Þriðjudagur 21. desember 2004

356. tbl. 8. árg.
Við kjósum að auka tekjur okkar í gegnum útsvarið. Við viljum frekar gera það en leggja þá álögurnar á fjölskyldufólkið í borginni.
 – Viðtal tekið við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur vegna fjárhagsáætlunar Reykjavíkur fyrr í mánuðinum, spilað í fréttatíma Stöðvar 2 í gærkvöldi.

Það fór alveg framhjá Vefþjóðviljanum að fyrr í mánuðinum mun borgarstjóri Reykvíkinga hafa stigið óvænt fram á sviðið í fréttatíma Stöðvar 2 og tilkynnt „fjölskyldufólki í borginni“ að það þyrfti ekki að greiða útsvar í Reykjavík. Útsvarið væri ekki lagt á fjölskyldufólk. Þessi tilkynning var endurtekin á Stöð 2 í gærkvöldi. Það er í anda jólanna að framvegis verða það þá aðeins Ebenezer Scrooge og aðrir einstæðingar sem greiða útsvarið.

Þessi tilkynning R-listamanna er svo sem ekkert fjarstæðukenndari en aðrar yfirlýsingar sem þeir hafa gefið um álögur á borgarbúa undanfarin 10 ár. Hún er alveg í stíl. Það er ekkert að marka hana. Auðvitað munu allir sem á annað borð hafa tekjur yfir skattleysismörkum greiða útsvar á næsta ári, bæði fjölskyldufólk og hinir sem Steinunn Valdís telur ekki tilheyra fjölskyldufólki, hverjir svo sem það eru nú. Útsvarið hefur meira að segja aldrei verið hærra. Það er svo væntanlega óþarft að taka það fram að úr því Steinunn Valdís lofaði því sérstaklega um daginn að hækka ekki aðra gjaldtöku borgarinnar af Reykvíkingum en útsvarið hafa flest önnur gjöld hækkað einnig.

Samkvæmt tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu 17. desember er ætlað að á árinu 2005 innheimtist um 138,4 milljarðar króna fyrir ríki og sveitarfélög með staðgreiðslu opinberra gjalda. Þar af renna um 70,5 milljarðar króna til sveitarfélaga en um 67,9 milljarðar króna til ríkissjóðs. Tekjur sveitarfélaganna af tekjuskatti eru með öðrum orðum orðnar meiri en tekjur ríkissjóðs. Útsvar sveitarfélaganna skilar meiru en hlutur ríkissjóðs í tekjuskattinum.

Eins og Vefþjóðviljinn hefur stundum áður kvartað undan er það óþolandi að menn sjái það ekki á launaseðlum sínum um hver mánaðamót hvað sveitarfélögin taka stóran hluta af laununum. Ríki og sveitarfélög hafa flókið kerfi sín á milli um skiptinguna á tekjuskattinum sem gerir það erfitt fyrir launagreiðendur að áætla hver hlutur hvors um sig er í launum starfsmanna sinna. Þessu þarf að breyta. Skattgreiðendur eiga að vita hvert skattarnir renna.

Launaseðill hjá starfsmanni hjá einu af draumafyrirtækjunum í Ráðhúsinu gæti þá litið út eins og á myndinni hér að ofan ef tekjuskatti til ríkisins og útsvari væri skipt eftir ofangreindum tekjum ríkis og sveitarfélaga sem er því miður ekki hægt í dag vegna þess hve útfærslan á skiptingunni milli ríkis og sveitarfélaga er flókin. Það væri gott aðhald fyrir sveitarstjórnir ef menn sæju það svart á hvítu um hver mánaðamót hve sveitarfélögin eru orðin fjárfrek.