Miðvikudagur 24. nóvember 2004

329. tbl. 8. árg.

M ér finnst orðin svolítið skrýtin umræðan um skattamál ef allir verða að vera jafnir fyrir þeim,“ sagði sá ágæti þingmaður Samfylkingarinnar Jóhann Ársælsson og segja má að með þessum orðum hafi hann tekið ágætlega saman umræður á Alþingi í gær. Í pontu Alþingis gekk hver þingmaður stjórnarandstöðunnar á fætur öðrum langt fram í myrkur og hamaðist gegn því að skattar yrðu lækkaðir, yfirleitt með þeim rökum að með lækkun skattanna fengju þeir sem greiða hæstu skattana mesta lækkun í krónum talið. Þetta þótti hin mesta firra, eða eins og Jóhann Ársælsson sagði, þá er skrýtið ef allir eiga að vera jafnir fyrir sköttunum. Það má vera að það sé skrýtið í augum svokallaðra jafnaðarmanna, en líklegt er að öðrum þyki heldur skrýtnara að verða vitni að því að þegar verið er að lækka skatta svo um munar – og sem ekki veitti af, sérstaklega eftir hækkanir þessara sömu jafnaðarmanna í Reykjavík – þá skuli stjórnarandstaðan í heild sinni rísa upp á afturlappirnar og um tíma nánast halda uppi málþófi til að reyna að hindra afgreiðslu málsins.

Og það voru ekki aðeins minni spámenn stjórnarandstöðunnar sem beittu sér af krafti í gær, allir formenn stjórnarandstöðuflokkanna, þeir Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón A. Kristjánsson, eyddu drjúgum tíma í ræðustól Alþingis til að reyna að sannfæra þingheim um að ekki mætti undir nokkrum kringumstæðum lækka skatta. Að vísu hét það líka að það mætti ekki lækka skatta . Ef til vill seinna ef aðstæður leyfðu, en bara ekki nú. Steingrímur heldur þessu að vísu ekki fram, því hann vill aldrei lækka skatta, en Össur er einn af talsmönnum þessa sjónarmiðs af því að hann þykist stundum vilja lækka skatta. Nú er hins vegar svo hættulegt að lækka skatta vegna þess að það mun valda svo mikilli þenslu. Að vísu eru þessar skattalækkanir ekki fjarri því hvað meint þensluáhrif snertir sem Samfylkingin lofaði fyrir síðustu kosningar, en þá sagði flokkurinn í kosningastefnu sinni að vegna mikils hagvaxtar framundan væri svigrúm til að lækka skatta og vildi meðal annars lækka tekjuskatta umtalsvert. Ýmsir höfðu áhyggjur af því að hugur fylgdi ekki máli og töldu að ef flokkurinn kæmist í stjórn myndi hann ekki standa við þetta loforð sitt. Færri létu sér þó líklega detta í hug að flokknum tækist að svíkja loforðið þrátt fyrir að lenda í stjórnarandstöðu, enda er það eftirtektarverður árangur svo ekki sé meira sagt.

Geir H. Haarde fjármálaráðherra benti á að nú væri helsta áherslumál Samfylkingarinnar í skattamálum helmings lækkun svokallaðs matarskatts. Sami flokkur hefði þó í svari til Samtaka verslunar og þjónustu í mars í fyrra, í aðdraganda kosninga, neitað því að nokkur áform væru uppi um breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins rifjaði í framhaldi af þessu upp, að Samfylkingin hefði ekki tekið þetta mál upp fyrr en eftir að sjálfstæðismenn höfðu gert þetta að stefnumáli sínu og sömu sögu væri að segja af áherslu Samfylkingarinnar um hækkun persónuafsláttar, sem hefði ekki birst í stefnu Samfylkingarinnar fyrr en eftir að Frjálslyndi flokkurinn hefði gert þá breytingu að helsta útspili sínu í skattamálum. Sagði þingmaðurinn að skattamálin hefðu flækst mjög fyrir Samfylkingunni í kosningabaráttunni og hefði stefnumálum verið breytt eða skipt út frá viku til viku.

Birgir Ármannsson benti á að tal stjórnarandstæðinga um að skattalækkanir til almennings myndu valda hættulegri þenslu í hagkerfinu virtist byggjast á því að þeir gengju út frá því að einstaklingar hlytu að verja auknu ráðstöfunarfé sínu óskynsamlega en ef sömu fjármunir rynnu til ríkisins hlyti þeim að verða varið skynsamlega. Benti hann á að reynslan sýndi hið gagnstæða, líkur væru á að ef auknar tekjur í samfélaginu skiluðu sér í auknum tekjum til ríkisins myndi það auka þrýsting á aukin ríkisútgjöld sem fyrir sitt leyti gætu líka aukið á þensluna. Varðandi tímasetningu aðgerðanna nú sagði þingmaðurinn að ef ekki væri rétti tíminn til að lækka skatta nú, þegar vel áraði í hagkerfinu, væri vandséð hvenær rétti tíminn væri til að lækka skatta. Tal stjórnarandstæðinga um þetta efni væri bara fyrirsláttur því í raun og veru hefði þeir engan áhuga á nokkrum skattalækkunum.

Að lokum er ekki úr vegi að nefna eina athyglisverða ábendingu annars þingmanns Sjálfstæðisflokksins Sigurðar Kára Kristjánssonar, sem sagði að menn gerðu sér ef til vill ekki almennt grein fyrir því hversu mikla breytingu verið væri að ráðast í með þeim lögum sem til umræðu væru. Breytinguna mætti þó meðal annars sjá á því, að hér eftir yrðu ekki til nein lög um tekju- og eignaskatt eins og lögin hafi heitið. Hér eftir verði aðeins til lög um tekjuskatt, enda sé verið, auk þess að lækka tekjuskatt, að fella niður eignaskatt. Þessari miklu vá mótmælir stjórnarandstaðan nú, öll í einum kór.