S
Borgarstjóri gleðst yfir nýjum áfanga í skuldasöfnun Reykjavíkurborgar og auglýsir hann með glansmynd í Morgunblaðinu og á vef borgarinnar. |
teinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri í Reykjavík var glaðbeitt á svip í Morgunblaðinu í gær og skyldi engan undra. Hún var að handsala stóran lánasamning við forstjóra stærsta banka landsins og auðvitað þótti sjálfsagt að vekja athygli á því að R-listinn var að ná enn einum áfanganum í skuldsetningu Reykjavíkurborgar. Að þessu baráttumáli sínu, aukinni skuldsetningu höfuðborgarinnar, hefur R-listinn unnið svikalaust, fyrir utan það smáatriði að vísu að hann hefur frá því áður en hann tók við völdum fyrir rúmum áratug lofað að minnka skuldir borgarinnar. R-listinn kvartaði yfir háum skuldum Reykjavíkurborgar þegar hann bauð fyrst fram og líklega trúðu því einhverjir kjósendur þá að skuldirnar væru mikið vandamál og að R-listinn ætlaði sér að lækka þær. Líklega hafa einhverjir líka trúað því fyrir þær kosningar sem haldnar hafa verið síðan að R-listinn ætlaði sér í raun að lækka skuldir borgarinnar. R-listinn hefur hins vegar ekki trúað þessu meira en svo að hann hefur margfaldað skuldirnar á valdatíma sínum og nú er svo komið að skuldir borgarinnar eru yfir 70 milljarðar króna. Með fallegt bros í farteskinu er enginn vafi að borgarstjóra mun takast að ná enn frekari árangri í skuldasöfnun borgarinnar. Vonandi fá borgarbúar áfram að fylgjast með því á síðum dagblaðanna og á vef borgarinnar hvernig þessu mikilvæga baráttumáli R-listans vindur fram.
F yrir einhvern furðulegan misskilning amaðist stjórnarandstaðan við því á sprengidag að Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra væri verklítill maður því hann legði ekki fram nein þingmál og að landbúnaðarnefnd sæti þess vegna auðum höndum. Þetta var misskilningur af að minnsta kosti tveimur ástæðum. Annars vegar af þeirri ástæðu að það er fagnaðarefni en ekkert til að amast við ef ráðherrar halda að sér höndum í laga- eða reglusetningu. Óskandi væri að Guðni yrði aldrei framar með nokkurt þingmál, því að líkurnar á að málið yrði til bóta eru hverfandi. Hins vegar er þetta misskilningur vegna þess að Guðni hefur alls ekkert setið auðum höndum. Hann hefur verið önnum kafinn við að láta nefnd vinna skýrslu um „úttekt á aðstöðu til hestamennsku á landsbyggðinni“ auk þess að setja fram „tillögur um stuðning ríkissjóðs við uppbyggingu hennar“.
Eins og nefnd af þessu tagi gerir undantekningarlaust þá lagði þessi nefnd margt vont til mála. Fyrsta tillaga nefndarinnar er að „ríkið styrki sérstaklega byggingu reiðhúsa á ákveðnum stöðum á landsbyggðinni, skv. skilgreiningu nefndarinnar á slíkum mannvirkjum.“ Er virkilega til fólk sem álítur að eðlilegt sé að skattgreiðendur séu látnir greiða fyrir reiðhús svo að einhverjir aðrir geti riðið út innandyra á þeirra kostnað? – Ekki svo að skilja að það komi málinu við, en talandi um reiðmennsku innandyra – hvers konar útreið er það?
Nú, meðal annarra tillagna nefndarinnar er að ríkið tvöfaldi fé til gerðar reiðvega á landinu, en ekki er skýrt sérstaklega í fréttatilkynningu hvers vegna óskað er tvöföldunar en ekki til dæmis þreföldunar, fjórföldunar eða fimmföldunar. Ja, eða sexföldunar. Hvað mælir á móti því að fjárframlög til reiðvega verði sexfölduð? Sjálfsagt mundi ekkert mæla gegn sexföldun – eða sjöföldun ef út í það er farið – það er að segja ef tillögur nefndarinnar ættu á annað borð einhvern minnsta rétt á sér.