráningu Hagstofunnar. En gott og vel, einhverjir trúa ekki á bænir. Er réttlætanlegt að skikka þá til þess að taka þátt í bænahaldi? Nú hefur það komið í ljós í viðtölum við skólafólk að kennarar hafa farið varlega í það að bjóða til bænastunda og lítur út fyrir að það sé engum vandkvæðum bundið fyrir foreldra barnanna að afþakka slíkar bænastundir. En það nægir ekki Siðmennt. Félagið vill stjórna því hvað aðrir aðhafast í trúmálum, á þeirri forsendu að um opinbera skóla sé að ræða.

Nú vefst það líklega fyrir einhverjum hvernig það getur skaðað sannanlega trúlaust fólk að sitja nokkrar sekúndur undir einni bæn af og til. Búddistum gæti sárnað það að þurfa að syngja Jesú bróðir besti reglulega og víst er að múslimum yrði fljótt ómótt ef þeir þyrftu að sitja samkomur Siðmenntar. En sanntrúlausir kippa sér vart upp við trúarbjástur. Eru þeir ekki sannanlega frjálsir?

En það vakna fleiri spurningar við þennan pirring Siðmenntar því í skólunum fer auðvitað fram endalaus boðskapur um hitt og þetta sem hinir og þessir foreldrar geta ekki tekið undir nema rétt mátulega. Nefna má sem dæmi heimsendaspár um súrt regn og auðlindaþurrð, skilaboð um frábæran árangur á Kúbu í lestrarkennslu, margar umdeildar kenningar um Kreppuna miklu og staðhæfingar um að Sovétríkin hafi verið lýðræðisríki. Nýlega bárust svo fréttir af því að í nafni umhverfisverndar sé nemendum í Melaskóla nú gert að bera sorp heim úr skólanum. Allt eru þetta skilaboð af pólitískum toga.

Auðvitað geta börn hins vegar bara haft gott af því að hlusta á misgáfulegan boðskap, þótt ekki sé nema til þess að læra að þekkja við hvað er að etja í lífinu. Hitt er svo annað mál að ef mönnum blöskrar óendanlega þá er auðvitað ekkert annað í stöðunni en að sækja skóla sem hentar. Í dag er það hins vegar ekki einfalt enda flestir skólar steyptir í sama form. R-listi, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri-grænna, stefnir nú að því leynt og ljóst að útrýma þeim einkaskólum sem starfræktir hafa verið í borginni í hátt í 100 ár. Nemendur skóla eins og Landakotsskóla eiga ekki að fá um það val að sækja þann skóla sem hefur einmitt skýra stefnu í trúmálum. Ef einhver töggur væri í því fólki sem starfar í Siðmennt þá hefði það fyrir löngu komið sér upp skóla sem byggir á siðmenntinni sem fæst með trúleysinu. Það er að vísu ekki hlaupið að því í Reykjavík R-listans, hvað þá í Hafnarfirði Samfylkingarinnar þar sem einkareknum skóla var nýlega fórnað á altari pólitíkurinnar. Það eru þó enn til sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu sem vilja ekki njörva alla niður í sama mót

Eina lausnin á þessu er að sveitarfélögin hætti rekstri skóla og fjölbreytnin og samkeppni aukist milli skóla. Þá er líklegra að menn verði bænheyrðir um skóla við hæfi.