K ennarar hafa nú verið í verkfalli í þúsund vikur eða svo, og alltaf verður umræðan um það undarlegri. Rétt eins og hegðun svokallaðrar samninganefndar sveitarfélaga sem hefur gengið allt of langt til móts við kröfur Eiríks Jónssonar. Í raun og veru er að það aðeins fyrir blessunarlega þvermóðsku þessa Eiríks eða manna í kringum hann, sem ekki var skrifað undir gríðarlegan útgjaldasamning í vikunni. En kennarar höfnuðu honum svo sveitarfélögin fá tækifæri til að ná áttum. Óvæntasta yfirlýsing vikunnar kom þó frá Þorgerði Gunnarsdóttur menntamálaráðherra sem taldi nú ástæðu til að velta fyrir sér hvort ekki ætti að færa grunnskólann frá sveitarfélögunum… til ríkisins. Sveitarstjórnarmenn urðu auðvitað hinir verstu og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, sem – eins og eðlilegt er, og allir hljóta að sjá, þó Vefþjóðviljinn geri það að vísu ekki – er í senn oddviti minnihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, virtist í raun telja að Þorgerður hefði misst vitið.
„Vefþjóðviljinn vill því fá að bæta því við umræðuna frá eigin brjósti, að rétt sé að stefna að því að færa grunnskólann frá sveitar-félögunum, en miða þá jafnframt við að hann færist til einkaaðila en ekki ríkisins.“ |
Því miður reyndist Þorgerður ekkert hafa við þessa athugasemd sína að bæta, þegar fréttamenn leituðu til hennar daginn eftir. Hún sagðist að vísu hafa verið með „útspil“, en svo kom ekkert meira. Vefþjóðviljinn vill því fá að bæta því við umræðuna frá eigin brjósti, að rétt sé að stefna að því að færa grunnskólann frá sveitarfélögunum, en miða þá jafnframt við að hann færist til einkaaðila en ekki ríkisins. Vefþjóðviljinn álítur að með því fengjust að jafnaði betri skólar og foreldrar hefðu meira val um það í hvernig skóla börn þeirra gengju. Síðara atriðið er ekki lítils virði, þó það virðist oft gleymast. Margir foreldrar eru ekki aðeins að leita að hefðbundinni barnakennslu heldur einnig að þægilegri barnageymslu, en aðrar fjölskyldur hafa ekkert við slíkt að gera. Sumir foreldrar telja sínu barni fyrir bestu að njóta mikillar kennslu í listgreinum en aðrir mæla með hefðbundnari kennslugreinum. Með auknu frjálsræði í skólakerfinu má auka möguleika hverrar fjölskyldu til að tryggja barninu það sem hún telur því til bestu.
Það er svo önnur deila hver eða hverjir eigi að greiða fyrir menntun og barnageymslu. Það væri hæglega unnt að auka frjálsræði í skólakerfinu án þess að hverfa frá þeirri stefnu að hið opinbera greiði fyrir rekstur skóla. Það er engin nauðsyn á því – og ekki heldur frá sjónarhóli þeirra sem vilja að menntun sé „ókeypis“ – að opinber aðili eigi skóla og hafi kennara á sinni launaskrá. Hið opinbera gæti hæglega greitt fyrir skólavist í einkaskólum og svo gætu foreldrar valið milli skóla – og það væri hægt að setja lágmarkskröfur um námsefni og kennslu, ef menn vildu. Skólarnir hefðu þá meiri hagsmuni af en áður að foreldrar sneru sér – eða börnum sínum – til þeirra, og það ætti að vera líklegt til að hvetja þá til dáða. Auðvitað er ekki hægt að setja fram sem undantekningarlausa reglu að einkaaðili sé betri en opinber stofnun; að menn fari alltaf betur með eigið fé en annarra. Vitanlega er mikið til af einkafyrirtækjum sem fara í þrot vegna þess að stjórnendurnir fara illa að ráði sínu, og það eru til opinberar stofnanir þar sem forstöðumenn fara afbragðs vel með það sem þeim hefur verið trúað fyrir, en að jafnaði má ætla að það hafi góð áhrif á starfsemi og afrakstur hennar ef sá sem henni stýrir hefur ríka hagsmuni af því að hún gangi vel og afli nýrra og nýrra viðskipta.
Með auknu frjálsræði í skólakerfinu myndu skólar leggja meira á sig til að laða til sín góða kennara. Það yrði líklegra en nú, að slíkir menn störfuðu við kennslu en þeim myndi fækka sem hafa aðeins prófgráður og pappír sér til gildis. En myndu þá ekki sumir geta greitt meira fyrir meiri kennslu fyrir sín börn, sem þar með hefðu færi á að ná forskoti á hin, spyr nú kannski einhver. Jú vissulega, en hvenær hefur það ekki verið þannig? Þó ríki eða sveitarfélög reki skóla þá er ekkert sem bannar foreldrum að senda börn sín í aukatíma og margir gera það, til dæmis í tungumálaskóla. Sumir senda meira að segja börn sín á erlenda málaskóla á sumrin, og svo framvegis. Það er ekki sérstök röksemd gegn einkaskóla að ekki fái öll börn sömu kennslu. Enda er það ekki þannig nú og hefur aldrei verið. Í því er ekkert óréttlæti fólgið. Ekki frekar en í því að músíkölsk móðir kenni dóttur sinni á flautu eftir skóla og að það bjóðist ekki öðrum.
