Helgarsprokið 9. janúar 2005

9. tbl. 9. árg.

Íföstudagsblaði Viðskiptablaðsins kennir margra grasa, eins og svo oft áður. Fyrir utan fjölmiðlapistil Ólafs Teits Guðnasonar, en þeir pistlar eru ómissandi fyrir alla áhugamenn um þjóðmál og það hvernig fjölmiðlar túlka og túlka ekki atburði líðandi stundar, myndi Vefþjóðviljinn vilja vekja athygli á viðtali við Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Ragnar heldur þar fram ýmsum sjónarmiðum sem sum hver ganga gegn því sem margir hafa sennilega slegið föstu eftir litla umhugsun. Nú þarf það auðvitað ekki endilega að vera kostur; skoðun verður ekki sjálfkrafa fagnaðarefni við það eitt að vera öndverð því sem er almennt álitið satt og rétt. En það er fagnaðarefni að Ragnar viðri sum þau sjónarmið sem fram koma í viðtalinu við hann; og ástæða til að þau verði hugsuð og rædd af fleirum. Sjónarmið prófessorsins um Evrópumál, bæði Evrópusambandið og samninginn um evrópska efnahagssvæðið, eru til dæmis athyglisverð. Hagfræðiprófessorinn segir:

Hvað er Evrópusambandið? Það er tollmúrasamtök. Það verndar sjálft sig með tollamúrum út á við. Það er á margan hátt mjög afturhaldssamt. Þeir sem öllu ráða, Mið-Evrópuríkin Frakkland, Þýskaland, Spánn og Ítalía, eru ekki lönd hins frjálsa markaðsskipulags og hafa aldrei verið. Þetta eru lönd sem hafa miðstýrt sínu efnahagslífi mjög mikið. Markaðskerfi þeirra er á margan hátt mjög ófullkomið. Þar er mikill stirðleiki á vinnumarkaði. Þarna er mjög flókið og yfirgripsmikið kerfi uppbóta og styrkja. Ríkisafskipti af efnahagslífinu eru rík. Sterkri byggðastefnu er fylgt. Og á margan hátt er Evrópusambandið knúið áfram af stórveldadraumum; draumum um að viðhalda Evrópu sem stórveldi. Afleiðingin af þessu öllu er að hagvöxtur í ESB er tiltölulega lítill miðað við Ameríku og Asíu. Spurningin er: Af hverju skyldi Ísland, sem hefur meiri hagvöxt en ESB, hærri meðaltekjur og nýtur ákveðins sjálfræðis og frjálsræðis, vilja ganga í þennan félagsskap? Eftir hverju er að sækjast þarna? Rökin eru næstum eingöngu þau að úr því að við erum í EES sé betra að ganga alla leið til þess að geta haft aukin áhrif á þær tilskipanir og reglugerðir ESB sem við þurfum hvort sem er að búa við. Mér hefur alltaf fundist þessi rök frekar barnaleg. Ég held að áhrif litla Íslands á þessar tilskipanir, sem eru ofboðslega yfirgripsmiklar, flóknar og margbrotnar, yrðu hverfandi. Í því sambandi má ekki gleyma því að völd einstakra þjóðríkja í Evrópusambandinu fara minnkandi en áhrif mannfjölda og stærðar fara vaxandi. Þessi tilhneiging er til staðar í dag og í mjög ríkum mæli í nýju stjórnarskránni, sem enn hefur ekki verið samþykkt. Þessi þróun mun halda áfram.

Það er alveg rétt hjá Ragnari að Ísland myndi lítil sem engin áhrif hafa á gang mála, þó það gengi í sambandið. Vefþjóðviljanum hefur ætíð þótt fráleit sú hugmynd að menn eigi að gefa eftir fullt forræði sitt á mikilvægum málum, til þess að öðlast kannski eitthvert brot úr prómilli af áhrifum á þau og önnur mál. Auðvitað yrði það ekki þannig að einhverjir „við Íslendingar“ öðluðumst nokkur minnstu áhrif. Það yrðu nokkrir íslenskir embættismenn sem bættust við her samsvarandi kontórista annarra í Brussel og einstaka sinnum yrði tekið eitthvert mark á einhverju af því sem einhver þeirra segði um eitthvert smáatriði einhvers máls. En að „Íslendingar“ hefðu einhver áhrif, íslensk stjórnvöld, kjörnir íslenskir fulltrúar, það er fráleit hugmynd. Það er hætt við því að það yrðu einhverir sem teldu sig daglega þurfa að birta ekki-í-mínu-nafni auglýsingar í blöðunum, eftir að Íslendingar væru gengnir í Evrópusambandið og teknir að „hafa þar áhrif“. Hinu er ekki að leyna að það hlypi á snærið hjá þeim sem kæmust til starfa í Brussel. Og hverjir ætli telji sig standa fremstir í röðinni þegar kæmi að því að velja kommissara? Ætli það séu ekki „sérfræðingar í Evrópumálum“, sem teldu sig vera fremsta? Og hverjir ætli séu heitastir í baráttunni fyrir inngöngu?

