Helgarsprokið 30. janúar 2005

30. tbl. 9. árg.

H já Evrópusambandinu hafa menn fengið enn eina snilldarhugmyndina um það hvernig bæta beri heiminn. Nýlega boðaði Markos Kyprianou framkvæmdastjóri heilbrigðis- og neytendamála hjá sambandinu að bregðast þyrfti við auknu offituvandamáli barna í löndum ESB. Beindi hann því til matvælaiðnaðarins að merkja vörur betur og hætta að beina auglýsingum á skyndibitafæði að börnum. Gott og vel. Hér verður ekki amast við því að framkvæmdastjóri heilbrigðismála hjá ESB veki athygli á aukinni offitu barna, veki um hana umræðu og beini tilmælum til hinna og þessara. Verra er að hann greip jafnframt til hótana um lagasetningar makki matvælaiðnaðurinn ekki rétt. Ekki síst í ljósi þess að völd framkvæmdastjóra ESB eru mun meiri en völd hefðbundinna háttsettra embættismanna eða jafnvel ráðherra eins og við þekkjum þau frá þeim vestrænu ríkjum sem við berum okkur jafnan við.

„Þessar hugmyndir eru enn eitt dæmi um forræðis- og miðstýringar-hyggju ESB og góð áminning um það hvernig embættis-mönnum þess verður ágengt í að viða að sér völdum.“

Þrátt fyrir að um vitleysistillögu sé að ræða, sem er af sama meiði og hugmyndir sem reglulega eru uppi um að banna beri auglýsingar leikfanga, væri óviturlegt að skella skollaeyrum við hótuninni. Enda er vald mannsins sem setur hana fram mikið og getur hún haft ófyrirséð áhrif á heila iðnaðargrein í hátt á þriðja tug þjóðríkja, gangi hún eftir. Vald embættismanna í Brussel er því miður allt of lítið í sviðsljósinu, þó að einstaka sinnum komi það berlega í ljós.

En út á hvað gengur hótun framkvæmdastjórans. Þetta er nú kannski ekki svo galið. Banna auglýsingu á óhollu fæði. Af hverju ekki? Koma í veg fyrir að fólk sé heilaþvegið til að éta einhvern óþverra. Hverjum er ekki sama þó að hætt sé að auglýsa hamborgara, sykrað kók og súkkulaði? Ekki verður að þessu sinni fjallað um þann hóp manna sem ekki er sama í ljósi þess að hann vill kynna vöru sína og á hagsmuna að gæta í því að fá að gera það án of mikilla afskipta hins opinbera eða ESB. Ekki heldur þá velþekktu staðreynd að auglýsingar eru mikilvægt tæki fyrir neytendur til að öðlast þekkingu á markaðnum á einfaldan og ódýran hátt. Nú eða það mikilvæga hlutverk sem auglýsingar gegna í samkeppninni við að kýla niður verðið, neytendum til góða, því að þeim mun betur sem neytendur eru að sér um verð ákveðinnar vöru á markaði, þeim mun nær neðri þolmörkum seljenda er hún verðlögð. Nei, nú er ætlunin að fjalla eilítið um vitleysuna sem felst í hótuninni.

Nú eru sjálfsagt margir þeirrar skoðunar að ágætt væri að banna að auglýsa sykraða gosdrykki eða þá sæta djúsa á borð við Svala, enda innihalda þeir ómælt magn sykurs. Þá myndu neytendur, og þar með börn, sjálfsagt kaupa og neyta mun meira af hollum drykkjum eins og mjólk eða undanrennu. En bíddu nú hægur. Hvað þá með kókómjólk, á að banna að auglýsa hana? Nú, svo eru það sykurlausu gosdrykkirnir, auðvitað verður að banna þá. Þó að þeir séu hugsanlega ekki eins óhollir og hinir sykruðu, þá má ekki gleyma því að þeir innihalda kolsýru sem étur upp glerung tannanna auk þess sem í þeim eru ýmis önnur efni sem sumum er illa við. Banna auglýsingar á þeim. Þá má nú ekki gleyma bölvuðu lýsinu. Það er nú beinlínis hættulegt, því að eins og allir vita er neysla of mikils D-vítamíns óholl og getur valdið skaða og í versta falli dauða. Ef banna á auglýsingar á einhverju, þá hlýtur það að vera á því sem er heilsuspillandi. Eins og á við um flest, þá er neysla mjólkur í algeru óhófi ekki holl, svo ekki sé talað um feita osta. Banna auglýsingar á þeim. Og á feitu kjöti enda óhollusta þess vel þekkt.