En þó menntamálaráðherra hafi í raun ekkert haft að segja um „útspil“ sitt, og alls ekki að hún hafi rökstutt það á neinn hátt eða sagt neitt sem benti til að hún hafi hugsað það lengur en í eina og hálfa sekúndu, þá er sjálfsagt að ræða það hvort færa eigi grunnskólann frá sveitarfélögunum, og þá eins þó menn leggi ekki enn í að færa þá frá hinu opinbera. En þó sjálfsagt sé að ræða þetta atriði, þá er ekki síður ástæða til að ræða alvarlega hvort ekki þurfi að endurskoða aðra ákvörðun sem tekin var fyrir nokkrum árum, ákvörðunina um að „einsetja“ skólana. Með þeirri ákvörðun var skólunum einfaldlega breytt úr skólum í einhvers konar blending úr skóla og geymslu. Gríðarlegur kostnaður og fyrirhöfn hefur farið í að uppfylla þessa frekjukröfu þeirra sem vilja að hið opinbera geri allt fyrir þá, og þetta er „skref“ sem ætti að „stíga til baka“, svo notað sé orðalag frekjanna sem láta eins og allt sem þær vilja sé „áfram“ en skoðanir annarra séu „aftur á bak“. Þó kannski sé lítið við það að athuga að menn noti slík orðalag um eigin skoðanir þá er einkennilegra þegar fréttamenn taka það gagnrýnislaust upp. Rétt eins og þeir gera meira að segja stundum þegar þeir kalla erlendar breytingar í frjálsræðisátt „umbætur“, án þess að rökstyðja það frekar. Vefþjóðviljinn er að vísu sammála þeim oftast um það atriði en það er annað mál. En þetta gera fréttamenn reyndar sjaldan og auðvitað einungis í erlendum fréttum. Hér heima þykir þeim ekkert nema aukin ríkisútgjöld vera „umbætur“.
Og fyrst búið er að fjalla um verkfall, sveitarstjórnarmenn og fréttamenn, þá er rétt að ljúka helgarsproki í fjölmiðlapistli Ólafs Teits Guðnasonar úr nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, en vandfundið er betra efni í íslenskum fjölmiðlum en föstudagspistlar Ólafs Teits um fjölmiðla. Í nýjasta pistli sínum skrifar hann meðal annars:
„Varaformaður Kennarasambands Íslands segir ríkið ekki geta stungið höfðinu í sandinn.“ Þannig hófst kvöldfréttatími Útvarpsins á miðvikudagskvöld. Það væri óskandi að þetta væri rétt – að ríkinu væri fyrirmunað að stinga höfðinu í sandinn – en því miður sýnir reynslan að fáir eiga auðveldara með að verða sér úti um sand og stinga höfðinu á sér á bólakaf ofan í hann en einmitt ríkið. En það er önnur saga. Tilefni tilvitnaðra ummæla varaformanns Kennarasambandsins, Elnu Katrínar Jónsdóttur, er auðvitað kjaradeila grunnskólakennara. Deilan sú er ákaflega merkileg fyrir þær sakir, að þótt grunnskólakennarar séu opinberir starfsmenn hefur pólitískur kostnaður þeirra stjórnmálamanna sem eiga aðild að deilunni verið jafn mikill og samanlagður hagnaður allra fjarskiptafyrirtækja Orkuveitu Reykjavíkur frá upphafi: núll krónur.
… Hverfum nú fjögur ár aftur í tímann. Hinn 21. október árið 2000 ákváðu framhaldsskólakennarar að boða til verkfalls. Það hófst í nóvember og dróst síðan mjög á langinn. Í þeirri deilu stóðu öll spjót á vinnuveitendum kennara, einkum Birni Bjarnasyni menntamálaráðherra. Hann tók út mikinn pólitískan kostnað, þrýstingurinn á hann var þéttur og stöðugur í fjölmiðlum. Sú sem helst mundaði spjótin var formaður Félags framhaldsskólakennara, Elna Katrín Jónsdóttir. Þau Björn tókust hvað eftir annað á í fréttatímum. … Og hvar eru viðtölin við borgarstjórann í Reykjavík? Jú, það var sagt frá því í fréttum að þúsund kennarar á höfuðborgarsvæðinu hefðu þrammað niður í Ráðhús til að hitta hann. Það var til lítils því hann var ekki á landinu. Ég hef hvergi séð hann spurðan út í málið. Er hann enn þá í útlöndum? Einhverra hluta vegna virðist hafa orðið þegjandi samkomulag um að hlífa sveitarstjórnarmönnum en herja í staðinn á ríkið. Það eru ekki Þórólfur, Stefán Jón, Steinunn Valdís, Árni Þór eða neinn úr því liði sem sitja fyrir svörum í fjölmiðlum, heldur menntamálaráðherra og ríkisstjórnin! Hinir hafa bara frítt spil. Þetta blasir við öllum nema fréttamönnum. Og fleirum finnst það fráleitt en mér. Hjörleifur Guttormsson skrifaði í Morgunblaðið í vikunni: „Ömurlegt er að fylgjast með feluleik kjörinna sveitarstjórna í yfirstandandi kennaraverkfalli. […] [Þeir] gera sig að viðundri með því að fela sig á bak við grímu ósýnilegrar nefndar og daufdumbra embættismanna á meðan skólunum er að blæða út, svo ekki sé minnst á blessuð börnin.“ En Elna Katrín segir að ríkið geti ekki stungið höfðinu í sandinn! Getur verið að það trufli hana að hún hefur verið virkur þátttakandi í flokksstarfi Vinstri-grænna? Það skyldi þó aldrei vera? Kannski hún hlusti á Hjörleif. Og það skyldi þó aldrei vera að það truflaði leiðtoga sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur að hann er jafnframt formaður Sambands sveitarfélaga? Í stað þess að berja á meirihlutanum taka sjálfstæðismenn í borgarstjórn fullan þátt í því með honum að krefjast meiri peninga af ríkinu. |