Íhelgarblaði Financial Times var rætt við Julia Morley sem er stjórnandi og aðaleigandi Miss World fyrirtækisins. Miss World keppnin var fyrst haldin í Englandi árið 1951 og síðast í gær var krýnd ný fegurðardrottning. Sú er frá Perú og veifar til áhorfenda á myndinni hér til hliðar. Keppnin var að þessu sinni haldin í Peking með góðfúslegu leyfi kínverska kommúnistaflokksins sem áður og fyrr hafði lítið álit á svona tilstandi. Í fyrra horfðu 2,3 milljarðar manna í 162 löndum á útsendingu frá keppninni og nú geta áhorfendur um víða veröld kosið fegusta fljóðið með símahringinum, textaskeytum og í gegnum netið. „Kosningin er góð tekjulind. Menn þora ekki að segja svona en þetta er satt“, segir Morley
Í viðtalinu kemur fram að fyrir rúmum fjórum árum, stuttu eftir að eiginmaður Morley og stofnandi keppninnar lést, hafi hún fengið símtal frá Donald Trump eiganda keppinautarins Miss Universe. Trump bauð henni að leggja niður vopnin og selja sér Miss World en Morley hafnaði því eftir umhugsun og hefur eflt keppnina í samkeppninni síðustu árin. Keppnin hefur jafnframt tekið miklum breytingum. Þegar Eric, eiginmaður Morley, stýrði keppninni fyrir margt löngu komu keppendur fram á sundbolum undir hvatningarhrópum hans: „Snúa sér. Og snúa sér. Einn snúning enn.“ Líklega þætti almennum áhorfendum slíkt einkennilegt ef ekki hreint fáránlegt nú til dags sem er kannski umhugsunarefni fyrir þá femínista sem segja að „ekkert miði í kvenréttindabaráttunni“ og „kvenfyrirlitning“ sé allsráðandi..
Árið 2002 átti hins vegar að halda keppnina í Nígeríu. Margir íslamskir bókstafstrúarmenn deila þeirri skoðun með femínistum að fegurðarkeppnir af þessu tagi séu rangar. „Blaðamaður sem fylgdist með undirbúningi keppninnar gerði þau mistök að halda því fram að Múhameð spámaður hefði ekkert haft á móti Miss World. Í óeirðum sem fylgdu í kjölfarið fórust um 250 manns. „Niður með fegurðina!“, hrópaði múgurinn. Á síðustu stundu ákvað Morley að færa keppnina til London.“, segir í FT.
Þrátt fyrir allan grátinn um meintan niðurskurð á undanförnum árum er það staðreynd að gjöld ríkisins hafa aukist hratt og örugglega þessi sömu ár. Á þessu eru vafalaust ýmsar skýringar. Ein af stóru skýringunum er til dæmis fíaskóið varðandi fæðingarorlofssjóð en þrátt fyrri að honum hafi áður verið skammtaðir milljarðar á milljarða ofan þurfti að bjarga honum frá gjaldþroti á dögunum með því að seilast en einu sinni í vasa skattgreiðenda. Aðrar skýringar eru minni í sniðum. Tíð ferðalög ríkisstarfsmanna eru stundum nefnd til sögunnar og vafalaust eru fæstar þessara ferða nauðsynlegar. Annað lítið atriði sem Vefþjóðviljinn hefur veitt athygli að að hvar sem hann kemur á opinberar stofnanir eru nýlegir svonefndir flatir tölvuskjáir á borðum starfsmanna. Kannski það sé niðurskurðurinn sem alltaf er verið að tala um hjá ríkinu; að tölvuskjáirnir séu orðnir fyrirferðaminni – og dýrari.