Laugardagur 4. desember 2004

339. tbl. 8. árg.

V áclav Klaus, forseti Tékklands, hefur að undanförnu víða viðrað þá skoðun sína að fyrirhuguð stjórnarskrá Evrópusambandsins sé skaðleg og að best færi á því að hún tæki aldrei gildi. Morgunblaðið á vefnum hefur til dæmis eftir forsetanum að hann hafi á tilfinningunni að „skref á borð við stjórnarskrána séu ógn við lýðræði, frelsi og grósku í Evrópu.“ Sjónarmið Klaus eru athyglisverð í ljósi þess að stjórnarskráin hefur verið undirrituð og að ákveðnar líkur eru á að hún verði staðfest í aðildarríkjunum. Það er þó langt því frá að vera fullvíst, að minnsta kosti í þessari umferð, en verði hún ekki staðfest má þó telja öruggt að leitað verði staðfestingar aftur innan skamms eins og venja er hjá Evrópusambandinu. Klaus skýrði sjónarmið sín í þessu sambandi ýtarlega í ræðu sem hann hélt á dögunum og grein sem byggð var á ræðunni og birt í þýska blaðinu Die Welt fyrir nokkrum dögum. Í greininni lýsir Klaus efasemdum með að þrýst sé á um hraðari samruna í Evrópu og telur slíkt hvorki jákvætt né nauðsynlegt og að þetta verði ekki til að auka frelsi eða velmegun í álfunni.

Václav Klaus segist vera hlynntur því að samruninn í Evrópu fái að þróast með eðlilegum hætti og án þess ákafa sem einkennir nú þá sem ráða ferðinni í Evrópusambandinu. Hann er hlynntur því að öllum ónauðsynlegum hindrunum ferða og viðskipta fólks innan álfunnar verði rutt úr vegi, en telur ekki að til að ná þessu fram sé nauðsynlegt að ganga jafn langt í samrunaátt og þeir vilja sem nú draga „Evrópuhraðlestina“ af sem mestum ofsa. Klaus er andvígur allsherjar samræmingu og stöðlun Evrópu eins og nú er barist fyrir í nafni æ meiri samruna. Hann segist hlynntur vináttu og samvinnu þjóðríkja Evrópu, en vilji ekki afnema þjóðríkin og fá í staðinn yfirþjóðlegt Evrópusambandsríki þar sem enginn þurfi að bera lýðræðislega ábyrgð. Hann segir lýðræðislega ábyrgð grundvallaratriði og telur afleitt að þurfa að horfa upp á fjölda evrópskra stjórnmálamanna, embættismanna, blaðamanna og menntamanna horfa fram hjá þessu og gera lítið úr því.

Varnaðarorð Václav Klaus forseta Tékklands eru mikilvægt innlegg í umræðuna um aukinn samruna í Evrópu því að ekki er víst að allir átti sig á því hvert þá menn sem fallið hafa fyrir „Evrópuhugsjóninni“ langar að aka Evrópubúum í „Evrópuhraðlestinni“. Evrópusambandið hefur þegar mikil völd og þjóðríkin lúta vilja þess í mörgu tilliti. Verði stjórnarskráin fullgilt í ríkjum Evrópusambandsins geta menn hins vegar hætt að líta á ríkin sem ríki í þeim skilningi sem gert hefur verið. Þau verða miklu fremur landssvæði með ákveðna sjálfsstjórn og ættu líklega eftir það frekar að nefnast fylki en ríki, enda hefur Evrópusambandið þá tekið við sem hið raunverulega ríki.