Mánudagur 24. janúar 2005

24. tbl. 9. árg.

Ætíð þegar líður að lokum kjörtímabils, hvort sem er sveitarstjórnar eða alþingis, taka mjög að örvænta þeir í stuðningsmannaliði valdhafa sem mestan áhuga hafa á framgangi stefnu flokks síns eða samtaka. Það rennur nefnilega upp fyrir þeim að hann er takmarkaður, árangurinn sem hægt er að ná á fjórum árum. Stundum er það auðvitað svo, að kjörnir valdhafar reyna ekki einu sinni að ná því fram sem þeir lofuðu kjósendum sínum, en jafnvel þó þeir séu allir af vilja gerðir, þá verður það oftast svo að mörgum verkefnum er ólokið, næst þegar ganga þarf til kosninga. Það tekur tíma að undirbúa og ná fram stefnumálum. Sé ekki eytt óratíma í vandlega undirbúningsvinnu, þá getur minnihlutinn eða stjórnarandstaðan endalaust tafið málið með því að suða um „málsmeðferðina“ og „aðkomuna“, og jafnvel talið borgurunum og að sjálfsögðu fréttamönnum trú um að málið sé allt eitt klúður. Undirbúningur stefnumála er þó varla það sem tefur mest fyrir. Væntanlega eru það hin daglegu úrlausnarefni sem eyða mestum tíma frá þeim sem kjörnir eru til trúnaðarstarfa. Borgarstjóraefni getur til dæmis lofað og lofað fyrir kosningar. En ef það nær kjöri, þá þarf það að opna Elliðaárnar, tala á herrakvöldi Fylkis, afhenda viðurkenningu í Höfða og vera viðstatt þegar milljónasta pepsídósin er pressuð í Sorpu. Að því búnu er kannski hægt að fara að vinna að því að koma stefnuskránni í framkvæmd. Og áður en hinn nýkjörni veit af, þá er kjörtímabilið liðið. Fjögur ár eru fljót að líða.

Auðvitað má þó gera eitt og annað á fjórum árum, mörg eru dæmin um það. Og ef menn ná endurkjöri þá eru þeir kannski komnir með átta ár, og það munar verulega um það. Undanfarin átta ár hafa til dæmis verið viðburðarík í íslenskum þjóðmálum og gríðarlegar breytingar orðið. Skattar hafa verið lækkaðir, bankar einkavæddir og skuldir ríkissjóðs verið lækkaðar en ríkisútgjöld hafa engu að síður aukist á flesta mælikvarða. Í höfuðborginni hafa skattar hins vegar verið hækkaðir og borgin þanið út starfsemi sína, ekki síst undir merki Orkuveitu Reykjavíkur, ásamt því að safna skuldum í gríð og erg. Það er hægt að gera eitt og annað á átta árum. Vefþjóðviljinn fyrir sitt leyti nýtti síðustu átta ár til að koma tvöþúsundníuhundruðtuttuguogtvisvar sinnum út, en í dag eru einmitt átta ár liðin frá því útgáfa blaðsins hófst. Ekki hyggst blaðið halda sérstaka hátíð af því tilefni, en vill heldur ekki láta afmælisdaginn líða án þess að þakka lesendum sínum samfylgdina. Sérstaklega þakkar Vefþjóðviljinn þeim lesendum sem verið hafa svo vinsamlegir að hafa samband við blaðið, hvort sem það hefur verið til þess að þakka fyrir útgáfu þess, segja skoðun sína á einstöku tölublaði eða þá til að hvetja aðstandendur þess til að snúa sér fremur að þeim verkefnum þar sem hæfileikar þeirra, ef nokkrir séu, kunni að nýtast. Allar þessar sendingar eru blaðinu hvatning sem sjálfsagt er að þakka fyrir. Þá vill blaðið koma sérstökum þökkum til þeirra lesenda sem hafa séð sér fært að létta því lífið með svolitlum fjárframlögum. Allur kostnaður við útgáfuna er greiddur með frjálsum framlögum lesenda og um leið og blaðið þakkar þessum ágætu lesendum, leyfir það sér að benda þeim, sem kynnu að vilja slást í þennan góða hóp, á að slíkar ráðstafanir má gera með því að smella á orðin frjálst framlag, hér til vinstri.

