Það er merkileg staðreynd að bæjarstjórninni á Seltjarnarnesi hafi tekist að lækka fasteignagjöldin í Reykjavík. Fyrir nokkrum dögum lá það fyrir að Reykjavíkurborg hafði ekki aðeins hækkað útsvarið í topp heldur hafði R-listinn ákveðið að hækka fasteignagjöldin þrátt fyrir að borgin mætti vænta mikillar tekjuaukningar vegna hækkunar á fasteignamati. Fýsn R-listamanna til skattahækkana er slík að þeir ætluðu ekki að láta sér duga að skattstofn fasteignagjalda hefði stækkað verulega heldur vildu þeir ná enn meiru af borgarbúum með því að hækka skatthlutfallið.
Í síðustu viku kynnti meirihluti Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Seltjarnarness hins vegar þá ætlan sína að lækka fasteignagjöldin á nesinu til að vega á móti hækkandi fasteignamati. Þá fór af stað ágæt umræða um að ólíkt hefðust menn að í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. R-listinn væri að hækka alla skatta á meðan Sjálfstæðismenn á Nesinu lækkuðu þá. Vefþjóðviljinn lagði út af þessu í síðustu viku með þeir orðum að það væri afar mikilvægt fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins að hafa samanburð á milli sveitarfélaga. Það væri mikilvægt aðhald fyrir sveitarstjórnmenn að menn geti borið saman skatta og skyldur í hinum ýmsu sveitarfélögum. Á sama hátt er það mikilvægt að keppni sé milli ríkja en þau séu ekki öll steypt í sama mót sem hefur verið staðlað og skipað af Evrópusambandinu.
Og nú nokkrum dögum eftir að meirihlutinn á Seltjarnarnesi kynnti skattalækkunina hefur R-listinn í Reykjavík dregið í land og ætlar að hætta við að hækka fasteignagjöldin. Hann ætlar náttúrulega ekki að lækka þau eins og stendur til á Nesinu heldur aðeins að hætta við áður ákveðna hækkun.
Svonefndar almenningssamgöngur er mjög dáðar af flestum stjórnmálamönnum og flestir flokkar vilja efla þær með ráðum og dáð en þó aðallega með peningum annarra. Þrátt fyrir þessa aðdáun hefur ekki gengið vel að koma almenningi upp í gulu vagnana sem kenndir eru við hann og fara um höfuðborgarsvæðið með tíunda hvert pláss skipað að meðaltali. Á síðustu árum hefur borið á því að reynt sé að lokka menn upp í vagnana á þeirri forsendu að þeir séu „umhverfisvænir“. Á meðan nýting þeirra er svo slök sem raun ber vitni fer því þó fjarri að mengun frá hverjum farþega í almenningsvagni sé minni en frá venjulegum einkabíl.
Ein af þeim hugmyndum sem R-listinn hefur sett fram um hvernig megi brenna fjármunum borgarbúa hraðar er að grafa undirgöng í Reykjavík sem lest færi um. Vafalaust hefur þessi hugmynd verið kynnt sem bæði „þjóðhagslega hagkvæm“ og „umhverfisvæn“ en þau orð ættu að vera lituð með rauðu í opinberum skýrslum svo menn geti sem skjótast áttað sig á að um dellumál er að ræða. Í frétt í Dagens Nyheter á dögunum var sagt frá rannsókn sem gerð var lofti í lestargöngum Stokkhólms og þær niðurstöður bornar saman við loftið á helstu gatnamótum borgarinnar. Í stuttu máli er niðurstaðan sú að í loftinu lestargöngunum eru tífalt fleiri svifagnir en á þeim gatnamótum borgarinnar þar sem umferðin er þyngst. Og ekki nóg með það. Agnirnar í neðanjarðarlestinni eru mun hættulegri lungunum en agnirnar sem svífa um gatnamótin. Lennart Möller prófessor í eiturefnafræði, einn þeirra sem stóð að rannsókninni, segir að rykið í göngunum sé áttfalt hættulegra erfðaefninu í frumum en göturykið. Með fréttinni í Dagens Nyheter fylgja magnaðar myndir Lennart Nilsson af því hvernig agnirnar setjast á frumurnar.
En líklega telst neðanjarðarlestin samt „umhverfisvænni“ en einkabíllinn því hverjum er ekki sama um manninn þegar sjálft umhverfið er annars vegar?