Fimmtudagur 20. janúar 2005

20. tbl. 9. árg.
Til marks um þýlyndi Íslendinga má hafa, að engin samtök grípa til varna gegn [X]. Fólk tuðar gegn [X] í hornum sínum, en notar ekki samtakamátt til að koma í veg fyrir, að [X] verði að einni helstu martröð þjóðarbúsins á næstu árum. …
Ef Íslendingar væru ekki þýlyndari en aðrar þjóðir, létu þeir ekki rugl af þessu tagi yfir sig ganga hljóðalaust. Stofnuð væru samtök til að gæta hagsmuna skattgreiðenda og vegfarenda til þess að berjast gegn því, að vandræðin yrðu meiri en þau eru þegar orðin.
 – Jónas Kristjánsson, í leiðara DV, 27. febrúar 1996.

Jónas Kristjánsson var með enn einn stóryrðaleiðarann í DV í gær. Nú var hann að endurtaka það sem hann sjálfur og fleiri hafa tönnlast á í nokkrar vikur, að „hundrað þúsund óbreyttir borgarar“ hafi fallið í Írak vegna innrásar bandamanna. Þetta segir hann sé fengið úr rannsókn læknaskólans John Hopkins Bloomberg School of Public-Health og hafi niðurstöður hennar verið birtar í tímaritinu Lancet. Nú væri gaman að vita hvort Jónas Kristjánsson og skoðanabræður hans hafa í raun lesið þessa skýrslu sem þeir benda á sem sönnun þess að hundrað þúsund borgarar hafi fallið í Írak. Ekki hefðu þeir þurft að eyða miklum tíma til þess, því skýrslan er ekki nema sjö blaðsíður. En á þessum sjö blaðsíðum kemur hins vegar fram, að í rannsókninni var einmitt enginn greinarmunur gerður á óbreyttum borgurum og þeim sem taka þátt í bardögum. „Many of the Iraqis reportedly killed by US-forces could have been combatants“, segir meðal annars í skýrslunni. Það hafa engir hundrað þúsund óbreyttir borgarar fallið í Írak.

Auðvitað veit enginn með vissu hversu margir óbreyttir borgarar hafa látist frá því innrásin hófst. Rannsóknarhópurinn Irac Body Count segir að þeir séu á bilinu fimmtán til sautján þúsund, en þar er byggt á frásögnum fjölmiðla. Rétt tala gæti verið hærri, en hún er vafalaust víðsfjarri hundraðþúsundunum hans Jónasar. En hundraðþúsund hljómar auðvitað betur fyrir þá sem vilja gera sem mest úr því sem miður fer en minnst úr því sem vel tekst. Og þá er gott að vísa til skýrslu sem enginn hér á landi hefur lesið og ekki einu sinni maður sjálfur.

Hér að ofan var til gamans einnig vitnað til eins af óteljandi stóryrðaleiðurum Jónasar, níu ára gamals. Þá, eins og venjulega, þótti Jónasi það til marks um þýlyndi Íslendinga að þeir tóku ekki sömu afstöðu og hann til málanna. Aldrei skal það vera af virðingarverðum sjónarmiðum sem fólk hefur ekki sömu skoðun og Jónas, nei fólk er þýlynt, fólk er fífl og fólk er siðlaust. En hvað sem því líður, þá má til gamans velta fyrir sér hvað þetta [X] í tilvitnuninni á að merkja. Hvað það var, sem Íslendingar risu ekki upp gegn með Jónasi Kristjánssyni og sönnuðu þar með þýlyndi sitt einu sinni enn. Hvaða martröð þjóðarbúsins taldi hann þurfa að koma í veg fyrir?

Jú, það voru Hvalfjarðargöngin.