Þessi átta ár hefur blaðið talað fyrir þeim meginsjónarmiðum sem lesendur munu kannast við; að auka eigi svigrúm borgarans til orða og athafna, minnka opinber útgjöld, lækka skatta, fækka boðum og bönnum. Ekki fer blaðið sjálft að dæma um það hvernig því hefur tekist málflutningur sinn, en þeir sem ekki líkar lesturinn geta þó huggað sig við að blaðið reynir að ónáða fólk ekki að fyrra bragði. Blaðið sendir sig vitaskuld ekki óbeðið í tölvur fólks. En þó ætla megi að lesendur séu nær aðeins þeir sem sjálfir hafa sótt sér blaðið, þá fer ekki hjá því að blaðið hafi tekið eftir því að þeir séu misjafnlega ánægðir með það sem boðið er upp á. Hefur jafnvel borið á því að einstakir lesendur hafi samband við blaðið og gefi í skyn að þeir eigi rétt á því að það fjalli um tiltekin mál og þá með einum hætti en alls ekki öðrum. Blaðið hefur meira að segja orðið fyrir því, að taka tiltekna afstöðu í ákveðnu deilumáli, en fá þá þau skilaboð frá æstum lesendum, sama sinnis, að ekki aðeins hafi blaðinu verið skylt að taka þessa afstöðu til málsins, heldur sé því jafnframt skylt að þegja um það sem vera kann ámælisvert í framgöngu þeirra sem eru sömu skoðunar í málinu! Og blaðið fær oft bréf um mál sem snerta stjórnmálabaráttuna ekki vitund. Þau erindi geta verið hin furðulegustu. Þannig stóð blaðið um nokkurn tíma í undarlegum bréfaskiptum við nokkra lesendur, sem blaðið hafði ekki áður og aldrei síðan reynt að sérstakri umhyggju fyrir sér eða efnistökum sínum, en sem skyndilega sóttu all fast að blaðið tæki að velta sér upp úr óförum lítt þekkts embættismanns sem varð eitthvað lítilfjörlegt á í algerlega ópólitískri embættisfærslu sinni, og þannig mætti lengi áfram telja. Sum bréfin, sem blaðinu berast, eru raunar þess eðlis að blaðið nær því miður ekki að sýna þeim þann skilning sem bréfritararnir alveg áreiðanlega eiga skilið, og er þar vitanlega við blaðið að sakast en ekki lesendurna. Og þessi orð má alls ekki skilja þannig að Vefþjóðviljinn fagni ekki kveðjum lesenda sinna, líka þeim örfáu bréfum þar sem blaðið hefur ekki minnstu hugmynd um hvað átt er við. En er ekki líka eitthvað heillandi við grafalvarleg bréfaskipti aðila sem hvorugur nær nokkru minnsta hugsanasambandi við hinn?

En auðvitað er það alger undantekning ef blaðinu berst bréf sem er þess eðlis að blaðið treystir sér ekki til að slá neinu föstu um það hvað bréfritarinn á við. Þau eru hins vegar mörg bréfin sem blaðið telur sér mikinn ávinning að. Blaðið er þakklátt fyrir viðbrögð og athugasemdir lesenda og les þau jafnan með athygli og ánægju, þó það viti ekki hversu vel því gengur að endurgjalda lesendunum ánægjuna. Þeim, sem vera kunna ánægðir með ritstjórnarstefnu blaðsins, má þó segja að blaðið hefur engin áform uppi um að breyta henni, heldur mun hér eftir sem hingað til taka þá afstöðu sem meginskoðanir þess bjóða. Hinum, sem kunna verr við það sem þeir lesa í blaðinu, finnst blaðið sjálfsagt að skaprauna með því að segja nákvæmlega það sama, og með þeim orðum þakkar Vefþjóðviljinn lesendum sínum samfylgdina undanfarin átta ár.