Nokkrir stjórnmálamenn hafa verið í miklu uppnámi að undanförnu vegna mikillar hækkunar á verði fasteigna. Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður kallar þessar sviptingar „trylltan dans“ og starfsbróðir hennar úr Framsóknarflokknum, Hjálmar Árnason, telur vonda fasteignasala „kjafta upp“ verð á íbúðum.
Það er augljóst að eftir að bankarnir lækkuðu vexti og fóru að bjóða aukna þjónustu við íbúðakaupendur ákváðu margir að skipta um húsnæði. Við þessar jákvæðu breytingar á þjónustu bankanna, sem fylgdu í kjölfar einkavæðingar þeirra, hafa sjálfsagt ýmsir fengið langþráð tækifæri til að stækka við sig húsnæði og aðrir ákveðið að kaupa sér húsnæði sem áttu ekki áður. Þessu hefur að sjálfsögðu fylgt aukin spurn eftir húsnæði og verðið hefur hækkað. Og hvað?
Hvaða erindi eiga stjórnmálamenn í þessa umræðu? Nánast ekkert. Jú þeir sumir þeirra geta skammast sín fyrir að hafa tafið einkavæðingu bankanna og þar með byggt upp eftirspurn eftir sómasamlegri bankaþjónustu sem brýst nú skyndilega fram í miklum áhuga á fasteignakaupum. Þessi mikla breyting á fasteignamarkaði er ekki síður því ástandi sem fyrir var að kenna en því sem nú er uppi.
Jóhanna Sigurðardóttir var húsnæðismálaráðherra um árabil. Þá fengu menn lítið lánað á háum vöxtum hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Nú fá menn mikið lánað á lægri vöxtum hjá ýmsum bönkum og fjármálastofnunum. Frjáls viðskipti hafa leyst skömmtunarkerfið af hólmi. Það má vel vera að einhverjir stigi trylltan dans í kjölfarið og kaupi íbúð sem kjöftuð hefur verið upp í verði. En Jóhana og aðrir stjórnmálamenn verða að sætta sig við að þeir hafa litla stjórn á þessu lengur.
Morgunblaðið hitti naglann á höfuðið í fréttaskýringu sinni um nýjasta félagið sem framsóknarkonur, allsstaðar að af landinu, hafa stofnað í Kópavogi. Megintilgangur þess er að vinna að „bættum hag fjölskyldunnar“.
Þar er vitaskuld átt við hag fjölskyldu Magnússona.