Mánudagur 20. desember 2004

355. tbl. 8. árg.

Meðal þeirra bóka sem út hefur komið nú fyrir jólin, er eitt af klassískum verkum síðustu aldar í íslenskum bókmenntum, ævisaga Hannesar Hafsteins, eftir Kristján Albertsson. Þegar ævisagan kom fyrst út, í þremur hlutum árin 1961, 1963 og 1964 urðu miklar deilur, sem að nokkru eru raktar í formála hinnar nýju útgáfu. Deilurnar urðu slíkar að meðal annars var efnt til opinbers fundar á vegum stúdenta, þar sem rifist var um efni bókarinnar fram á nótt. Kristján Albertsson sagði síðar, að svo virtist sem ýmsir teldu „að hlutleysi í sagnaritun væri einmitt í því fólgið að svo væri um séð, að fremstu forvígismenn yrðu sem jafnastir að öllum heiðri“. Kristján taldi að stjórnmálasaga Íslands yrði ekki skrifuð þannig, svo að rétt yrði. Þegar bók hans var endurútgefin árið 1985 ræddi Morgunblaðið hina fyrri deilu við Kristján, sem sagði meðal annars að sér hefði fundist árásirnar á bók sína fremur gerðar af vilja en mætti:

Af vilja til að malda í móinn gagnvart þeirri mynd af andstæðingum Hannesar Hafsteins, sem óhjákvæmilega kemur í ljós, þegar sagt er rétt og afdráttarlaust frá sögulegum staðreyndum, og að tilfærðum mörgum og fróðlegum ívitnunum í það, sem þessir andstæðingar sögðu í ræðu og riti. Svo má heita að bók mín sé að miklu leyti byggð upp sem fjölbreytileg rökræða um þjóðmál sinnar aldar, þar sem menn af öllum flokkum eigi sem jafnastan kost á að gera grein fyrir skoðunum sínum og pólitísku framferði.

Sú útgáfa ævisögunnar sem nú kemur út, er töluvert stytt frá þeim sem út komu á sjöunda og níunda áratug síðustu aldar. Engu að síður er bókin rúmar 500 blaðsíður með nafnaskrá. Stytting bókarinnar hefur tekist vel, og sjálfsagt myndi lesandi ekki átta sig á því að hann væri að lesa stytt verk, ef það væri ekki tekið fram í formála bókarinnar. Svo vel líður hún áfram, enda er það, eins og umsjónarmaður útgáfunnar, Jakob F. Ásgeirsson, segir í formála sínum, „nefnilega einn meginkostur þessarar frábæru bókar hve læsileg hún er og spennndi.“ Og Jakob bætir við:

Ævisaga Hannesar Hafsteins eftir Kristján Albertsson er eitt af klassískum verkum íslenskra bókmennta. Það breytir litlu um gildi slíks verks þótt hugsanlega hafi einhverjar nýjar heimildir komið fram eftir útgáfu þess. Vissulega er æskilegt að hver kynslóð skrifi með sínum hætti um stórmenni sögunnar og ekki skal dregið úr gildi þess að túlka sögulegar heimildir með nýjum hætti. En það er ekki víst að úr verði betri bækur en þær sem áður voru skrifaðar, því þegar allt kemur til alls er það sem stenst tímans tönn í sagnagerð – góður texti, frásagnargáfa og traust dómgreind. Enginn ævisöguhöfundur á vorum dögum tekur Kristjáni Albertssyni fram um málfar, stíl og dómgreind.

Nú myndi kannski einhver segja, að hér væri Kristjáni og bók hans lýst með orðum sem ekki væru svo ýkja frábrugðin hinu hvimleiða skrumi hefðbundinna bókaauglýsinga. En formáli ævisögu Hannesar er ætlaður þeim sem þegar eru komnir með bókina í hendur og munu að lestri loknum sjálfir geta dæmt um það hvort of er sagt eða van. Og ævisaga Hannesar Hafstein er skemmtilestur. Hún er ákaflega vel skrifuð bók, og fróðleg þeim sem ekki eru þeim mun meiri sérfræðingar í síðustu árunum fyrir og fyrstu árunum eftir upphaf íslenskrar heimastjórnar. Lesendur fá skýra og ógleymanlega mynd af þróun Íslandssögunnar á þessum tíma, fyrir utan þá mynd sem þeir fá af helstu sögupersónum. Vissulega mætti svo gefa slíka mynd út frá öðru en ævi Hannesar Hafsteins, og má í því sambandi meðal annars vekja athygli á því að nú um jólin kemur einnig út ævisaga Valtýs Guðmundssonar, sem vitanlega var áberandi maður og umdeildur á þessum sama tíma. En Kristján Albertsson gefur þessa mynd út frá ævi Hannesar Hafsteins, og þetta er mynd sem óhætt er að mæla með að menn kynni sér.

