Helgarsprokið 21. nóvember 2004

326. tbl. 8. árg.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að tekjuskattur einstaklinga lækki um fjögur prósentustig á næstu þremur árum ásamt því að eignarskattur á einstaklinga og fyrirtæki verði afnuminn. Tekjuskattshlutfall einstaklinga mun því lækka úr 25,75 í 21,75%. Sveitarfélögin í landinu taka 13,03% til viðbótar ef þau leggja hæsta leyfilega útsvar á íbúa sína. Reykjavíkurborg hefur nýverið ákveðið að leggja eins hátt útsvar á íbúa sína og mögulegt er eða „fullnýta tekjustofna sína“ eins og skattahækkanir eru kallaðar á máli skattheimtumanna í dag. Er þetta í fyrsta sinn sem Reykjavíkurborg „fullnýtir“ skattgreiðendur. Reykvíkingar munu því ekki njóta fyrsta áfanga í skattalækkun ríkisstjórnarinnar að fullu því borgin tekur hann að hluta til sín með hærra útsvari og einnig hærri fasteignagjöldum.

„Vefþjóðviljinn hefur oft kvartað undan því viðhorfi sumra stjórnmálamanna að þeir líti á vinnulaun landsmanna sem eign ríkisins og þann hluta launanna sem ekki er gerður upptækur með skattheimtu séu landsmenn að fá sem sérstaka gjöf frá ríkinu, náðarsamlegast.“

Gangi samþykkt ríkisstjórnarinnar eftir  verður tekjuskattshlutfallið, það er samanlagður tekjuskattur ríkisins og útsvar sveitarfélaga, því komið niður í 34,78% í ársbyrjun 2007 að því gefnu að sveitarfélögin hækki ekki útsvarið frekar. Það verður þá í fyrsta sinn frá 1988 þegar núverandi staðgreiðslukerfi var komið á koppinn að skatthlutfallið verður lægra en lagt var af stað með en það var 35,2%. Í tíu ár í röð frá 1988 hækkaði þetta skatthlutfall og fór hæst í 41,98% 1997. Stærstu stökkin upp á við tók skatturinn í tíð síðustu vinstri stjórnar 1988 til 1991, í fjármálaráðherratíð þess er yljar sér nú á kostnað skattagreiðenda á Bessastöðum. Árið 2007 verður sérstakur tekjuskattur, svonefndur hátekjuskattur, einnig úr sögunni. Jafnframt hefur skattgreiðslum á iðgjöld í lífeyrissjóði verið frestað þar til greitt er úr sjóðunum.

Afnám eignarskatta er mikilvægt skref í þá átt að hætta að refsa mönnum fyrir sparnað. Allt fram á síðasta ár voru eignarskattar hér svo háir að þeir jafngiltu því að allar eigur manna væru gerðar upptækar á einni mannsævi. Nú geta tvær kynslóðir notið eignanna áður en ríkið hirðir þær en nái samþykkt ríkisstjórnarinnar fram að ganga verður þessum refsingum hætt. Það mun auðvelda fólki sem eignast hefur heimili og aðrar eignir að halda þeim þótt tekjur minnki tímabundið eða vegna starfsloka.

Þetta eru auðvitað allt – að útsvarshækkun R-listans undanskilinni – afar ánægjuleg tíðindi fyrir skattgreiðendur þótt Vefþjóðviljinn telji 34,78% tekjuskatt vera meira en „fullnýtingu á tekjustofni“ og muni áfram mæla fyrir skattalækkunum. Það voru nefnilega líka til menn árið 1988 sem töldu tekjuskattinn of háan og þeir höfðu nokkuð til síns máls.

En það eru ekki allir ánægðir með þessi áform um að landsmenn fái að ráðstafa auknum hluta af sjálfsaflafé sínu í framtíðinni. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar fóru hamförum gegn þeim í Morgunblaðinu í gær. Gefum Össuri Skarphéðinssyni, formanni nútímalegs jafnaðarmannaflokks fyrst orðið.

Það er auðvitað gaman að geta verið í hlutverki jólasveins, sem dreifir gjöfum í allar áttir, en ef maður er fjármálaráðherra verður að vera innistæða og umhverfi sem gerir slíkt mögulegt. Við núverandi aðstæður er ljóst að það er bæði óþarfi og óheppilegt miðað við ástand efnahagsmála að ráðast í umfangsmiklar skattalækkanir. Það blasir við að verðbólga er þegar komin úr böndum, viðskiptahallinn er miklu meiri en menn gerðu áður ráð fyrir. Helmingur hans stafar af óvæntri einkaneyslu og skattalækkanir núna og loforð um gríðarlegar skattalækkanir síðar á kjörtímabilinu, sem nema samtals á þriðja tug milljarða, geta ekki annað en aukið þessa einkaneyslu og þar með ýtt undir viðskiptahallann, sem grefur undan stöðugleika gengisins og gæti hugsanlega leitt til mjög harkalegrar gengisaðlögunar og enn frekari verðbólgu.

Gjafir! Vefþjóðviljinn hefur oft kvartað undan því viðhorfi sumra stjórnmálamanna að þeir líti á vinnulaun landsmanna sem eign ríkisins og þann hluta launanna sem ekki er gerður upptækur með skattheimtu séu landsmenn að fá sem sérstaka gjöf frá ríkinu, náðarsamlegast. Þetta er andstyggilegt viðhorf. Össur Skarphéðinsson á sér  langa sögu sem andstæðingur skattalækkana. Í hvert sinn sem lækka á skatta kemur hann með fyrirsláttinn; ekki núna, ekki réttu aðstæðurnar, eykur misskiptinguna, eykur einkaneyslu, eykur viðskiptahallann og svo frægustu kenningu hans að óvitarnir samlandar hans eyði skattalækkunum í „innfluttan lúxus“. Ha, er Össur samkvæmur sjálfum sér hvað þetta varðar? Hægan. Þegar kemur að kosningum segir hann það rangt að ríkisstjórnin hafi lækkað skattana sem hann sjálfur barðist árangurslaust gegn að yrðu lækkaðir.

En í stjórnarandstöðunni er annar leiðtogi sem er alltaf á móti skattalækkunum, líka rétt fyrir kosningar. Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er ekkert að skafa utan af því í samtali við Morgunblaðið í gær.

Við erum að missa verðbólguna upp og það eru ýmis merki um jafnvægisleysi hvað varðar hagstjórn og efnahagsmál. Að ætla að fara að ýta þá frekar undir væntingar og þar með væntanlega eyðslu og spennu í þjóðfélaginu, með því að lögfesta skattalækkunaráform langt inn í framtíðina, er alveg glórulaus aðferð. Það liggur alveg ljóst fyrir að þar er ekkert annað en pólitík að baki.

Það er ekkert annað en efnahagslegt og hagstjórnarlegt glapræði að auka enn á vandann með þessum skattalækkunaráformum.

Þar hafa menn það. Hefði ríkisstjórnin misst meirihluta sinn í kosningunum á síðasta ári væri líklega ekki verið að ræða kosti og galla skattalækkana heldur skattahækkana. Þá væru uppi sömu stefnumið hjá ríkinu og Reykjavíkurborg.