Þriðjudagur 25. janúar 2005

25. tbl. 9. árg.

Fréttaflutningur Fréttablaðsins þann 20. þessa mánaðar af umræðum í utanríkismálanefnd Alþingis veturinn 2002 til 2003 varð til þess að degi síðar var Þórunn Sveinbjarnardóttir mætt í sjónvarpsviðtal áhyggjufull og hneyksluð yfir leka úr nefndinni. „Það er auðvitað illa við það unandi að allir í nefndinni liggi undir grun eins og nú er,“ sagði Þórunn í viðtalinu. Þá sagði fréttamaður Ríkissjónvarpsins: „Þú ert sem sagt að segja að þetta sem kemur fram í blaðinu sé allt saman satt og rétt?“ Þórunn: „Ég las þetta í morgun og mér sýnist, allavega eins og mig rekur minni til, að þetta sé svona ca. það sem gerðist á þessum fundi. Það eru náttúrlega liðin næstum því tvö ár síðan, en þetta mál hefur verið í umræðunni að undanförnu og ég hef verið að fara í gegnum mín gögn, meðal annars til að skrifa blaðagreinar og annað, og mér sýnist að þetta sé rétt.“

Líklega hafa fleiri en Vefþjóðviljinn furðað sig á þessu svari Þórunnar. Hún byrjar á því að lýsa yfir áhyggjum af meintum leka úr nefndinni, en segir svo að upplýsingarnar sem lekið hafi verið séu réttar. Svo núna eru þær í raun hafðar eftir nefndarmanni en ekki bara út í loftið. Og það sem meira er, hún leggur sig fram um að útskýra það að hún hafi nýlega farið í gegnum skjalasafn sitt og geti þess vegna staðfest að frétt Fréttablaðsins sé rétt. Hvað á að segja við svona löguðu? Hvernig stendur á því að Þórunn, sem segist hafa á móti því að lekið sé úr nefndinni, segir að upplýsingar sem virðast hafa lekið úr nefndinni séu réttar? Hvers konar trúnaður er það við utanríkisnefnd og Alþingi að staðfesta að upplýsingar, sem ekkert liggur fyrir um að eigi sér stoð í raunveruleikanum, séu réttar? Telur Þórunn að hún hafi haldið trúnað? Er Þórunn þeirrar skoðunar að hún liggi síður undir grun eftir að hafa losað um málbeinið frammi fyrir alþjóð?

Þess má svo geta að skömmu síðar í fréttinni kom fram að núverandi formaður utanríkismálanefndar, Sólveig Pétursdóttir, vildi ekki tjá sig um hvort upplýsingarnar sem fram komu hjá Fréttablaðinu væru réttar eða rangar. Má Vefþjóðviljinn leggja það til að næst þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir verður beðin um að veita upplýsingar um umræður á fundum utanríkisnefndar, þá fari hún að fordæmi Sólveigar og lögum Alþingis og neiti að svara?