Sumarið 1958 var haldið héraðsmót í Egilsstaðaskógi. Þar hélt ræðu eitt vinsælasta skáld Íslands á síðustu öld, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Þó brátt verði liðin hálf öld frá því skáldið talaði yfir Austfirðingum, þá er ekki þar með sagt að ekkert í máli þess eigi erindi við þá sem nú eru á dögum.
Þrennt var það á Íslandi, sem talið var óteljandi í ungdæmi mínu: Eyjar og sker á Breiðafirði, Vatnsdalshólar og vötn á Tvídægru. En nú hefur fleira bætzt í hópinn: Lög og lagafrumvörp hins háa Alþingis, og hin óteljandi félög, en þeim fjölgar daglega líkt og gorkúlum á haugi. Hver þingmaður og hver ríkisstjórn telja sér skylt að peðra út úr sér svo og svo mörgum frumvörpum og lagaboðum, sem sýna eiga stjórnkænsku og umhyggju löggjafans fyrir landslýðnum. En eru ekki mörg þessara laga ráðþrota fálm, óþörf með öllu, og sum blátt áfram skaðleg, líkt og kínversku kvenskórnir forðum og gömlu lífstykkin, sem konur reyrðu svo fast að sér, að fóstri þeirra var ofboðið? |
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi 21. janúar 1895 – 1. mars 1964. |
Nú er auðvitað sjálfsagt að fara varlega í að taka traustataki orð látinna manna og draga af þeim ályktanir um það hvaða skoðun þeir hefðu á deilumálum nútímans. Og þar við eðlilegt að bæta að Davíð Stefánsson tók fram í sömu ræðu að ekki mætti skilja sig svo að hann teldi löggjöfum alls varnað, inn á milli semdu þeir lög sem væru „hvort tveggja í senn, viturleg og nauðsynleg“. Vitaskuld er svo nú allt annað ástand í íslenskum þjóðmálum en var fyrir tæplega hálfri öld. Sumarið 1958 sat vinstri stjórn Hermanns Jónassonar. Sjötti áratugurinn var áratugur haftanna, sem ekki var byrjað að afnema fyrr en ríkisstjórn Ólafs Thors tók til við það árið 1960. Vel má hugsa sér að sá, sem árið 1958 var búinn að fá meira en nóg af látlausri lagasetningu, sé hæstánægður með stöðu mála nú á tímum. En svo þarf það alls ekki að vera. Það vantar ekki að enn eru þingmenn iðnir. Það er látlaust verið að setja nýjar reglur, bæði með lögum frá alþingi og reglugerðum frá ráðuneytum. Og yfirleitt er framleiðslan kynnt sem nútímaleg skref til þess að forða mönnum undan einhverri hættu eða tryggja réttindi þeirra, nema hvort tveggja sé. Ný lög og nýjar reglugerðir eru strangt til tekið ekki óteljandi, en dugnaðurinn í stjórnmálamönnum er miklu meiri en ástæður og skynsemi mæla með. Helsti munurinn frá því Davíð Stefánsson talaði fyrir austan er sá að nú virðist mun meiri þrýstingur á stjórnvöld að setja nýjar og nýjar reglur. Það er til dæmis mikið gleðiefni fréttamanna ef þeim tekst að benda á eitthvert svið sem ekki gilda um nákvæmar reglur sem hægt er að lesa upp af blaði, með röngum áherslum. Ef slys hendir eða óhapp, þá eru fréttamenn mættir að gá hvort verið geti að þarna „skorti skýrar reglur“, svona eins slysin verði þess vegna. Eða eins og að hægt sé að ætlast til að löggjafinn sjái allt fyrir. Allt ýtir þetta á látlausan straum nýrra laga og reglna, sem reyna að njörva niður allt sem þingmönnum frekast hugkvæmist. Stjórnarandstaðan er svo sérstakur þrýstihópur. Hún getur lagt fram látlaus frumvörp í þeirri von að þau verði felld og þá verður seinna hægt að benda með ópum á þetta eina af hundrað sem samþykkt hefði kannski orðið til að hindra eitthvert klúður. Og allt klúðrið, fyrirhöfnina og kostnaðinn sem hin níutíu og níu hefðu kannski skapað, á það er aldrei minnst
Það er svo ekki að undra að allar þessar reglur kalli bæði á leyfi fyrir næstum hverju sem er, eftirliti með því sem gert er og loks rétti allra annarra til að skipta sér af því sem náunginn tekur sér fyrir hendur. Það heimtar bæði nýjar stofnanir og svo fleiri starfsmenn til þeirra sem fyrir eru. Allt veldur það borgurunum svo kostnaði og fyrirhöfn. Þetta er hins vegar varla nýtt vandamál. Það er langt síðan menn fóru að hafa áhyggjur af útþenslu hins opinbera bákns. Á næsta ári verða þannig sjötíu ár liðin frá því áðurnefnt skáld, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, sendi frá sér ljóðabók sem það nefndi Að norðan. Í henni er meðal annars ljóð sem nefnist „Skrifstofubáknið“ og hljómar svo:
Það teygir sig vítt yfir bygðir og borg og bólgnar af skipulagshroka, en geigvænt er loftið af gjaldeyrissorg og grátt eins og Lundúnaþoka. En borgarinn fálmar sig bugaður inn og biður um rétt til að lifa, svo þjónninn, sem hímdi með hönd undir kinn, má hamast að reikna og skrifa. Með kænsku er þessari skrifstofu skipt En þarna fær borgarinn skjal eftir skjal, Það lætur víst nærri, að þriðji hver þegn Að stofnunin eflist hvern einasta dag |