Helgarsprokið 23. janúar 2005

23. tbl. 9. árg.

B

Fróðleg og skemmtileg bók fyrir áhugamenn um íslensk stjórnmál á 20. öldinni.

ókin Forsætisráðherrar Íslands kom út síðast liðið haust í tilefni af eitt hundrað ára heimastjórnarafmælinu. Í bókinni, sem samtals er um fimm hundruð blaðsíður, eru stuttar frásagnir af ráðherrum Íslands framan af tuttugustu öldinni og svo forsætisráðherrum landsins, alls tuttugu og fjórum mönnum. Fyrir áhugamenn um sögu Íslands, ekki síst stjórnmálasögu landsins, er mikill fengur að bókinni, því að hún er fróðleg samantekt um þróun stjórnmála á tuttugustu öldinni, sem óneitanlega var öld mikilla breytinga hér á landi. Bókin er líka skemmtilega fjölbreytt, enda eru höfundar jafn margir ráðherrunum og frásagnarmátinn og framsetningin ólík. Flestir höfundanna hafa unnið gott verk og virðast hafa lagt sig nokkuð fram um að draga upp trúverðuga mynd af viðkomandi ráðherra og þeim viðburðum sem urðu helstir í hans tíð, en vitaskuld tekst þeim þó misvel upp. Guðmundur Árni Stefánsson formaður Alþýðuflokksins og þingmaður Samfylkingarinnar ritar til að mynda ágætan kafla um Benedikt Gröndal fyrrverandi formann Alþýðuflokksins og forsætisráðherra í nokkra mánuði haustið 1979 og fram yfir áramótin 1980. Guðmundur Árni byggir töluvert á viðtölum við menn sem voru þátttakendur í atburðum á þessum tíma og tekst þannig að draga fram eitt og annað sem ekki hefur komið fram áður. Þetta gera ýmsir aðrir höfundar einnig og eykur það gildi bókarinnar þar sem hún bætir við ritaðan fróðleik um þá suma þá forsætisráðherra sem minnst hafði verið fjallað um áður.

„Fór svo í meðförum Alþingis að enginn af þingmönnum þeirra flokka sem runnu inn í Samfylkinguna, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags eða Kvennalista, studdi frjálst útvarp. Enginn!“

Sá kafli sem er hvað sístur í bókinni er kaflinn um Steingrím Hermannsson eftir Sigurð Eyþórsson framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins. Sigurður er langt í frá eini maðurinn sem skrifar um pólitískan samherja, en virðist eiga erfiðara en aðrir með að horfa á þennan fyrrverandi formann Framsóknarflokksins með augum annarra en sanntrúaðra flokksmanna. Honum er að vísu nokkur vorkunn þar sem helsta heimild hans er helgisaga Dags B. Eggertssonar borgarfulltrúa R-listans um Steingrím. Raunar er svo mjög stuðst við bækur Dags í umfjöllun Sigurðar, að ef til vill hefði farið betur á því að Dagur hefði einfaldlega verið fenginn til verksins. Nú, eða jafnvel Steingrímur sjálfur, enda hefur hann að því er virðist haldið þétt um penna Dags við ritun helgisögunnar. Um hæpna framsetningu í kaflanum um Steingrím má til að mynda nefna að þar segir frá því að í tíð fyrri ríkisstjórnar Steingríms, 1983 til 1987, hafi verið sett ný útvarpslög sem gáfu útvarpsrekstur frjálsan, en Ríkisútvarpið hafi fram til þess tíma haft einkarétt á hljóðvarps- og sjónvarpsútsendingum allt frá stofnun þess árið 1930. Þetta er út af fyrir sig allt satt og rétt svo langt sem það nær, en inn í frásögnina vantar hins vegar sárlega að forsætisráðherrann Steingrímur Hermannsson sat hjá við atkvæðagreiðsluna um frjálsan útvarpsrekstur! Og forsætisráðherrann var alls ekki eini Framsóknarmaðurinn sem ekki vildi styðja frelsi í útvarpsrekstri, annar ráðherra Framsóknarflokksins í þessari ríkisstjórn, Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins, greiddi atkvæði gegn frjálsu útvarpi og hið sama gerðu fleiri framsóknarmenn.

