Helgarsprokið 5. desember 2004

340. tbl. 8. árg.

F yrir borgarstjórnarkosningar árið 2002 ræddi Morgunblaðið við þáverandi borgarstjóra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og spurði meðal annars eftirfarandi spurningar: „Getur þú þá lofað því að á næstu fjórum árum verði álögur á borgarbúa ekki hækkaðar vegna aukinnar skuldasöfnunar?“ Ekki stóð á svari Ingibjargar Sólrúnar: „Já, það get ég. Til marks um það vil ég nefna að samkvæmt þriggja ára áætlun á borgarsjóður 4-5 milljarða í afgang þegar búið er að taka fyrir öllum rekstri.“ Í stefnuskrá R-listans fyrir kosningar var sama loforð gefið, en þar sagði meðal annars að framtíðarsýn og áherslur R-listans byggðust á nýsamþykktri fjárhagsáætlun til þriggja ára, sem sagt til áranna 2003 til 2005. Stefnan var sögð í senn „ábyrg og raunhæf“ og þar væri gert ráð fyrir „óbreyttu útsvarshlutfalli og óbreyttum fasteignasköttum“.

„Loforð Ingibjargar Sólrúnar og R-listans um að skattar yrðu ekki hækkaðir og að skuldastaðan yrði ekki notuð sem röksemd fyrir skatta-hækkunum reyndust einskis virði.“

Þannig var þetta nú þá, en síðan eru liðin rúm tvö ár, kosningarnar langt að baki og R-listinn telur sig ekki lengur þurfa að standa við stóru orðin. Fyrir helgi kynnti R-listinn frumvarp að fjárhagsáætlun borgarinnar og í því koma fram áform hann um verulega hækkaðar álögur á borgarbúa, þvert á hátíðleg loforð um hið gagnstæða. Fasteignaskattar, sem áttu að vera „óbreyttir“, verða hækkaðir og útsvar, sem einnig átti að vera „óbreytt“, verður hækkað upp í hámark í fyrsta sinn í sögu Reykjavíkur. Samtals er þetta 900 milljóna króna skattahækkun og rökin sem núverandi borgarstjóri Steinunn Valdís Óskarsdóttir hefur gefið eru meðal annars þau að hækka þurfi álögur til að greiða niður skuldir. Loforð Ingibjargar Sólrúnar og R-listans um að skattar yrðu ekki hækkaðir og að skuldastaðan yrði ekki notuð sem röksemd fyrir skattahækkunum reyndust einskis virði.

En R-listinn lofaði fleiru. Hann lofaði „lækkun skulda borgarsjóðs“ í þriggja ára áætluninni sem nefnd var hér að ofan. Hinn nútímalegi borgarfulltrúi , Dagur Bergþóruson Eggertsson, sem Ingibjörg Sólrún valdi ein síns liðs inn á lista hins lýðræðislega framboðs vinstri manna í Reykjavík, ritaði grein í Morgunblaðið fyrir kosningarnar undir fyrirsögninni „Sterk staða og eftirsóttustu skuldir landsins“ og sami söngurinn um „sterka stöðu“ var viðkvæðið í auglýsingum R-listans. Allt var gert til að halda því að kjósendum að skattar yrðu ekki hækkaðir og að skuldir væru ekki háar og færu auk þess lækkandi. Loforð R-listans um skuldastöðuna hafa reynst jafn haldgóð og loforðin um að skattar yrðu ekki hækkaðir, því að skuldir borgarsjóðs hafa hækkað stöðugt frá því loforðin voru gefin. Árið 2001, síðasta ár fyrir kosningar, voru heildarskuldir borgarsjóðs 15,5 milljarðar króna og ári síðar, kosningaárið sjálft, höfðu þær hækkað um nær 3 milljarða króna. Í fyrra hækkuðu þær aftur og þá um rúma 2 milljarða króna og í ár er gert ráð fyrir að þær hækki enn um 1½ milljarð króna og verði komnar í rúma 22,2 milljarða króna. Hækkunin er um 43% frá árinu 2001. Núna gerir R-listinn enn ráð fyrir því að skuldir borgarsjóðs muni lækka milli ára, að þessu sinni meðal annars vegna hækkunar skatta. Lækkunin á að vera rúmur einn milljarður króna, en í ljósi þess að niðurstaðan hefur yfirleitt verið fjarri áætlunum, í fyrra skeikaði til að mynda um hálfum öðrum milljarði króna, þá er rökrétt að taka tölunum í nýju frumvarpi R-listans með fyrirvara. En jafnvel þótt þetta tækist og jafnvel þótt R-listanum tækist að halda áfram að lækka skuldir um sömu fjárhæð árið 2006 er ljóst að loforðið um „lækkun skulda borgarsjóðs“ á kjörtímabilinu er, svo vægt sé til orða tekið, fjarri því að halda.

Eftir hverjar kosningar fara R-listamenn saman í bað og skola af sér loforð sín.

Því er oft haldið fram að loforð stjórnmálamanna séu lítils virði og fjölmörg dæmi mætti nefna því til stuðnings. Stundum hafa stjórnmálamenn þó sér til málsbóta – og hafa oft bent á þá staðreynd sjálfir – að þeir starfi í því umhverfi að þurfa að gera málamiðlanir. Þeir starfi innan stjórnmálaflokks og þurfi að semja um mál við flokksbræður sína og þar að auki þurfi flokkur þeirra í samsteypustjórnum að semja við flokkinn eða flokkana sem unnið er með. Þetta á oft við og fátt við því að segja í þeim veruleika sem stjórnmálamenn starfa, þó að það komi sjálfsagt líka fyrir að þeir skýli sér á bak við þetta vilji þeir ekki standa við allt sem þeir hafa sagt. Þetta á hins vegar alls ekki við um loforð R-listans um að hækka ekki skatta og að lækka skuldir. R-listinn sem stýrir Reykjavíkurborg nú er sá sami og bauð fram fyrir síðustu kosningar. Stjórnmálamennirnir sem fyrir kosningar gáfu kjósendum ítrekað loforð um skatta og skuldir eru þeir sömu og skipa nú meirihluta borgarstjórnar og svíkja þessi sömu loforð. Þessir menn hafa ekkert þurft að semja við aðra um stjórn borgarinnar. Þeir hafa haft þetta allt í hendi sér og hefðu hæglega getað staðið við loforðin. Staðreyndin er bara sú að þeir sjá enga ástæðu til að standa við loforðin og hafa engan vilja til að gera það. Ef til vill þykjast þeir sjá á skoðanakönnunum að þeir þurfi ekki að standa við loforðin því að kjósendur í borginni muni kjósa þá áfram sama hvernig þeir standa sig og sama hvort þeir halda loforðin eða svíkja þau. Og þar fyrir utan þykja þeim eigin orð augljóslega ekki þess virði að við þau þurfi að standa.