Það var tilkynnt við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í gær að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum breytist ekki nú um áramótin. Verðlagsnefnd búvara tók þessa ákvörðun og hún var tilkynnt af nefndinni og landbúnaðarráðherra í gær. Á vef bændasamtakanna eru upplýsingar um starfsemi verðlagsnefndarinnar.
Verðlagsnefnd ákveður lágmarksverð á mjólk til framleiðenda og leyfileg afföll mjólkur sem stenst ekki kröfur sem 1. flokks mjólk. Ákvörðun um lágmarksverð skal byggjast á gerð verðlagsgrundvallar fyrir bú af hagkvæmri stærð. Einnig á nefndin að meta framleiðslukostnað sauðfjárafurða við upphaf hvers verðlagsárs. Miða skal við kostnaðarútreikninga er sýni áætlaða vinnuþörf, fjármagnskostnað, rekstargjöld, launakostnað og afurðir meðalbús sem rekið er við eðlilegar framleiðsluaðstæður. Þá getur nefndin verðlagt afurðir annarra búgreina koma fram óskir þess efnis. |
Í 7. grein laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 99/1993, með síðari breytingum segir:
Verðlagsnefnd búvara, skipuð sex mönnum, ákveður afurðaverð til búvöruframleiðenda og verð búvara í heildsölu. Samtök launþega tilnefna tvo fulltrúa í nefndina. Skal annar þeirra tilnefndur af stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og hinn af stjórn Alþýðusambands Íslands. Noti annar aðilinn ekki tilnefningarrétt sinn færist réttur hans til hins. Stjórn Bændasamtaka Íslands og stjórnir búgreinasamtaka, sem hlotið hafa viðurkenningu skv. 4. gr. og starfa fyrir búgreinafélög þeirra afurða sem verðlagðar eru hverju sinni, tilnefna tvo fulltrúa í nefndina sameiginlega. Skal annar þeirra tilnefndur til að fjalla eingöngu um verðmyndun til framleiðenda. Skal hann víkja úr nefndinni fyrir fulltrúa samtaka afurðastöðva í nefndinni þegar fjallað er um verðmyndun hjá afurðastöðvum. Samtök afurðastöðva fyrir búvörur tilnefna tvo fulltrúa í nefndina. Skulu þeir tilnefndir þannig að í nefndinni starfi hverju sinni fulltrúar frá þeirri vinnslugrein sem um er rætt hverju sinni. Annar þessara fulltrúa skal tilnefndur til að starfa aðeins í nefndinni þegar nefndin fjallar um verðmyndun hjá afurðastöðvum og kemur í stað fulltrúa framleiðenda sem víkur sæti. Landbúnaðarráðherra tilnefnir einn fulltrúa í nefndina og er hann formaður hennar. |
Þarna sitja sumsé fulltrúar ríkisins, bænda, afurðastöðva og verkalýðshreyfingar og samræma verð á landbúnaðarafurðum og leyfileg afföll mjólkur sem stenst ekki kröfur sem 1. flokks mjólk. Þessar landbúnaðarafurðir njóta einnig mikillar verndar gegn erlendri samkeppni að ógleymdum miklum fjárstuðningi úr opinberum sjóðum.
Svo er ríkið með stofnun á sínum vegum sem sektar aðra hér í þjóðfélaginu fyrir samráð.