Laugardagur 20. nóvember 2004

325. tbl. 8. árg.

V

Loksins, loksins. Reglugerðin er komin.

algerður Sverrisdóttir hefur sett þrjár mikilvægar reglugerðir á síðustu dögum. Fyrst er að nefna reglugerð nr. 912/2004 „um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun loftræstisamstæðna til heimilisnota“. Í reglugerðinni segir meðal annars að allar loftræstisamstæður skuli „merktar með merkimiða sem sýnir orkunotkun þeirra“ og skuli merkimiðinn „vera með þeim hætti sem tilgreint er í I. viðauka við tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2002/31/EB. Skal miðanum komið fyrir utanvert á framhlið eða ofan á tækinu, þannig að hann sjáist greinilega og ekkert skyggi á hann“. Rétt er hér að vekja athygli á því að samkvæmt 9. grein reglugerðarinnar er það sá „sem stillir út loftræstisamstæðu [sem] skal festa merkimiða skv. 3. gr. við hana“. Mikilvægt atriði reglugerðarinnar er að finna í 10. grein, þar sem segir að séu „loftræstisamstæður boðnar til sölu, leigu eða kaupleigu með prentuðum eða skriflegum upplýsingum eða á annan hátt gefið til kynna að ekki sé gert ráð fyrir því að hugsanlegur viðskiptamaður geti séð tækið í útstillingu, s.s. með skriflegu útboði, í póstpöntunarlista, auglýsingum á netinu eða öðrum rafrænum miðli, skulu upplýsingarnar vera allar þær sömu og tilgreindar eru í III. viðauka (póstverslun og önnur fjarsala) við tilskipun 2002/31/EB, sbr. 16. gr. reglugerðar þessarar.“

Þó þessi reglugerð iðnaðarráðherra sé mikilvæg fyrir hinn almenna mann sem hingað til hefur verið þvingaður til að kaupa loftræstisamstæður án þess að fá nokkrar upplýsingar um orkunotkun þeirra, þá er hún varla eins mikilvæg og sú reglugerð sem Valgerður setti næst. Þá kom frá henni reglugerð nr. 913/2004, um „breytingu á reglugerð nr. 260/2003 um upplýsingaskyldu seljenda nýrra fólksbifreiða varðandi eldsneytisnotkun og losun koldíoxíðs“. Samkvæmt hinni nýju reglugerð skal fyrir „hverja bifreiðategund sem er sýnd eða boðin til sölu á sölustað eða í umboði sölustaðar [] komið fyrir veggspjöldum eða sjónvarpsskjá með lista yfir eldsneytiseyðslu og losun koldíoxíðs allra nýrra fólksbifreiða.“ Veggspjaldið skal vera að minnsta kosti 70 x 50 centimetrar að stærð og uppfylla nokkur skilyrði, „sbr. 4. gr. og III. viðauka tilskipunar 1999/94EB, svo sem honum var breytt með tilskipun 2003/73/EB“. Sennilega er best að endurtaka bara skilyrðin hér svo bílasalar hafi þetta nú á hreinu:

„1. flokkun undirtegunda efitr eldsneytistegund. Undir hverri eldsneytistegund eru undirtegundir flokkaðar eftir aukinni losun koldíoxíðs og er sú undirtegund sem hefur lægstu eldsneytiseyðslu höfð efst á listanum;

2. fyrir hverja undirtegund skal tilgreina talnagildi eldsneytiseyðslu og losunar koldíoxíðs, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Eldsneytiseyðsla skal annað hvort gefin upp í lítrum á hverja 100 km (1/100 km), kílómetrum á hvern lítra (km/l) eða viðeigandi samsetningu af þessu, gefin upp með einum aukastaf. Losun koldíoxíðs skal tiltekin í grömmum á hvern kílómetra (g/km), námunduð við næstu heilu tölu;

3. innihalda eftirfarandi texta: „Yfirlit yfir eldsneytiseyðslu og losun koldíoxíðs með upplýsingum um allar nýjar tegundir fólksbifreiða fæst án endurgjalds á öllum sölustöðum.“ og „Auk eldneytisnýtni bifreiðar hafa aksturslag og aðrir þættir almenns eðlis áhrif á eldsneytiseyðslu bifreiðar og losun koldíoxíðs frá henni. Koldíoxíð er sú gróðurhúsalofttegund sem stuðlar einna helst að hnattrænni hlýnun.““

Þetta er afar mikilvæg reglugerð og gott að bílakaupendur geti nú séð á sjónvarpsskjá í réttri stærð þær upplýsingar sem þeim hefur hingað til verið neitað um. Svo er ágætt að bílasalar séu neyddir til að gefa yfirlýsingar um „hnattræna hlýnun“ og hvað valdi henni. Að lokum er rétt að taka fram að í reglugerðinni er tekið fram að í stað sjónvarpsskjás og veggspjalds er heimilt „að nota rafrænan skjá með flettitækni“ ef hann er að minnsta kosti 25 x 32 centimetrar að stærð. Annars þarf að vera með veggspjald eða sjónvarp sem er að minnsta kosti 70 x 50 centimetrar að stærð.

Þriðja reglugerð Valgerðar er númer 914/2004 og er um „breytingu á reglugerð nr. 69/1996 um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun rafknúinna kæliskápa til heimilisnota“. Ekki þýðingarminnst atriði reglugerðarinnar kemur fram strax í fyrstu grein hennar sem hljómar svo: „4. málsl. 1. mgr. 4. gr. orðist svo: Blaðið skal hafa að geyma upplýsingar samkvæmt og uppfylla formskilyrði II. og IV. viðauka við tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 94/2/EB með síðari breytingum í ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 63/95 og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2003/66/EB, sbr. 16. reglugerðar þessarar.“

Og hananú. Þetta eru gríðarlegar réttarbætur fyrir saklausa viðskiptavini sem fram að þessu hafa spurt og spurt um eldsneytiseyðslu en engin svör fengið. Þetta er næstum eins mikilvægt og rassíur „fjársveltrar“ samkeppnisstofnunar í fyrirtæki að telja verðmiða og skoða útstillingar í gluggum.