Mánudagur 29. nóvember 2004

334. tbl. 8. árg.

A llir fjölmiðlar endurfluttu um helgina þá kröfu stjórnar Íslandsdeildar Amnesty international að íslenska ríkið fjármagnaði rekstur félagsskaparins Mannréttindaskrifstofu Íslands, sem Íslandsdeildin á aðild að. Í tilkynningu stjórnarinnar segir, í endursögn Morgunblaðsins, að skorað sé á Alþingi „að tryggja rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands og sjálfstæði skrifstofunnar gagnvart framkvæmdavaldinu, þannig að hún geti áfram verið sú sjálfstæða og óháða stofnun sem sinni þessum málaflokki á breiðum grundvelli.“

Þetta hljómar nú aldeilis vel enda hafa fjölmiðlar endurflutt þetta gagnrýnislaust um helgina. Enginn þeirra virðist velta fyrir sér hvort sjálfstæði slíkra félaga sé best tryggt með því að þau séu rekin fyrir opinber framlög. En ef einhver fjölmiðlamaður hefði viljað velta þeirri spurningu upp, þá hefði hann hugsanlega getað leitað svars við henni á heimasíðu Íslandsdeildar Amnesty international. Þar segir meðal annars:

Samtökin Amnesty International byggja afkomu sína á frjálsum framlögum, og til þess að tryggja sjálfstæði sitt og óhlutdrægni þiggja þau aldrei ríkisstyrki. Án fjárhagslegs stuðnings almennings eru samtökin magnvana.

Og á öðrum stað:

Amnesty International er óháð öllum stjórnvöldum, stjórnmálastefnum, efnalegum hagsmunum og trúarbrögðum. Samtökin hvorki styðja né eru andsnúin nokkrum stjórnvöldum eða stjórnmálakerfi, né styðja þau endilega viðhorf þeirra einstaklinga, sem eru viðfang mannréttindabaráttu samtakanna. Til að tryggja sjálfstæði sitt leitar Amnesty International hvorki eftir né þiggur fé frá ríkisstjórnum eða stjórnmálaflokkum í starf sitt við að skrásetja og berjast gegn mannréttindabrotum. Fjáröflun samtakanna byggir á framlögum félaga þeirra um heim allan, og annarri fjáröflun.

Þannig er þetta nú. Og hvað ætli margir þeirra fjölmiðla, sem um helgina hafa lesið upp áskorun Amnesty um opinbera styrki til Mannréttindaskrifstofunnar – til þess að „tryggja sjálfstæði hennar“ -, muni nú segja frá því að í hinu orðinu hrósi Amnesty sér sýknt og heilagt fyrir það að leita hvorki eftir né þiggja opinbera styrki? Að Amnesty tryggi þannig sjálfstæði sitt.