Þ egar Ragnar Árnason prófessor við Háskóla Íslands vakti um daginn máls á þeim möguleika að Íslendingar segðu upp EES-samningnum tóku þeir sem tekið hafa trú á Evrópusambandið andköf og máttu vart mæla af hneykslun. Þó tókst þeim að koma því á framfæri að þetta væri hin mesta firra og að Ragnar vissi greinilega ekkert um hvað hann væri að tala. Einn þeirra tók jafnvel svo stórt upp í sig að segja að ef af yrði þyrfti að kalla heim banka og önnur fyrirtæki sem fært hafa út kvíarnar til annarra landa. Bjarni Ármannsson forstjóri Íslandsbanka var í Viðskiptablaðinu inntur álits á þessu og taldi þetta ekki rétt, ekki þyrfti að kalla fyrirtækin heim. Aðrir sem til þekkja hafa tekið í sama streng. Þá eru þeir til sem bent hafa á að í löndum Evrópusambandsins séu starfandi fjölmörg fyrirtæki frá löndum sem ekki eru aðilar að EES-samningnum, en þessi staðreynd virðist hafa farið fram hjá þeim sem bíða hvað spenntastir eftir Evrópuhraðlestinni. Áhyggjur Evrópusinnanna eru vitaskuld óþarfar og líklegast er reyndar að þeir trúi ekki sjálfir eigin áróðri.
Í Viðskiptablaðinu í gær er hugsanleg uppsögn EES-samningsins aftur til umfjöllunar í grein eftir Ólaf Teit Guðnason. Þar er fjallað um skýrslu sem kom út sumarið 2003 og heitir Ísland og Evrópusambandið: EES, ESB-aðild eða „svissnesk lausn“? Útgefendur voru Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Norsk Utenrikspolitisk Institutt. Í skýrslunni mun koma fram að sama hver þessara þriggja kosta verði fyrir valinu þá sé lítil ástæða til að ætla að af því hljótist miklar kollsteypur. Þar segir einnig: „Það er til dæmis ekki ástæða til að gera ráð fyrir öðru en að áhrifin af þátttöku Íslands í innri markaði ESB á íslenskt efnahagslíf séu tiltölulega óháð því hvaða form á stjórnmálalegum tengslum landsins við Evrópu verður fyrir valinu. Reikna má með að réttindi og skuldbindingar íslenskra fyrirtækja muni í stórum dráttum verða svipuð, þótt vissulega skipti það kerfi sem EES-samstarfið býður upp á til úrlausnar ágreiningsmálum miklu máli í samanburði við „svissnesku lausnina“.“
Þeir sem halda fram þeirri sögulegu nauðhyggju að Ísland hljóti að enda inni í Evrópusambandinu og þess vegna sé eins gott að sækja um aðild fyrr en síðar eru afar ósáttir við að framtíð sé í fleiru en inngöngu í þetta tollabandalag og skrifræðisbákn. Þeir munu áfram gera lítið úr hugmyndum sem ganga út á að Ísland haldi sjálfstæði sínu og standi utan Evrópusambandsins, enda dauðlangar suma þeirra að verða hluti skrifræðisbáknsins og munu ekki láta einfaldar staðreyndir stöðva sig í þeirri baráttu.