V innumálastofnun lét nýverið framkvæma úttekt á ástæðum útgjaldaaukningar hjá Ábyrgðarsjóði launa. Ein ástæða útgjaldaaukningarinnar sem nefnd er í skýrslu Vinnumálastofnunar er ábyrgðarleysi stjórnenda þeirra fyrirtækja sem tekin eru til gjaldþrotaskipta. Á einum stað í skýrslunni stendur til dæmis þetta:
Vaknar því óneitanlega sú spurning hvort Ábyrgðarsjóður launa þyrfti ekki í auknum mæli að kanna möguleika á málsóknum á hendur stjórnendum hlutafélaga persónulega, sérstaklega í þeim tilvikum sem vænta má að bótaábyrgð sé fyrir hendi annarsvegar og að þeir eða sá sem krafa beinist að sé gjaldfær hinsvegar. |
Það er nefnilega það. Vinnumálastofnun, sem rekur apparat sem ber nafnið Ábyrgðarsjóður launa, kemst að því eftir tveggja mánaða skýrslugerð að ábyrgð stjórnenda sé ekki næg. Kemst sem sagt að því að þegar Ábyrgðarsjóður launa hefur ábyrgst að greiða öllum starfsmönnum gjaldþrota fyrirtækja ógreidd laun, þrjá mánuði aftur í tímann, að þá sé ábyrgð stjórnenda kannski bara svolítið ábótavant! Leiðin til að lækka útgjöld úr sjóðnum og auka ábyrgð stjórnenda er auðvitað sú að skila þessari ábyrgð aftur til stjórnenda og leggja sjóðinn einfaldlega niður eins og áður hefur verið bent á hér í blaðinu.
Í þessari sömu skýrslu er svo lagt til að einhverskonar hömlur verði lagðar á þá einstaklinga, sem hafa átt aðild að gjaldþrota fyrirtækjum, til að stofna ný fyrirtæki. Þannig að menn mættu ekki stofna nýtt fyrirtæki fyrr en að einhverjum tíma liðnum eða þá að leggja þyrfti fram sérstakar tryggingar fyrir stofnun nýs fyrirtækis. Það er mjög hæpið að telja það í verkahring ríkisins að setja hömlur á borð við þessar. Það sem frjáls markaður gerir allra best – og reyndar það eina sem hann gerir – er að miðla upplýsingum. Upplýsingum eins og til dæmis því orðspori sem fer af hverjum og einum í viðskiptum. Það eru jafnvel heilu fyrirtækin sem sinna engu öðru en því að halda til haga upplýsingum um hvort menn standi við skuldbindingar sínar eða ekki. Þannig leggjast sjálfkrafa hömlur á þá sem stunda það að standa ekki við skuldbindingar.
Svo má heldur ekki gleyma því að gjaldþrot eru alls ekkert alltaf glæpsamleg og þau gegna mikilvægu hlutverki við að auka þekkingu á markaðnum. Enda hafa margir þeirra sem orðið hafa gjaldþrota seinna stofnað blómleg fyrirtæki, reynslunni ríkari. Svo lengi sem markaðsbúskapur er við lýði þá verður til fólk sem gerir þessar tilraunir, stofnar fyrirtæki sem ganga illa, stofnar fyrirtæki sem ganga vel eða bara stofnar ekki fyrirtæki. Á þessum tilraunum þrífst markaðurinn og á niðurstöðum þeirra vex hann. Þeim mun minni áhrif sem ríkið hefur á þessar tilraunir, þeim mun áreiðanlegri verða niðurstöðurnar.