En framsóknarmenn voru ekki einir um að styðja ekki málið, því að kratar – eða jafnaðarmenn eða samfylkingarmenn eins og þeir kalla sig nú – sem á góðri stundu þykjast málsvarar frelsisins voru í þessum hópi. Meira að segja átrúnaðargoðið sjálft, Jón Baldvin Hannibalsson, fékkst ekki til að styðja málið. Fór svo í meðförum Alþingis að enginn af þingmönnum þeirra flokka sem runnu inn í Samfylkinguna, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags eða Kvennalista, studdi frjálst útvarp. Enginn! Ástæða þess að frumvarp um frjálst útvarp varð engu að síður að lögum er að Framsóknarflokkurinn var ekki einn í ríkisstjórn heldur starfaði þar með Sjálfstæðisflokki og menntamálaráðherra þess flokks, Ragnhildur Helgadóttir, lagði frumvarpið fram og þingmenn flokksins studdu málið. Það er því nokkuð sérkennilegt að láta að því liggja í frásögn um forsætisráðherratíð Steingríms Hermannssonar að hann eða flokkur hans eigi heiður skilinn fyrir það að Íslendingar geta hlustað á aðrar hljóðvarps- og sjónvarpsstöðvar en þær sem eru í eigu ríkisins.

Kaflinn um Ólaf Thors formann Sjálfstæðisflokksins er mjög fróðlegur, sér í lagi fyrir þá sem ekki hafa lesið ævisögu Matthíasar Johannessen um Ólaf og bókina Þjóð í hafti eftir Jakob F. Ásgeirsson, sem ritar kaflann um Ólaf í þessari bók. Í kaflanum tekst vel að draga fram það helsta sem gerðist í pólitísku lífi Ólafs Thors og kaflanum lýkur á því að segja að pólitísk arfleifð Ólafs sé „flest það sem horft hefur til varanlegra framfara í íslenskum þjóðmálum á 20. öld.“ Þetta eru stór orð, en eiga þó rétt á sér enda var Ólafur áratugum saman í forystu íslenskra stjórnmála og beitti sér almennt fyrir því sem til betri vegar horfði. Hann stóð til að mynda vörð um þingræðið, barðist gegn ranglátri kjördæmaskipan, lagði grunninn að sigrum í landhelgismálinu og stóð fyrir fleira sem Jakob nefnir í kafla sínum. Þar segir meðal annars: „Hann hafði forystu um að leysa þjóðina úr haftaviðjum með viðamiklum efnahagsaðgerðum þar sem leiðarljósið var raunhæf gengisskráning og athafnafrelsi.“

Fólk sem ekki hefur kynnst sögu íslenskra efnahags- og atvinnumála á tuttugustu öldinni á erfitt með að skilja mikilvægi þessa, því að nú hefur þeim málum verið komið það vel fyrir að jafnvel forystumenn stærstu fyrirtækja landsins segjast gjarnan aðspurðir ekki sjá neitt sem knýjandi sé að bæta úr á þessum sviðum. Oft á árum áður, sérstaklega þegar vinstri stjórnir hafa verið við völd, hefur allt verið í hers höndum í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Umfangsmikil viðskiptahöft voru hér miklu lengur um og upp úr 20. öldinni en í öðrum löndum og er þar um að kenna vinstri stjórnum sem hvorki höfðu getu né vilja til að laga ástandið. Segja má í stuttu máli að efnahags- og atvinnumál hafi fyrst færst mjög til betri vegar með Viðreisnarstjórninni sem tók við völdum undir forystu Ólafs Thors í lok sjötta áratugarins og sat í rúman áratug, og að eftir um tuttugu ára þrautargöngu með tíðum vinstri stjórnum hafi stjórnir Davíðs Oddssonar haldið verkinu áfram í byrjun tíunda áratugar 20. aldarinnar. Þær hafa náð miklum árangri eins og viðhorf forystumanna atvinnulífsins benda til, þó að vitaskuld ljúki slíku verki aldrei.

Síðasti kafli bókarinnar fjallar um Davíð Oddsson, en sá kafli er ólíkur öðrum köflum að því leyti að þar er fjallað um stjórnmálamann sem enn er í fremstu víglínu stjórnmálanna og er augljóslega ekki hægt að draga upp heildarmynd af pólitískum ferli sem enn stendur yfir. Í kaflanum tekst engu að síður vel að draga upp mynd af því sem Davíð hefur þegar fengist við sem forsætisráðherra. Ritstjórninni hefur verið nokkur vandi á höndum að velja höfund kaflans, en það var vel til fundið að fá Styrmi Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðsins til verksins. Hann hefur í gegnum tíðina ýmist stutt stefnu núverandi stjórnvalda eða gagnrýnt hana af hörku og var því líklegri en margir aðrir til að leysa verkið vel, sem hann og gerði. Kaflinn er ágætt yfirlit yfir stjórnmálasögu síðustu ára, þau viðfangsefni sem forsætisráðherra hefur staðið frammi fyrir og þann árangur sem náðst hefur.