Fimmtudagur 17. febrúar 2005

48. tbl. 9. árg.

Nýir herrar, nýir siðir. Í annarri embættistökuræðu sinni fjallaði dr. Kristján Eldjárn meðal annars um eitt og annað í reynslu sinni af forsetastarfi. Sérstaklega fannst honum ástæða til að tala um ferðalög forsetans og mælti þar um sumt skynsamlega. Um utanreisur sagði Kristján:

Það er sérstakt gleðiefni að skiptast á gagnkvæmum heimboðum við þjóðhöfðingja Norðurlanda, sem oss eru tengd sérstökum böndum vegna sameiginlegra uppruna þjóðanna og náskyldra menningarhátta. En mér er engin launung á því, að ég tel annars að íslenskur forseti eigi að stilla opinberum utanförum og heimboðum í hóf. Ég tel best sæma að berast ekki á í því efni, en halda þar þó virðingu sinni fullri og meta hvert tilvik eftir efnum og ástæðum hvenær sem til umtals kemur. Eftir þessari reglu hefur líka verið farið hingað til og mun verða farið.

Það getur hver svarað með sjálfum sér þeirri spurningu hvernig núverandi forseti Íslands lítur á þessi mál. Í síðustu viku þveittist forsetinn um Indland. Talaði um loftslag í Nýju-Delhi, opnaði tölvubúð í Bombay, mjólkaði heilaga kú í Kalkútta. Alls staðar gerði Ólafur Ragnar mikla lukku og vonbrigði fyrir Indverja að ferðin varð endaslepp þegar hann var skyndilega kallaður heim til að opna nýja útvarpsstöð sem Norðurljós voru að setja í gang.

En það er auðvitað mikilvægt að eiga forseta sem er alltaf til í þjóta heim þegar mikið liggur við. Ekki síst þegar embættisskyldur hans krefjast þess að hann sé meira og minna á flakki. Árið 2003 var þessi öryggisventill þjóðarinnar meira en 100 daga erlendis, við brýn störf. Í fyrra þurfti hann hins vegar að vera meira á vaktinni hér heima. Komst ekki einu sinni í brúðkaup ríkisarfa Danmerkur og náði varla að afboða sig. Eins gott að þetta var ekki stór stund hjá vinaþjóð.