Mánudagur 22. nóvember 2004

327. tbl. 8. árg.

Ögmundur Jónasson kallaði það lítilmannlegt að bera börn fyrir sig. Halldór Ásgrímsson hafði nefnilega meðal annars vísað til hagsmuna skólabarna þegar hann rökstuddi þá ákvörðun að lögskipa gerðardóm til að kveða á um kjör kennara. Það líkaði Ögmundi illa og vildi ekki að menn notuðu börn í deilunni. Alveg hefur það farið fram hjá Vefþjóðviljanum ef Ögmundur hefur beint sömu ávítunarorðum til kennaraforystunnar, þó varla verði því mótmælt að hún hafi notað börn og reiðileysi þeirra til að knýja á um betri kjör fyrir sig. Ekki tók Vefþjóðviljinn eftir því að Ögmundi þætti lítilmannlegt af kennurum að rjúfa skólagöngu einhverfa barna til að gera afleiðingar verkfalls síns alvarlegri. En það er hins vegar lítilmannlegt að minnast á skólabörn þegar verkfall er stöðvað.

Nú eru kennarar væntanlega flestir komnir til starfa aftur eftir verkfall og sameiginleg veikindi. Forvitnilegt væri að vita hvernig þeim gengur svo að útskýra rétta og ranga hegðun fyrir nemendum sínum. Hvernig ætli þetta hafi verið í síðustu viku, þegar kennari hefur til dæmis þurft að róa nemanda sem hefur átt eitthvað sökótt við bekkjarfélaga sinn og beitt hann einhverju harðræði. „Jói minn, þó maður verði reiður og finnist á sér brotið, þá verðum við öll að fara eftir reglunum. Þú mátt ekki bara taka þér þann rétt sem þú vilt“, hefur þá sjálfsagt verið eðlileg umvöndun kennarans. En hverju hefur kennarinn svo svarað þegar Jói litli hefur þá spurt á móti: „Nú, jæja. Og hvar voruð þér í gær, fröken?“.

En þó skipulögð veikindi kennara séu fráleit og veki alvarlegar spurningar um það hversu vel þeir kennarar séu fallnir til ungmennafræðslu, þá er ómögulegt að taka undir með þeim sem gagnrýnt hafa kennara fyrir annað atriði í deilum síðustu vikna. Í sjónvarpi var sýnt frá því er kennarar fögnuðu niðurstöðu atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara með söng og tralli. Þessi fagnaðarsöngur fór mjög fyrir brjóstið á ýmsum. En hvað er að því að þeir kennarar, sem töldu tillöguna slæma og voru í fullum rétti að berjast gegn henni, fagni þegar niðurstaðan liggur fyrir. Það var óskemmtilegt af kennurum að neita að veita undanþágur til kennslu einhverfra barna, það var óréttlætanlegt af þeim að skipuleggja „veikindi“ þegar þeir urðu ósáttir við tiltekin lög frá Alþingi, en það var ekkert að því að þeir færu að syngja við það miðlunartillaga var felld og verkfall hófst að nýju.