Miðvikudagur 1. desember 2004

336. tbl. 8. árg.

F

Skyldi þetta vera símastrákur Samfylkingarinnar að dreifa röngum upplýsingum um stefnu flokksins?

ormaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, hefur svo oft átt sérkennilega leiki á stjórnmálaferli sínum að fátt kemur á óvart þegar hann er annars vegar. Þó náði hann í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 í gærkvöldi að vekja undrun áhorfenda þegar hann hélt því fram að Samfylkingin hefði alls ekki verið þeirrar skoðunar nokkru fyrir kosningar í fyrra að ekki ætti að lækka matarskattinn svokallaða. Og skýringin á þessu? Jú, það var víst bara einhver „símastrákur“ á skrifstofu Samfylkingarinnar sem svaraði spurningu um stefnu flokksins varðandi virðisaukaskattinn. Að sögn formannsins kannast bara alls enginn flokksmaður við að hafa veitt upplýsingar um stefnu flokksins og telst það sæta nokkrum tíðindum að nú sé allt í einu upplýst að þetta hafi sko ekkert verið stefna flokksins, heldur stefna „símastráks“ flokksins.

Samtök verslunar og þjónustu verða líklega meðal þeirra sem undrast þetta mest, því að á aðalfundi samtakanna þann 20. mars í fyrra, aðeins fáeinum vikum fyrir kosningarnar í maí, kynntu þau svör stjórnmálaflokkanna við nokkrum spurningum úr könnun samtakanna á viðhorfi flokkanna. Í Fréttapósti SVÞ nokkrum dögum eftir aðalfundinn segir meðal annars um könnunina: „Samfylkingin er eini flokkurinn sem ekki hefur á stefnuskrá sinni að gera breytingu á virðisaukaskattskerfinu“, en flokkurinn hafði svarað spurningu um breytingar með því að segja einfaldlega nei. Allir hinir flokkarnir ljáðu sem sagt máls á breytingum, misjafnlega ákveðið að vísu.

Það leið ekki langur tími frá því að Samfylkingin ætlaði alls engu að breyta í virðisaukaskattskerfinu og þar til flokkurinn hafði á stefnuskrá sinni að lækka virðisaukaskatt á matvæli, en í millitíðinni gerðist það að Sjálfstæðisflokkurinn lýsti því yfir að hann vildi lækka matarskattinn um helming. Meira þurfti ekki til að breyta stefnu staðfastra samfylkingarmanna. Eða þetta er að minnsta kosti það sem allir héldu þar til í gær, en nú vita menn betur eftir uppljóstranir formannsins. Nú vita menn að Samfylkingin hafði það alltaf á stefnuskrá sinni – að vísu óbirtri stefnuskrá sem enginn hefur enn séð – að lækka matarskattinn. Það vildi bara svo óheppilega til að „símastrákur“ Samfylkingarinnar tók sig til og svaraði fyrir flokkinn. Því miður hefur ekki tekist að hafa uppi á „símastráknum“ og þess vegna hefur ekki gefist færi á að spyrja hann að því hvort að hann hafi líka svarað öllum hinum spurningum SVÞ eða hvort hann lét sér nægja að lauma inn þessu eina svari. Það hefur ekki heldur fengist upplýst hvers vegna formaðurinn telur að „símastrákur“ flokksins hafi svarað þessari spurningu SVÞ, því að könnun SVÞ var engin símakönnun. Allt er þetta mjög á huldu, en vafalítið fer nú fram dauðaleit að „símastrák“ Samfylkingarinnar á skrifstofu flokksins til að koma í veg fyrir að hann svari öðrum skriflegum erindum sem flokknum kunna að berast.