Mánudagur 10. janúar 2005

10. tbl. 9. árg.

Um helgina var sagt frá því stuttlega í fréttum að upp hafði komist að friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna í Kongó hefðu beitt þarlendar konur kynferðislegu ofbeldi. Það eru vitaskuld alvarlegir glæpir, ef fyrstu fréttir eru réttar. En hversu margir myndu telja þessa glæpi friðargæsluliðanna segja mikið um Sameinuðu þjóðirnar, aðildarríki þeirra eða réttmæti þess að halda úti friðargæslu? Sennilega ekki margir. Sennilega myndu flestir átta sig á því að þetta eru einfaldlega glæpir sem þessir tilteknu menn hafa framið, en vitaskuld ekki aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eða þau ríki sem stutt hafa þá ákvörðun að senda friðargæslulið til átakasvæða. En hvernig ætli standi þá á því, að sumir menn taka þá glæpi, sem bandarískir fangaverðir munu hafa framið í írösku fangelsi, sem innlegg í umræðu um réttmæti eða óréttmæti þess að Saddam Hussein var komið frá völdum? Hvernig ætli standi á því að menn láti eins og þeir trúi því í raun og veru að Íslendingar beri ábyrgð á því að einstakir bandarískir fangaverðir reyndust vera skúrkar? Ef niðurlægjandi meðferð – undantekningarlítið nefnd „pyntingar“ í vestrænum fjölmiðlum – á föngum í tilteknu fangelsi í Írak er á sérstaka ábyrgð Íslands eða annarra ríkja, þá eru mun alvarlegri glæpir friðargæsluliðanna það ekki síður. Og ef ástand í þessu íraska fangelsi skiptir nokkru minnsta máli þegar rætt er um réttmæti aðgerðanna gegn Hussein, hvaða dóm kveða athafnir friðargæsluliðanna þá upp yfir Sameinuðu þjóðunum, aðildarríkjum þeirra og því sem þau reyna að gera til að stilla til friðar? Verður ekki einhver að kaupa auglýsingu í kongóskum blöðum og biðjast afsökunar? Var þessi misneyting kannski í okkar nafni?

Mörður Árnason, alþingismaður Samfylkingarinnar, er núna afar hneykslaður á því að Þorsteinn Pálsson, sendiherra og fyrrverandi forsætisráðherra, hafi tekið sæti í stjórnarskrárnefnd. Mörður vill ekki hafa það að sendiherrar komi á nokkurn hátt nálægt stjórnmálum og spyr hvort Þorsteinn Pálsson sé sendiherra Íslands eða Sjálfstæðisflokksins. Í Morgunblaðsgrein segist Mörður velta fyrir sér „siðrænum þroska“ sendiherrans. Jájá. Hvar í ósköpunum hefur Mörður verið undanfarinn tæpan áratug, þegar Jón Baldvin Hannibalsson hefur verið með stóryrði um menn og málefni og Samfylkingarmenn undantekningarlaust sopið hveljur af hrifningu? Öllum ummælum Jóns slegið upp með viðhöfn í fjölmiðlum Samfylkingarinnar. Og þó, ekki öllum. Þegar Jón Baldvin Hannibalsson furðaði sig stórum á afstöðu Samfylkingarinnar til fjölmiðlafrumvarpsins, þá þótti engum það fréttnæmt. En að öðru leyfi hafa látlaus ummæli hans um stjórnmál verið afar velkomin. Engum dottið í hug að hann væri aðeins sendiherra Samfylkingarinnar. Nema Merði væntanlega. Hann er sjálfsagt með grein í smíðum. Um siðrænan þroska Jóns Baldvins.

Það má kannski einnig hafa það í huga að Mörður Árnason hefur verið mjög hrifinn af því að forseti Íslands, fyrrnefnt sameiningartákn þjóðarinnar, skipi sér hvað eftir annað í lið með Samfylkingunni í pólitískum deilum með þeim afleiðingum að hann er nú ekki annað en samfylkingartákn þess minnihlutar þjóðarinnar sem kosið hefur hann í tvígang forseta Íslands.