Föstudagur 18. febrúar 2005

49. tbl. 9. árg.

Morgunblaðið birti athyglisverða forsíðufyrirsögn um afnotagjöld Ríkisútvarpsins í sunnudagsblaði sínu um síðustu helgi. „Afnotagjöldum breytt í þá veru að fella þau niður“, sagði í fyrirsögninni. Fyrirsögnin kann að líta einkennilega út í fyrstu. Hvernig er bæði hægt að breyta afnotagjöldunum en á sama tíma fella þau niður? Til hvers að breyta því sem fellur hvort eð er niður?

Þegar betur er að gáð kemur þó í ljós að þetta er ekki svo fráleitt hjá Morgunblaðinu. Bæði vegna þess að menntamálaráðherra hafði svarað spurningu blaðsins um hvort afnotagjöldin yrðu felld niður með orðum „Við komum til með að sjá breytingu í þá veru.“ Og ekki síður vegna þess að þótt afnotagjöldin í núverandi mynd verði felld niður þá eiga landsmenn engu að síður að halda áfram að greiða þau!

Ef marka má umræðuna um þetta mál virðist það vissulega liggja í loftinu að afnotagjöldin verði felld niður. Hins vegar virðist það einnig ætlun ríkisstjórnarinnar að landsmenn verði áfram neyddir til að kosta útsendingar ríkisvaldsins á Leiðarljósi, Formula 1 og Speglinum. Annað hvort verður lagður nýr skattur á íbúðareigendur eða gjaldið innheimt með einhverjum hætti tengdum persónuafslætti.

Ætli menn í alvöru að halda því til streitu að ríkið reki fjölmiðil og hann verði fjármagnaður með skattheimtu er það vissulega skömminni skárra fyrir aðra fjölmiðla að afnotagjaldið hverfi inn í aðra skattaheimtu og verði bara ein af mörgum ástæðum fyrir því að skattar á einstaklinga eru svo háir sem raun ber vitni. Núverandi ástand letur menn mjög til þess að gerast áskrifendur að öðrum fjölmiðlum. Þegar menn sitja yfir heimilisbókhaldinu og leita leiða til að spara er hætt við að áskrift að öðrum fjölmiðlum verði oft fyrir valinu þegar menn eru þegar neyddir til að greiða afnotagjöld Ríkisútvarpsins.

Hitt er ekki síður mikilvægt að útgjöld og skattar séu sýnileg. Það er hætt við að stuðningur við ýmis útgjöld ríkis og sveitarfélaga, umboðsmann íslenska hestsins, risarækjueldi, sendiráð um víða veröld, tekjutengt fæðingarorlof, landbúnaðarstyrki og stúkur við íþróttavelli svo fátt eitt sé nefnt, færi minnkandi ef skattgreiðendur fengju gíróseðla heim um hver mánaðamót fyrir hlut hvers og eins. Að því leytinu eru afnotagjöldin einn besti skatturinn sem hér er innheimtur. Aðrar breytingar á afnotagjöldunum en að fella þau niður í alvörunni eru því síst til bóta.