Það eru ekki aðeins Hannes Hafstein og aðrir stjórnmálamenn heimastjórnartímans sem fá af sér skýra mynd í bókinni. Sama mætti til dæmis segja um foreldra Hannesar, Pétur og Kristjönu Havstein, en Pétur amtmaður var sérstakur maður og afgerandi, maður mikilla kosta og bresta. En auðvitað er það ævi Hannesar sem er í forgrunni, stjórnmálastörf hans og skáldskapurinn. Og á daga hans dreif fjölmargt sem enn er munað, hundrað árum síðar. Fjölmargt sem mönnum er fróðlegt að kynnast eða rifja upp. Átökin við landhelgisbrjóta, ríkisráðsdeilan, heimastjórnin, símamálið, uppkastið, og áfram og áfram. Og stjórnmáladeilurnar, ofsinn, heiftin og stóryrðin sem mögnuð voru upp og mörgum mun þykja athyglisvert að rifja upp nú.

En hvaða erindi á ævisaga Hannesar Hafsteins við fólk nú? Í ævisögu Hannesar Hafsteins er brugðið upp afar skýru ljósi á merkan og mikilvægan tíma í sögu Íslands. Tíma sem ekki aðeins áhugamenn um sögu landsins heldur einnig áhugamenn um umræðu nútímans hljóta að vilja kynna sér. Það er ótalmargt í sögu landsins sem á sér hliðstæðu í síðari tíma atburðum. Um það efni og hvaða lærdóma, ef einhverja, rétt er að draga af því, fer best á að hver og einn lesandi dragi hjálparlaust. Sá maður sem einna gerst hefur kynnt sér þetta verk Kristjáns Albertssonar, Jakob F. Ásgeirsson, telur margt í sögu Hannesar eiga sér hliðstæðu í síðari tíma atburðum. Hann telur til dæmis deilurnar um símann, og aðförina sem þá var gerð að Hannesi, minna um margt á deilurnar um annað mál, tæpri öld síðar. Hvort sem menn eru sammála Jakobi eða ekki, þá eru þær vangaveltur hans, sem hann birti í grein í Viðskiptablaðinu í sumar, dæmi um það hvernig gamlir atburðir geta komið nútímamönnum til þess að sjá samtímaatburði í nýju ljósi. Það er einn margra kosta við góða sagnfræði, að hún gefur lesendum tækifæri til slíkra hugleiðinga. Og er sagan ekki til þess að læra af henni? Í grein sinni segir Jakob meðal annars:

Það er athyglisvert að rifja það upp að fárið undanfarið svipar um margt til þeirra deilna sem urðu um símann, fyrir u.þ.b. eitthundrað árum. Þá gerðist það sama og nú að stjórnarandstaðan magnaði upp andstöðu við mál sem flestir voru í raun sammála í því skyni að reyna að fella ráðherrann, Hannes Hafstein, úr valdasessi. Þá hafði líka eitt blað yfirburða útbreiðslu, Ísafold, og það var notað miskunnarlaust rétt eins og Fréttablaðið núna til að breiða út rangfærslur og útúrsnúninga um málavexti og níða skóinn af ráðherranum og saka hann um ofríki og valdníðslu. „Enginn maður hefur verið lastaður eins mikið og Hannes Hafstein, á engan mann hefur jafnmiklu logið verið,“ skrifaði Björn M. Olsen, síðar fyrsti rektor Háskóla Íslands, í kjölfar þessara deilna vorið 1905.
Þá hafði allt landið logað í æsingum mánuðum saman. „Þjóðræðið“ varð þá hið mikla vígorð til að hræða þingmenn og andstæða við „þingræði“. Stofnað var „Þjóðræðisfélag“ í Reykjavík og forsprakki þess sagði: „Ekkert getur ískyggilegra fyrir oss komið en það, að farið verði að beita vorri nýju sjálfstjórn gegn oss sjálfum, gegn vorum eigin þjóðarvilja…“ Þegar Hannes Hafstein líkti andstöðunni við símann við „goluþyt“ ætlaði allt um koll að keyra. „Mannlífið hér í Reykjavík nú er líkt eldfjalli sem er komið að gosi,“ sagði maður nokkur í bréfi: „Æsingin og ofsinn er ótrúlegur, allt gegn stjórninni.“ Gjörvallt „þjóðræðislið“ bæjarins stóð á öndinni í orrustuhug, eins og Kristján Albertsson komst að orði. Boðað var til mótmælafundar á Austurvelli þar sem sungið var einum rómi: „Niður með þá stjórn sem ekki vill hlýða þjóðarviljanum!“
Sjálfur sagði Hannes Hafstein, ekki ósvipað og Davíð Oddsson núna, að málflutningur andstæðinganna væri að mestu „óljóst tilfinningaþvaður.“ Og þar sem andstæðingarnir beittu ekki efnislegum rökum, fremur en nú, hrinu „skynsamleg mótrök jafnlítið við þá eins og haglið við hundstrýnið“ skrifaði Hannes skáldbróður sínum séra Matthíasi Jochumssyni. Svona hefur nú lítið breyst innra með okkur þótt hin ytri umgjörð þjóðlífsins sé öll önnur en fyrir 100 árum.