Egill Ólafsson blaðamaður á Morgunblaðinu skrifaði athyglisverða fréttaskýringu um kostnað við höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur í blaðið í gær. Fréttaskýringin var athyglisverð vegna þess að forsvarsmenn Orkuveitunnar, Alfreð Þorsteinsson og félagar, höfðu gefið þær upplýsingar, eins og Vefþjóðviljinn sagði frá um síðustu helgi, að kostnaður á fermetra hjá Orkuveitunni sé svipaður og við byggingu grunnskóla hjá Reykjavíkurborg. Egill sýnir í fréttaskýringu sinni fram á að jafnvel þessi sérstaklega valdi samanburður styður engan veginn þann mikla kostnað sem R-listinn ákvað að borgarbúar skyldu leggja út í til að byggja yfir Alfreð og félaga.
Kostnaður á fermetra í höfuðstöðvum Orkuveitunnar var um 225 þúsund krónur, sem forsvarsmenn Orkuveitunnar hafa sagt vera litlu meiri en í „vandaðri grunnskólabyggingu í Reykjavík“. Þetta segir Egill ekki vera rétt. Þegar sambærilegir hlutir séu bornir saman, til að mynda tekið tillit til mismunandi meðferðar virðisaukaskatts og horft á skólabyggingu án búnaðar, en Alfreð kaus að bera fullbúna skólabyggingu saman við Orkuveituhús án búnaðar, þá megi sjá að kostnaður við Orkuveituhúsið sé að minnsta kosti 40% dýrara á fermetra en grunnskóli í Reykjavík. Í þessari tölu er verið að miða við vandaðan grunnskóla – grunnskólar eru flokkaðir eftir gæðum – en ef höfuðstöðvar Orkuveitunnar eru bornar saman við meðalgrunnskólann er munurinn um 50%. Það er að segja, fermetrinn í höfuðstöðvum Orkuveitunnar er um 50% dýrari en fermetrinn í meðalgrunnskóla borgarinnar.
Sá samanburður sem forsvarsmenn Orkuveitunnar buðu upp á segir Egill Ólafsson blaðamaður að sé „[v]illandi samanburður á byggingarkostnaði“ og miðað við tölurnar í fréttaskýringu hans er óhætt að segja að þar sé um kurteislegt orðaval að ræða, eins og við er að búast í Morgunblaðinu. Verra er að það var líka við því að búast hjá R-listanum og talsmönnum hans að tölur og samanburður væru „villandi“.
Niðurstaðan um kostnað við höfuðstöðvar Orkuveitunnar, að fenginni þessari fréttaskýringu í Morgunblaðinu, er þá sú, að það er sama hvort notaður er sá samanburður sem Alfreð og félagar völdu sér eða annar og eðlilegri samanburður. Höfuðstöðvarnar fóru tugum prósenta fram út kostnaðaráætlun, þær eru tugum prósenta dýrari en sambærilegt hús hjá Alcan í Hafnarfirði og þær eru tugum prósenta dýrari en grunnskólabygging í Reykjavík. Niðurstaðan er einfaldlega sú, sama hvernig R-listinn reynir að hagræða staðreyndum málsins, að höfuðstöðvar Orkuveitunnar eru skattgreiðendum í Reykjavík rándýrar.