Fimmtudagur 27. janúar 2005

27. tbl. 9. árg.

Fyrir allmörgum árum spáði Vefþjóðviljinn því að ef menn gæfu eftir gagnvart þeim sem vildu banna reykingar í einkafyrirtækjum og jafnvel banna sjálfráða fólki að reykja heima hjá sér þá yrði þess skammt að bíða að farið yrði að sauma að annarri „óhollustu“. Jú, jú það var eiginlega allt látið eftir ofstækisliðinu og líklega væri algerlega búið að banna reykingar á veitingastöðum ef ekki hefðu dottið nokkrir ungir sjálfstæðismenn inn á þing vorið 2003. Heilbrigðisráðherrann skortir ekki viljann til þess.

Og nú er herförin gegn matreiðslumönnum hafin. Tillaga þingmanna Samfylkingarinnar um að banna auglýsingar á óhollum mat er bara fyrsta skrefið hér á landi. Erlendis er auðvitað hið sama í deiglunni.

Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum hefur ákveðið að forsvarsmenn veitingahúsa McDonald’s verði að mæta fyrir rétt til að svara ásökunum unglingsstúlkna frá Bronx um að hafa fitað þær með McNuggets kjúklingabitum og falið hættuna sem heilsunni stafar af bitunum. Stúlkurnar fjórar halda því fram að McDonald’s hafi blekkt viðskiptavini sína og ekki hirt um að upplýsa gesti um næringargildi nagganna. Það er vissulega skrítið að sjá fólk lýsa því þannig yfir að það sé ekki alveg með á nótunum. Stúlkukindurnar eru auðvitað ekki að gera annað en að bera við flónsku og fáfræði í von um að uppskera jafnvel fleiri dali en hitaeiningarnar sem þær sporðrenndu á skyndibitastöðunum.

Ef að framhald verður á þessu máli og fleirum er vafalítið fylgja í kjölfarið er óhætt að segja að lögfræðingar séu komnir í feitt.