Mánudagur 31. janúar 2005

31. tbl. 9. árg.

Ádögunum var skipuð stjórnarskrárnefnd sem hefur þann tilgang að endurskoða þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem síst geta án slíkrar endurskoðunar verið. Allir stjórnmálaflokkar sem fulltrúa eiga á þingi, fengu að tilnefna fulltrúa í nefndina, og tókst þeim það misvel upp. Sumir þeirra virðast að minnsta kosti hafa haft að leiðarljósi að tilnefna fremur þá sem væru líklegir til að efna til slagsmála en þá sem hugsanlegt væru að hefðu vit á stjórnarskrá og stjórnskipan. Kannski þess vegna sem einnig var skipuð einhvers konar sérfræðinganefnd, til að starfa með hinni. En svo var að vísu skipað eins og var skipað í hana.

Einn fulltrúanna í stjórnarskrárnefndinni er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður. Það er ekki vitað hvað hún veit um stjórnarskrár. Að minnsta kosti bendir nýlegt útvarpsviðtal við hana ekki neitt sérstaklega til þess að frá henni muni koma mjög gagnlegar athugasemdir og tillögur. Um margrædda 26. grein stjórnarskrárinnar, synjunarvald forseta, sagði Ingibjörg Sólrún meðal annars í viðtali á Útvarpi sögu á dögunum:

Mig langar aðeins að blanda mér í þessa umræðu vegna þess að mér finnst gæta ákveðins misskilnings á þessu ákvæði stjórnarskrárinnar sem heimilar forseta að senda frumvarpið, og það er lykilatriði, að það er frumvarpið sem er sent til þjóðarinnar til afgreiðslu. Það er ekki forsetinn sem tekur efnislega afstöðu til málsins og hann er ekki að samþykkja eða synja samþykktum lögum frá Alþingi. Vegna þess að stjórnarskráin segir að það skuli senda það, það er að segja frumvarpið eins og það liggur fyrir á þinginu og það er ekki orðið að samþykktum lögum fyrr en forsetinn er búinn að undirrita það. Hann sendir frumvarpið í dóm þjóðarinnar.

Hér er ýmislegt málum blandið. Það er einmitt ekki þannig að forsetinn sé að vísa máli til þjóðarinnar. Hann er að synja frumvarpi, sem alþingi hefur samþykkt. staðfestingar, og frumvarpið verður að lögum jafnskjótt og forsetinn gerir það. Stjórnarskráin segir skýrlega að forsetinn synjar frumvarpinu staðfestingar, forsetinn er að taka afstöðu til frumvarpsins. Spuninn, „vísar málinu til þjóðarinnar“, er í meginatriðum nokkurra mánaða gömul vitleysa, og hugtakið „málskotsréttur“ er í besta lagi hreinn misskilningur. Eða svo 26. greinin sé látin tala fyrir sig sjálf, þá segir þar einfaldlega, hvorki meira né minna:

Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.

Svo geta menn borið texta stjórnarskrárinnar við orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fulltrúa í stjórnarskrárnefnd. Til dæmis orðin „Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar“ við orðin „hann er ekki að samþykkja eða synja“, eða þá orðin „fær það þó engu að síður lagagildi“ við orðin „stjórnarskráin segir að það skuli senda það, það er að segja frumvarpið eins og það liggur fyrir á þinginu og það er ekki orðið að samþykktum lögum fyrr en forsetinn er búinn að undirrita það. Hann sendir frumvarpið í dóm þjóðarinnar“.

Það er svo annað og sjálfstætt álitamál hvort það er forsetinn persónulega eða ráðherra sem fer með valdið til að synja lögum staðfestingar. Um það hefur ekki verið komist að formlegri niðurstöðu, og var ekki gert í fyrra. Fræðimenn hafa deilt um það og höfðu þær deilur vitaskuld hafist löngu áður en núverandi forseti var kjörinn á Bessastaði. Um þetta var meðal annars fjallað í þekktri ritgerð Þórs Vilhjálmssonar frá árinu 1994, en hann var þá dómari bæði við Hæstarétt Íslands og Mannréttindadómstól Evrópu en hafði áður verið prófessor í réttarfari við lagadeild Háskóla Íslands. Niðurstaða Þórs var sú að „forseta ber því skylda til þess eftir stjórnarskránni að fallast á tillögu ráðherra um staðfestingu (undirritun) lagafrumvarps sem Alþingi hefur samþykkt. Ef svo ólíklega færi, að forsetinn undirritaði ekki, væri sú neitun þýðingarlaus og lögin tækju gildi sem staðfest væru og án þess að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram.“ Það er fjarri öllu lagi, sem reynt hefur verið að halda fram, að skorið hafi verið úr því hvernig skýra beri þessa grein, eða þá að þær deilur tengist persónu þess manns sem er forseti á þessu augnabliki. Úr þessari deilu hefur aldrei verið skorið fyrir dómstólum og engin niðurstaða fékkst um hana í fyrra. En hvort sem menn telja að synjunarvaldið sé í höndum þess forseta, sem samkvæmt stjórnarskránni er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum, eða ráðherra, sem samkvæmt stjórnarskránni fer með vald forseta, þá er eitt ljóst. Hér er á ferðinni synjunarvald en ekki „málskotsréttur“.