Þriðjudagur 30. nóvember 2004

335. tbl. 8. árg.

N ú er eina ferðina enn hafinn þrýstingur á að skattgreiðendur verði látnir greiða stórfé til húsnæðismála Listaháskólans. Morgunblaðið ræddi um helgina við rektor skólans og arkitekt sem fenginn hefur verið til að gera „þarfagreiningu“ og niðurstaða þess samtals var að vel færi á því að skattgreiðendur reiddu fram 1,5-1,8 milljarða króna til að bæta húsnæðismál skólans. Ekki svo að skilja að skólinn hafi ekkert húsnæði og að nemendur sitji utandyra við listsköpun sína. Nei, skólinn er í húsnæði og getur verið áfram vandalaust. Vandinn að mati fyrrnefndra áhugamanna um frekari opinberar byggingar er hins vegar sá að skólinn er ekki allur undir einu þaki, heldur á þremur stöðum. Og meðal annars í nafni hagkvæmninnar fara menn nú fram með þá kröfu að skólinn skuli undir eitt þak.

Í sjálfu sér hljómar það ósköp vel að það sé miklu hagkvæmara, og meira skapandi að auki, að Listaháskólinn sé allur í einu húsi, en vitaskuld er það þó alls ekki svo að það hljóti að vera hagkvæmast að byggja fyrir hátt í tvo milljarða króna til að hagræða og spara peninga í rekstri skólans. Ef það væri alltaf hagkvæmast að setja allt undir eitt þak er ljóst að Háskóli Íslands er til að mynda afar óhagkvæmur og mikill sparnaður í því fólginn að byggja eitt stórt hús undir alla starfsemi hans í stað þeirra tuga húsa sem skólinn er í nú. Þetta er hins vegar ekki svona einfalt og oft getur verið mun hagkvæmara að nýta áfram það húsnæði sem fyrir er. Í tilviki Listaháskólans er næsta víst að sparnaðurinn af því að fara undir eitt þak myndi aldrei standa undir nema litlu broti af kostnaðinum af nýju húsi.

Það verður að segjast eins og er að kröfugerðir sérhagsmunahópa með alls kyns „þarfagreiningar“ að vopni eru orðnar bæði dýrar og þreytandi. Hvernig væri að einhver greindi hvaða þörf skattgreiðendur hafa fyrir að greiða svo sem eins og tvo milljarða króna til viðbótar til Listaháskólans? Ætli fagleg og vönduð þarfagreining myndi ekki leiða í ljós að skattgreiðendur hafa bara alls enga þörf fyrir frekari ríkisútgjöld og eru hæstánægðir með að spara sér þá hagkvæmni sem felst í því að færa starfsemi Listaháskólans undir eitt þak.