Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækka barnabætur hressilega næstu árin eða eins og það var orðað í tilkynningu forsætis- og fjármálaráðherra 19. nóvember síðastliðinn verður um að ræða „stórfellda hækkun barnabóta“. Barnabætur munu hækka um tvöþúsundogfimmhundruðmilljónir króna – 2.500.000.000 – á næstu árum eða um 45%. Ekki er langt um liðið síðan settur var á legg milljarðasjóður til að greiða foreldrum 80% af launum í 9 mánuði sem fæðingarorlof. Svo rausnarlegar eru þessar greiðslur að sjóðnum lá við gjaldþroti á síðasta ári. Það var fyrsta starfsárs sjóðsins með endanlegu fyrirkomulagi bótanna. Á síðustu stundu var skattgreiðendum sendur milljarðareikningur til viðbótar honum til bjargar. Reikningur þessi er raunar á raðgreiðsluformi til eilífðar.
Og hver ætli séu helstu viðbrögðin við þessu margmilljarða örlæti skattgreiðenda við foreldra? Eintómt þakklæti? Kærar kveðjur með þeim orðum að menn hafi nú ekki þurft að vera svona flottir á því. Það hafi nú verið alveg óþarfi að gera svona vel við menn. Þetta hafi verið mjög gott en kannski ofrausn þegar að mörgu er að hyggja í þjóðfélaginu.
Nei nei. „Það á ekki að skila nema fjórðungi af barnabótunum til baka“, er helsta viðkvæðið þessa dagana. Sjónvarpsmanninum Agli Helgasyni tókst til dæmis að finna hálfa tylft manna til að vitna um þetta í spjallþætti á sunnudaginn var.
Ástæðan fyrir því að útgjöld ríkisins vegna barnabóta hafa ekki aukist meira en raun ber vitni á síðustu árum er að laun manna hafa hækkað og þar með minnka auðvitað tekjutengdar barnabætur. Menn sem áður áttu rétt á bótum vegna lágra launa eiga það ekki lengur. Það ætti auðvitað að vera fagnaðarefni að menn skuli hafa bætt kjör sín svo verulega og hafi nú laun í stað bóta til að framfæra sér. Það hlýtur að vera keppikefli að sem flestir geti framfleytt sér af eigin tekjum en þurfi ekki að treysta á hið opinbera. Það er líka einkennilegt að tala um að ríkið „skili“ peningum þegar ekki er átt við að skila þeim til upphaflegra eigenda þeirra, skattgreiðenda, heldur til óviðkomandi.
Flest bótakerfi hins opinbera eru að einhverju leyti tekjutengd og um það hefur verið bærileg sátt milli stjórnmálaflokkanna. Það þýðir hins vegar auðvitað að þegar hagur manna vænkast dregur að öðru óbreyttu úr bótagreiðslum. Að kalla slíka þróun „skerðingu bóta“ sem eigi að „skila til baka“ er ekki sanngjarnt.