Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar ritaði grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann skammaði Framsóknarflokkinn fyrir að standa einn flokka á móti því að „lækka matarskattinn“. Sem kunnugt er höfðu bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin það á stefnuskrá sinni fyrir síðustu kosningar að lækka virðisaukaskatt á völdum matvælum. Samfylkingin hefur svo lagt fram lagafrumvarp þess efnis sem hyglar íslenskum landbúnaðarafurðum sérstaklega. Össur segir í grein sinni að bæði forystumenn VG og Frjálslynda flokksins hafi lýst sig fylgjandi þessari stefnu. Framsóknarflokkurinn standi því einn flokka í vegi fyrir því að þessi skattur verði lækkaður.
Sem kunnugt er bauð Össur Skarphéðinsson, fyrir hönd Samfylkingarinnar, Framsóknarflokknum að leiða ríkisstjórn nokkrum stundum eftir að kjörstöðum lokaði í fyrravor. Nokkrum stundum áður hafði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verið sérstakt forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar en svo snýst sem blæs. Forysta Samfylkingarinnar endurnýjaði þetta boð sitt til Halldórs Ásgrímssonar í sumar sem leið er mest gekk á vegna „fjölmiðlamálsins“. Skömmu síðar, þegar Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra, lýstu forystumenn Samfylkingarinnar því yfir að það væri hneyksli að lítill flokkur á borð við Framsóknarflokkinn leiddi ríkisstjórn.
En þessi litli flokkur virðist nú ætla að gera tilraun til að koma vitinu fyrir aðra flokka þegar virðisaukaskattur á valin matvæli er annars vegar. Það er svo sem ekki nákvæmlega vitað hvar Framsóknarflokkurinn stendur í þessum efnum. Kannski vill hann bara lækka virðisaukaskatt á spjarir ungmenna eins og einn varaþingmanna hans hefur lagt til og mun hafa verið á stefnuskrá flokksins við síðustu kosningar. Þá yrði nýja línan frá Armani Junior með lægri virðisaukaskatt en helstu nauðsynjar og helstu ónauðsynjar.
Kannski er komin upp sú merkilega staða þessu máli að Framsóknarflokkurinn stöðvar tillögu hinna flokkanna um lækkun á virðisaukaskatti á ákveðin matvæli með álíka vitlausri tillögu um lækkun virðisaukaskatts á ákveðin föt. Líklegasta niðurstaðan úr þessu er auðvitað að báðir aðilar hafi sitt fram og virðisaukaskattskerfið verði enn meiri þvæla en orðið er.
En áður en það verður má Vefþjóðviljinn gera það að tillögu sinni að allar vörur verði með sama virðisaukaskatt og hann lækki frá því sem hann er nú hæstur?