Mörgum íbúum höfuðborgarinnar hefur sjálfsagt brugðið í gær þegar borgarstjórn sendi þeim tilkynningu um álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2005. Fasteignaskattur, lóðarleiga og holræsagjald hafa snarhækkað frá fyrra ári með hækkandi fasteignaverði. Þessir skattar eru allir hlutfall af fasteignaverðinu. Það er óneitanlega nokkuð sérstakt að holræsagjaldið fylgi með þessum hætti verði fasteigna. Eins og frægt er ætlaði R-listinn einnig að hækka þetta hlutfall nú um áramótin en varð að draga þá ákvörðun sína til baka. Það hjálpaði R-listanum vafalítið til að draga þessa skatthækkun til baka að bæjarstjórnin á Seltjarnarnesi hafði ákveðið á koma til móts við íbúa á nesinu með því að lækka hlutfall fasteignagjalda. R-listinn treysti sér ekki til að sitja uppi með skattahækkun á meðan nágrannarnir voru að lækka sína skatta. Engu að síður hækka tekjur borgarinnar af fasteignagjöldum mjög milli ára eins og borgarbúar sáu svart á hvítu á álagningarseðli fasteignagjalda í gær. Að sama skapi minnkar í buddum borgarbúa.
Á móti kemur að ríkið er að fella niður eignarskatta. Það ætti raunar að vera umhugsunarefni að á meðan ríkið lækkar skatthlutföll á bæði eignir og tekjur hefur R-listinn í Reykjavík bæði hækkað fasteignagjöld og útsvar.
En það er fleira en álagðir skattar sem hafa áhrif á það hvaða skatta menn þurfa að greiða. Þegar upp er staðið eru það útgjöldin sem valda sköttunum. Vegna mikillar útgjaldaaukningar á síðustu árum hjá sveitarfélögum eins og Reykjavík hafa skattar verið hækkaðir til að mæta eyðslunni. En þótt hvert eyðslumetið af öðru falli í borgarstjórn Reykjavíkur eru til fleiri útgjaldatillögur. Í borgarstjórn er sérstakur fulltrúi enn meira frjálslyndis með annarra manna fé. Frjálslyndi flokkurinn hefur til að mynda lagt það til á undanförnum misserum að ákveðnir hópar manna fái „frítt“ í strætó. Í dag niðurgreiða skattgreiðendur á höfuðborgarsvæðinu þjónustu strætó um 60% og í raun meira fyrir þessa hópa fólks sem frjálslyndi flokkurinn vill gefa alveg frítt í strætó. Það sem frjálslyndir eiga þó í raun við með þessari tillögu er að skattar verði hækkaðir til að auka niðurgreiðslur til strætó. En það segja þeir auðvitað aldrei. Það hljómar ekki jafnvel og að gefa frítt í strætó.