Þriðjudagur 1. febrúar 2005

32. tbl. 9. árg.

Það hefur sjálfsagt komið mörgum jafnþægilega á óvart að opna launaumslagið um þessi mánaðamót og það skaut mörgum skelk í bringu að opna umslagið frá Reykjavíkurborg með álagningu fasteignagjalda á dögunum.

Eftir þær lækkanir sem urðu á tekjuskattinum um áramótin hafa hjón, með 250 þúsund krónur hvort í mánaðarlaun, um 5.000 krónum meira í ráðstöfunartekjur á mánuði eða um 60 þúsund krónur á ári. Krónunum í launaumslaginu hefði fjölgað enn meira ef Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög hefðu ekki hækkað útsvarið. Þetta er því miður ekki í fyrsta sinn á síðustu árum sem sveitarfélögin laumast til að hækka útsvarið í skjóli skattalækkana ríkisins. Enn og aftur óskar Vefþjóðviljinn eftir því að tekjuskattur til ríkisins og útsvar til sveitarfélaga verði gerður þannig úr garði að auðveldlega megi sundurliða þessa þætti tekjuskattsins á launaseðlum.

Þessi ánægjulega þróun á hlut ríkisins í tekjuskattinum á að halda áfram um næstu áramót. Samkvæmt núgildandi lögum getur Reykjavíkurborg ekki hækkað útsvarið frekar svo að allt útlit er fyrir að borginni lánist ekki að ræna enn einni skattalækkuninni af borgarbúum.

Lýðræðið er skemmtilegt. Á sjónvarpsstöðinni CNN í gær, skiptir ekki öllu máli klukkan hvað, var rætt við gamlan mann á kjörstað í Írak. Gamli maðurinn var afar ánægður að fá að kjósa. Hann taldi sig þurfa þrennt í lífinu; frið, frelsi og mat á borðið. Til að tryggja sér og löndum sínum þetta allt á einu bretti ætlaði hann að kjósa flokk kommúnista.

Ígær lýsti John Kerry því yfir að Osama bin Laden bæri ábyrgð á ósigri Kerrys í forsetakosningunum í nóvember. Jæja. Engum er alls varnað.