Laugardagur 27. nóvember 2004

332. tbl. 8. árg.

Hvað er þetta með Fréttablaðið og Vísi og þörf þeirra fyrir að gera Samfylkingarmenn að borgar- og bæjarstjórum? Í byrjun mánaðarins gerðu miðlarnir sitt besta til að gera Dag B. Eggertsson að borgarstjóra í Reykjavík. Dagur hann var sem kunnugt er valinn á framboðslista R-listans af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur einni enda Samfylkingin andvíg öllu foringjaræði. Þegar fyrsta tilkynning Fréttablaðsins um Dag birtist hafði ekki einu sinni verið tekin ákvörðun um að Þórólfur Árnason hætti sem borgarstjóri þótt borgarstjórnarflokkur R-listans lýsti yfir áhyggjum vegna „umræðunnar“ um þátt Þórólfs í meintu verðsamráði. En Fréttablaðið gat ekki beðið með að gera Dag að borgarstjóra þótt á endanum kæmi í ljós að það var aðeins Alfreð Þorsteinsson sem Ingibjörg og Dagur hefðu sannfært um ágæti Dags sem borgarstjóra. Er það mikill heiður fyrir ungan stjórnmálamann að uppfylla allar þær faglegu kröfur sem Alfreð Þorsteinsson gerir til stjórnmálastarfs. Vísir bætti svo um betur nokkrum dögum síðar þegar ljóst var að Þórólfur myndi hætta og tilkynnti beinlínis að Dagur hefði verið valinn næsti borgarstjóri

Um síðustu helgi viku varð uppnám í bæjarstjórn Dalvíkur út af áhaldaskúr, stöðu sturtuvarðar í sundlaug bæjarins eða einhverju álíka stóru grundvallarmáli sem sveitarstjórnarmenn láta gjarnan steyta á. Svo virtist sem meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks væri fallinn. Fréttablaðið beið ekki boðanna. „Svanfríður í bæjarstjórastólinn“ var aðalforsíðufyrirsögn blaðsins mánudaginn 22. nóvember. Ekki kom Vefþjóðviljinn þessum Svanfríði fyrir sig í fljótu bragði og lét gott heita að hann væri samkvæmt undirfyrirsögn „Jónasdóttir“ enda kemur ekkert á óvart lengur í fjölmenningarsamfélaginu.

Þegar betur var að gáð kom hins vegar fram að það var Svanfríður Jónasdóttir fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar og einn af þremur aðstoðarmönnum Ólafs Ragnars Grímssonar fjármálaráðherra sem átti að verða næsti bæjarstjóri Fréttablaðsins og Samfylkingarinnar, sem nefnd er I-listi Sameiningar, á Dalvík.

Samkvæmt heimildum blaðsins er um það rætt að Svanfríður Jónasdóttir, fyrrum þingkona Samfylkingar, verði næsti bæjarstjóri á Dalvík fyrir hönd I-lista Sameiningar. Sjálfstæðismenn í bænum hafa boðið Sameiningu bæjarstjórastólinn fari flokkarnir í meirihlutasamstarf en talið er líklegt að Sameining geti krafist þess að fá að velja bæjarstjóra verði farið í samstarf við framsóknarmenn. Sameining fundaði í gærkvöld til að taka ákvörðun um við hvorn flokkinn eigi að hefja meirihlutaviðræður við og höfðu þá forsvarsmenn Sameiningar heyrt í oddvitum bæði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Meirihlutasamstarfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks var slitið á laugardag vegna ágreinings um framtíð Húsabakkaskóla í Svarfaðardal. Ekki er ljóst hvaða áhrif það mun hafa á framtíð skólans við hvern verður farið í samstarf. Ein tillagan sem rædd var á fundinum var að Svanfríður yrði bæjarstjóri, annar hinna flokkanna fengi forseta bæjarstjórnar og formann bæjarráðs en Sameining fengi meirihluta í nefndum bæjarins.

Eins og um daginn studdi fréttin sjálf ekki alveg forsíðufyrirsögnina. Þótt fyrirsögnin „Svanfríður í bæjarstjórastólinn“ bendi ekki til annars en að þessi Svanfríður verði bæjarstjóri kemur hins vegar í ljós við lestur fréttarinnar að „ein tillagan sem rædd var á fundinum var að Svanfríður yrði bæjarstjóri“. Sama frétt með sömu fyrirsögn birtist einnig á Vísi þennan sama dag ásamt mynd af Svanfríði.

Síðar í vikunni kom svo á daginn að meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var ekki fallinn. Með öðrum orðum komst hvorki Samfylkingin í meirihluta í bæjarstjórninni né Svanfríður fulltrúi hennar í bæjarstjórastólinn.

Við þetta má kannski bæta að fyrir þingkosningarnar 1999 hélt Samfylkingin prófkjör á Norðurlandi-eystra enda flokkurinn með slagorðin „lýðræðisleg hreyfing fólksins“ á hraðbergi. Í prófkjörinu varð Sigbjörn Gunnarsson í efsta sæti en Svanfríður Jónasdóttir númer þrjú. Flokksforustan var ekki ánægð með þessa niðurstöðu kjósenda og lét telja upp á nýtt. En sama niðurstaða varð. Sigbjörn fékk flest atkvæði. Því ákvað flokksforystan hinnar lýðræðislegu Samfylkingar að Svanfríður yrði númer eitt en Sigbjörn númer ekki neitt. Svanfríður fór á þing en Sigbjörn heim í Mývatnssveit. Nú er það eina sem vantar að meirihluti bæjarstjórnarinnar á Dalvík bjóði Sigbirni Gunnarssyni bæjarstjórastólinn. Það væri þörf lexía fyrir hina lýðræðislegu Samfylkingu.