Helgarsprokið 28. nóvember 2004

333. tbl. 8. árg.

R -listaflokkarnir í borgarstjórn taka ákvörðun um skattahækkun á sama tíma og ríkisstjórnin tekur ákvörðun um skattalækkun. Skattahækkun R-listans felur í sér að útsvarshlutfallið er hækkað í leyfilegt hámark í fyrsta sinn í sögu Reykjavíkur. Skattalækkun ríkisstjórnarinnar felur í sér niðurfellingu eignaskatts, lækkun tekjuskattshlutfallsins um 4% og niðurfellingu hátekjuskattsins. Þessi lækkun ríkisstjórnarinnar er mesta skattalækkun sem orðið hefur hér á landi í langan tíma að minnsta kosti. Samkvæmt tölum fjármálaráðuneytisins mun ríkið taka 22 milljörðum króna minna af skattgreiðendum eftir skattalækkunin en að óbreyttum sköttum. Hver skyldu svo viðbrögð fjölmiðla vera, líklega draga þeir fram einmitt þessar staðreyndir. Eða hvað? Ólafur Teitur Guðnason blaðamaður á Viðskiptablaðinu er ekki í vafa um hvernig fjölmiðlarnir stóðu sig í umfjöllun um þessa miklu atburði. Hann fullyrðir í Viðskiptablaðinu á föstudag að meira hafi verið fjallað um neikvæðar hliðar þess að ríkisstjórnin sé að lækka tekjuskatt en um neikvæðar hliðar þess að Reykjavíkurborg sé að hækka útsvar. Þeir sem fylgst hafa með fjölmiðlum síðustu daga geta vafalítið tekið undir með Ólafi Teiti, en lítum aðeins á umfjöllun hans.

„Þannig virðast fjölmiðlamenn til dæmis almennt vera mun gagnrýnni á lækkun skatta en hækkun þeirra.“

Á föstudaginn fyrir rúmri viku í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins var sagt frá skattalækkun ríkisstjórnarinnar í fyrstu frétt, en þá var minnt á að ýmsir hefðu gagnrýnt tímasetningu skattalækkana, auk þess sem einhverjir vildu fremur auka samneysluna en að lækka skatta. Ráðherrarnir svöruðu fyrir skattalækkunina í fréttinni, en ekki voru nefnd nokkur dæmi um hversu mikil áhrif í krónum skattalækkunin hefði á ráðstöfunartekjur hins almenna manns. Daginn eftir, segir Ólafur Teitur, voru tekin saman viðbrögð leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem fundu skattalækkununum allt til foráttu. Þetta var fyrsta frétt líkt og kvöldið áður, en nú bar svo við að stjórnarandstæðingarnir fengu engar gagnrýnar spurningar. „Það var einfaldlega tappað af þeim,“ segir Ólafur Teitur, og telur að andstaða við skattalækkanir sé ekki frekar hafin yfir gagnrýni en stuðningur við þær.

Umfjöllun Ólafs Teits verður ekki rakin í smáatriðum hér, en í stuttu máli má segja að hann komist að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpið og Stöð 2 hafi staðið sig heldur illa í frásögnum af skattalækkununum og meðal annars sett fréttir af þeim aftar í fréttatímann en eðlilegt hefði verið. Atburðir á borð við fækkun stöðugilda á Vogi, flugslys í Kína, ágreiningur um mengunarkvóta og kosningar í Úkraínu hafi verið taldir merkari svo dæmi séu tekin. Slíkt fréttamat á sinn þátt í því að hinn almenni maður, sem vitaskuld fær upplýsingar um það sem gerist í þjóðfélaginu að mestu leyti úr fjölmiðlum, lítur ekki endilega svo á að skattalækkanirnar hafi mikla þýðingu fyrir sig. Þess ber þó að geta að Ólafur Teitur telur Ríkissjónvarpið hafa staðið sig heldur betur en Ríkisútvarpið og Stöð 2, en fréttastofa Ríkissjónvarpsins hafi þó að einu leyti í það minnsta fallið í sömu gryfju og síðarnefndu fréttastofurnar. Hún hafi ekki spurt stjórnarandstæðingana sem fundu að skattalækkununum neinna gagnrýnna spurninga og að við „hljótum að draga þá ályktun að fréttamönnum finnist það orka tvímælis að vilja lækka skatta en ekkert sé sjálfsagðara en að vera á móti því.“

Ef til vill er ástæða þess að fréttamenn fjalla með svo sérkennilegum hætti um skattalækkanir einfaldlega sú að þeir eru líklega yfirleitt lengra til vinstri í stjórnmálum en gengur og gerist. Ýmsar kannanir benda til að svo sé og fréttamatið styður það óneitanlega. En hvert er þá viðhorf venjulegs launafólks til skattalækkana. Ólafur Teitur nefnir í grein sinni á föstudag dæmi um það. Fyrir nákvæmlega einu ári hafi Gallup gert skoðanakönnun fyrir Verslunarmannafélag Reykjavíkur þar sem meðal annars hafi verið spurt að því hvaða mál félagsmenn teldu mikilvægast að félagið legði áherslu á í kjarasamningum. Ýmsir möguleikar hafi verið gefnir og flestir, 25,8% hafi talið mikilvægast að leggja áherslu á að hækka lægstu laun. Næstflestir, 20,5%, hafi talið mikilvægast að félagið berðist fyrir því að lækka skatta. Og ef saman eru teknir þeir sem töldu skattalækkun skipta „mjög miklu máli“ eða „öllu máli“ er hlutfallið 62,4%. Til viðbótar töldu 21% að sú barátta skipti „frekar miklu máli“. Aðeins 11% töldu þá baráttu skipta „frekar litlu“, „mjög litlu“ eða „engu“ máli.

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, var greinilega nóg boðið yfir málflutningi stjórnarandstöðunnar og fréttaflutningi fjölmiðla af skattalækkunum ríkisstjórnarinnar og boðaði til fundar í gær til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Segja má þeim fjölmiðlum sem hér hafa verið nefndir til hróss að þeir virðast hafa séð að sér og sögðu frá þessum fundi. Geir kom sjónarmiðum sínum að hjá öllum þessum fréttastofum og skattgreiðendur eru nokkru nær um þær breytingar sem standa fyrir dyrum. Vissulega er betra að fá slíka umfjöllun seint en alls ekki, en ákveðin atriði standa þó upp úr eftir fréttaflutning af skattalækkunum og skattahækkunum að undanförnu. Þannig virðast fjölmiðlamenn til dæmis almennt vera mun gagnrýnni á lækkun skatta en hækkun þeirra. Þeir sem standa fyrir skattalækkunum þurfa frekar að rökstyðja hvers vegna þær eru eðlilegar en andstæðingarnir að rökstyðja hvers vegna þeir eru á móti lækkununum. Þá verður ekki betur séð en fjölmiðlamenn séu alls ófærir um að sjá leggja eðlilegt mat á mikilvægi þess þegar R-listinn hækkar skatta upp í sögulegt hámark eða þegar ríkisstjórnin stendur fyrir meiri skattalækkunum en elstu menn muna.