En þessi sjónarmið Ragnars eru kannski ekki svo mikil nýmæli í opinberri umræðu. Þetta hafa nú flestir séð sem hafa haft opin augun á fleiru en væntanlegum Brusselferðum sjálfra sín. Það sem Ragnar segir um EES samninginn mun hins vegar koma fleirum á óvart, en fjölmargir munu álíta að sá samningur sé hið mesta haldreipi sem ómögulegt væri að vera án. Ragnar segir að svo sé ekki, og þvert á það sem margir halda, segir hann að EES samningurinn hafi ekki sérlega mikið gildi varðandi tolla og markaðsaðgang:

Í fyrsta lagi vegna þess að tollar fara almennt lækkandi í heiminum. Þeir eru orðnir miklu lægri en þeir voru þegar við tókum ákvörðun um Evrópska efnahagssvæðið. Í öðru lagi höfum við Alþjóðaviðskiptamálastofnunina (WTO). Allir aðilar að henni, meðal annars við og Evrópusambandið, hafa skuldbundið sig til að hækka ekki tolla. Þó að við gengjum úr EES gætum við með skírskotun til þessa samnings farið fram á að njóta sömu tollfríðinda áfram. Í þriðja lagi er ekki sjáanlegt að lönd eins og Sviss, sem er landfræðilega inni í miðju Evrópusambandinu en stendur utan við bæði ESB og EES, hafi beðið neitt tjón af því. Í fjórða lagi er víða meiri hagvöxtur utan EES en innan þess. Þannig að ég held að þessi rök séu veigalítil.

En myndu Íslendingar þá ekki missa neitt sem máli skiptir, spyr Viðskiptablaðið, en Ragnar segir að það séu einkum einhver fríðindi sem geti skipt tiltekna einstaklinga máli. Hvað þá með ýmis skilyrði fyrir útflutningi, eins og staða, vottun og slíkt, spyr blaðið. Við getum hæglega uppfyllt þau skilyrði af sjálfsdáðum, svarar Ragnar og bætir því við, að menn megi ekki gleyma því að Evrópusambandið sé sjálft mjög áfjáð í að flytja inn íslenskan fisk. Það séu ekki hagsmunir þess að takmarka þann innflutning, nema hugsanlega á einstökum tegundum. Auk þess sé mest af íslenskum útflutningi heimsmarkaðsvara sem auðvelt væri að selja eitthvert annað. Og um vísindasamstarf við Evrópu segir prófessorinn: „Sumir hafa talað um að vísindasamstarfið með Evrópu skipti okkur miklu máli. Ég held ekki. Ég hef tekið mjög virkan þátt í því – að vísu bara á hagfræðisviði – og ég held að í því samstarfi sé gríðarleg sóun. Stór partur af þessum peningum fer í ferðalög og er þannig aðallega styrkur til flugfélaga og hótela. Og yfirleitt er það þannig að við gefum af okkar þekkingu en fáum eiginlega ekki neitt í staðinn. Þeir standa einfaldlega aftar á fjölmörgum af þessum sviðum.“

Og Ragnar segir að það sé tímabært að kanna rækilega hvort ekki sé heillavænlegast að segja EES-samningnum upp.

Mér finnst að jafnvel þótt EES-samningurinn sé enn til staðar og við höfum kost á honum áfram sé komið að því að við eigum að skoða það í fyllstu alvöru hvort þátttakan í honum henti okkur. Fyrir því eru ýmis rök. Í fyrsta lagi greiðum við stórfé beint og óbeint fyrir þátttökuna í þessu samstarfi. Í öðru lagi höfum við veruleg óþægindi af reglugerða- og tilskipanafarganinu sem kemur frá Evrópusambandinu og gerir okkur alls kyns ógagn. Það setur m.a. aukna fjötra á okkar vinnumarkað og neyðir okkur til að taka upp aðrar dýrar takmarkanir og reglur, sem e.t.v. henta annars staðar í Evrópu, en eru óviðeigandi og jafnvel skaðlegar á Íslandi. Í þriðja lagi kemur aðild okkar að EES í veg fyrir að við getum flutt inn vörur á sem ódýrastan hátt frá löndum utan EES, m.a. með alls kyns tæknilegum hindrunum á borð við kröfur um merkingar og slíkt. Margt fleiri mætti telja upp. Af öllum þessum sökum er tímabært að við skoðum hvort okkar hag sé ekki beinlínis betur borgið með því að ganga úr Evrópska efnahagssvæðinu og vera lausir við þetta. Ég tel í það minnsta nærtækara að ganga úr Evrópska efnahagssvæðinu en að ganga inn í Evrópusambandið og mér finnst algjört lágmark að vendleg úttekt á þessum kosti fari fram, ekki síður en á þeim kosti að ganga í Evrópusambandið.

Þessi síðasta áskorun Ragnars er eðlileg. Stjórnvöld hafa skipað nefnd til að skoða Evrópumálin opnum huga. Það er eðlilegt að uppsögn EES-samningsins verði ekki síður rædd en sú fráleita hugmynd að ganga alla leið inn í Evrópusambandið. Þá er ekki síður æskilegt að sjónarmið Ragnars Árnasonar verði opinberlega rædd áfram. Ríkisútvarpið hefur þegar gert sitt og fengið Eirík Bergmann Einarsson til að útlista á þeim kost og löst. Hann var vitaskuld kynntur sem aðjúnkt í stjórnmálafræði en hvorki sem fyrrverandi starfsmaður Evrópusambandsins né varaþingmaður Samfylkingarinnar. Enda hvort tveggja málinu óviðkomandi.