Er Kókómjólk nægilega lítið óholl til að hana megi auglýsa? Eða telst hún ef til vill bráðholl?

Kjarni málsins er að flest er óhollt í óhófi, sumt óhollara en annað en mörkin eru langt frá því að vera skýr. Hér vakna líka mikilvægar spurningar. Hver á að draga mörkin og hvar á að draga þau? Við óhollustu eða ekki holla fæðu? Margt er hollt í hófi og óhollt í óhófi. Annað lítur út fyrir að vera hollt, en er hvorki óhollt né hollt og neytendur blekktir til að trúa því að það sé hollt. Banna það! Á að draga mörkin við ákveðið magn sykurs, fitu, sýru, D-vítamíns, salts, kolvetnis og svo framvegis? Og hver á að sjá um að draga mörkin og hvernig? Nefnd sérfræðinga skipuð af framkvæmdastjóra ESB? Hver eiga völd þeirra að vera? Á fara í saumana á öllum auglýsingum í ESB? Eða á sérfræðinganefndin að skoða fæðutegundir og flokka þær í auglýsingahæfar eða ekki? Eiga fyrirtæki sem áhuga hafa á því að auglýsa matvæli að þurfa að sækja um það sérstaklega með innihaldslýsingu vörunnar? Á kannski að setja almennar reglur og nefnd til eftirlits, sem sektar þá sem fara yfir línuna og augýsa vöru sem reynist innihalda grammi of mikið af fitu? Og hvað með samsetningu efnanna, þarf ekki að skoða efnið í matvælunum í heild og samspil þeirra? Það yrði um ákaflega umfangsmikið verkefni að ræða, hvaða leið sem yrði fyrir valinu. Auk þess sem gráa svæðið er svo stórt að sífellt yrði um ágreining og prófmál að ræða. Það sjá sem betur fer flestir hvílík vitleysa þessi hugmynd er, ef frá eru taldir embættismenn ESB, enda myndu völd þeirra aukast enn við þetta. Með þessu væri verið að taka enn meiri ábyrgð af borgurum ríkja ESB og yfirvöld færu í auknum mæli að skipta sér af daglegu lífi þeirra. Auk þess sanna dæmin að menn finna leiðir í kringum auglýsingabönn, nema ef vera skyldi í ríkjum sem við viljum allra síst bera okkur saman við, svo sem Íran og Sádi-Arabíu. Ekki þarf að fletta mörgum Morgunblöðum til að finna dæmi þess frá bjórframleiðendum.

Þessar hugmyndir eru enn eitt dæmi um forræðis- og miðstýringarhyggju ESB og góð áminning um það hvernig embættismönnum þess verður ágengt í að viða að sér völdum. Hið óhugnanlegasta í þessu öllu saman er, að brátt verður stigið enn eitt mikilvægt skref í átt að myndun ESB-ríkis. Davíð Oddsson utanríkisráðherra sagði nýlega að drægist úr ofstýringartilhneigingu sambandsins væri í framtíðinni ekki útilokað að Ísland gerðist aðili. Nefndi hann að við frekari stækkun sambandsins, eins og ef Tyrkland eða Úkraína yrðu aðilar að sambandinu, myndi hugsanlega draga úr miðstýringunni enda yrði hún sífellt erfiðari eftir því sem sambandið stækkaði og næði til ólíkari þjóða og hópa. Vonandi að satt reynist. Tilhneigingin hefur hins vegar því miður verið önnur hingað til. Við hverja stækkun eða breytingu á sáttmála sambandsins hefur miðstýringin aukist, vald sambandsins verið aukið á kostnað aðildarríkjanna og samstarfið náð til fleiri sviða. Verði stjórnarskráin samþykkt, en ólíklegt verður að telja að stjórnmálaelíta aðildarríkjanna, sem að stærstum hluta er hlynnt henni, finni ekki einhverja leið til að þvinga hana í gegn með góðu eða illu, mun vald ESB enn aukast á kostnað aðildarríkjanna og samstarfið ná til enn fleiri sviða, auk þess sem enn verður dregið úr möguleika aðildarríkjanna til að beita neitunarvaldi.

Nýjasta tillaga framkvæmdastjóra heilbrigðis- og neytendamála Evrópusambandsins er því góð áminning um eðli og umfang sambandsins. Hægt var að hlæja að svipaðri tillögu Samfylkingarinnar um daginn, svo lengi sem Samfylkinginn er í stjórnarandstöðu að minnsta kosti. Tillaga framkvæmdastjórans er hins vegar ekkert fyndin, enda völd hans gífurleg.