Á
Neðanjarðarlest, Keflavíkurlest og léttlest R-listans eru allar farnar út af sporinu. |
nokkrum árum hafa þrjár lestir farið út af sporinu í Reykjavík. Engin slys hafa orðið á fólki en skattgreiðendur sitja uppi með reikninginn fyrir þessum hrakförum.
Fyrsta er að telja neðanjarðarlest R-listans sem lagði af stað árið 2001 með þeim orðum þáverandi stjórnarformanns Strætó bs að „það færi eftir því hvaða forsendur menn gefa sér“ hvort lestin stæði undir sér. Þessu rugli var tekið af fúlustu alvöru í helstu fjölmiðlum landsins og rætt var við stjórnarformanninn eins og allt væri með felldu. Síðar kom í ljós að Reykjavíkurborg hefur ekki einu sinni efni á að grafa lítinn bút af Hringbrautinni í stokk, hvað þá að grafa lestargöng um borgina þvera og endilanga. Ekki hefur því heyrst meira af þessari fásinnu og enginn fjölmiðill hefur spurt lestarstjóra R-listans hvað í veröldinni þeir voru að hugsa.
En með nýju ári koma nýjar dillur.
Sumarið 2002 hafði Alferð Þorsteinsson stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur og félagar hans í R-listanum eytt nokkrum milljónum króna í skýrslugerð um hagkvæmni lestar milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Í stuttu máli leiddi skýrslan það í ljós sem hverjum manni mátti vera ljóst að slík lest gæti ekki staðið undir sér. Það myndi jafnvel ekki duga til að lestarvagnarnir, teinarnir og lestarstöðvarnar féllu ókeypis af himnum ofan. Samt ætti lestin ekki möguleika á að standa undir sér. Ferð hennar um draumalendur R-listamanna lauk því á sama hátt og martröðinni um neðanjarðarlestina: Með árekstri við raunveruleikann.
En með nýju ári koma nýjar dillur.
Árni Þór Sigurðsson forseti borgarstjórnar fór árið 2003 fyrir fríðum flokki borgarfulltrúa og embættismanna í ferð um Evrópu til að kynna sér „léttlestir“. Skattgreiðendur sátu heima og greiddu í ferðasjóðinn. Þegar heim var komið tók við látlaus áróður R-listamanna fyrir því að „léttlestir“ væru framtíðin. Hefur hann staðið með hléum síðan, ekki síst fyrir atbeina Morgunblaðsins sem er afar ginnkeypt fyrir hugmyndum sem miða að því að draga úr „einkabílisma“ í Reykjavík. Eins og alltaf var fengið „ráðgjafafyrirtæki“ til að kanna málið betur, gott ef ekki tvö slík, eitt innlent og annað erlent. Já og niðurstaðan? Léttlestin er álíka gáfuleg og Keflavíkurlestin og neðanjarðarlestin. Stofnkostnaður léttlestakerfis er tíu sinnum hærri en stofnkostnaður við strætisvagna en eins og allir vita þá er óravegur frá því að strætó standi undir sér.
Í frétt Ríkisútvarpsins á föstudaginn sagði því: „Árni Þór Sigurðsson, formaður samgöngunefndar Reykjavíkur, segir hugmyndir um léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu verða lagðar á hilluna í kjölfar skýrslu um kostnað við kerfið. Þar er staðfest að almenningssamgöngur með léttlestum kosta margfalt meira en með strætisvögnum og mundu einungis ná til um þriðjungs íbúa.“
Já borgarfulltrúar R-listans hafa undafarið ár verið að eyða tíma og fé borgarbúa í umræður um almenningssamgöngur sem eru tífalt dýrari en núverandi kerfi og ná aðeins til þriðjungs þeirra sem núverandi kerfi nær til.
Fleiri dillur?
Vefþjóðviljinn trúir því vart að R-listinn lumi á fleiri lestarhugmyndum. Miklu líklegra er að nú verði hafinn áróður fyrir því að skattgreiðendur auki framlög sín til strætisvagnanna sem hringsóla tómir um höfuðborgarsvæðið svo hægt verði að hafa fleiri tóma vagna í förum. Rökin sem kynnt verða fyrir þessu eru auðvitað þau að það sé miklu ódýrari kostur en léttlestin…