Mánudagur 25. október 2004

299. tbl. 8. árg.

Þ

International Harvester Scout í réttu umhverfi í sveitasælunni á Seltjarnarnesi.

ó stundum virðist fátt koma frá íslenskum sveitarstjórnarmönnum annað en kveinstafir yfir því að þeir nái ekki meiri peningum af þegnum sínum og svo tilkynningar um ný útgjöld milli kveinstafanna, þá er auðvitað ósanngjarnt að afskrifa þá alla þess vegna. Auðvitað eru til sveitarstjórnarmenn sem ekki elta vælandi félaga sína heldur reyna að haga rekstri sínum í samræmi við þær tekjur sem þeir hafa, en ekki þær tekjur sem þeir vildu hafa, og í samræmi við þær skyldur sem þeir raunverulega hafa, en ekki þær sem þeir vilja endilega taka á sig og skattgreiðendur. Af og til gerist það svo, þó sjaldgæft sé, að sveitarstjórnarmenn láta til sín heyra þannig að einhver verður betur settur af. Í grein Jónmundar Guðmundssonar, bæjarstjóra á Seltjarnarnesi, í Morgunblaðinu nú á laugardaginn, kveður þannig við nokkuð annan tón en hjá sígrátandi félögum hans.

Í fyrsta lagi vekur Jónmundur athygli á því, að þvert á það sem margir virðast halda, þá hafa tekjur sveitarfélaga aukist verulega undanfarin ár og segir Jónmundur „ljóst að sveitarfélögin hafa ekki farið varhluta af hagvexti og almennri grósku í efnahagsmálum þjóðarinnar“.

Lífæð fyrirtækja eru tekjurnar. Þegar litið er til þróunar á tekjum sveitarfélaga kemur í ljós að fjárhagsvandi þeirra virðist ekki eiga rætur að rekja til þess að tekjur hafi staðið í stað eða dregist saman. Þvert á móti hafa tekjur sveitarfélaga vegna útsvars og fasteigna aukist verulega á síðasta áratug eða svo. Ef marka má efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins hafa samanlagðar tekjur þeirra vaxið úr 34,9 milljörðum króna árið 1995 í tæpa 107 milljarða árið 2005.

En það er ekki nóg að hafa tekjur. Það skiptir máli hvernig með þær er farið, og Jónmundur telur að sveitarstjórnarmenn hafi farið misvel að ráði sínu:

En velta og þróun tekna er aðeins önnur meginforsenda rekstrar, hinn þátturinn eru útgjöldin. Þegar litið er á árangur sveitarfélaga landsins á því sviði síðustu ár blasir við nokkuð ískyggileg mynd. Á tímabilinu frá 1995 til 2005 er gert ráð fyrir að heildarútgjöld sveitarfélaganna í landinu vaxi úr 36,4 milljörðum 1995 í um 109 milljarða við lok næsta árs. Á sama tíma og almennur uppgangur hefur verið í efnahagslífinu og ríkissjóður verið rekinn með góðum afgangi, hafa sveitarfélögin skilað halla á bilinu 1,5 til 1,6 milljarða árlega, en þó er rétt að taka fram að sum þeirra standa betur en þessi heildartala gefur til kynna. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er svo nýttur til niðurgreiðslu á rekstri þeirra sem illa standa.

Það er ánægjulegt að forsvarsmaður öflugs sveitarfélags veki athygli á þessum atriðum. Sveitarfélögin fá allt of oft frítt spil í opinberri umræðu og margir sem virðast halda að það séu aðeins útgjöld og umsvif ríkisins sem séu bagaleg. Fréttamenn hafa til dæmis lítinn sem engan áhuga á að fara rækilega yfir meðferð R-listans á fjármunum, svo sem í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur, rekstri sem kostað hefur borgarbúa milljarða og aftur milljarða króna – en myndu líklega ekki láta ríkið komast athugasemdalaust upp með slíka frammistöðu. Sömuleiðis hafa fréttamenn lítinn áhuga á að vekja athygli á því að borgaryfirvöld í Reykjavík hafa stundað það að stela skattalækkunum borgarbúa; þegar alþingi hefur lækkað tekjuskattinn, og ætlað það landsmönnum til hagsbóta, hefur R-listinn sætt færis og hækkað útsvarið að sama skapi og þannig hirt skattalækkanirnar sem landsmönnum hafa verið ætlaðar. En fréttamenn hafa engan áhuga á því. Sveitarfélögin eru stikkfrí, að minnsta kosti þau sem eru undir réttri stjórn. Og það er munur á sveitarstjórnum; að minnsta kosti er engin skylda að reka þau eftir R-lista-aðferðinni. Bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi segir að það sé „grundvallaratriði að sveitarfélög hafi fullt frelsi til að keppa sín á milli á grundvelli lágra álagna og bjóða íbúum sínum þjónustu á sem bestum kjörum“:

Þessi hugsun hefur gefist vel á Seltjarnarnesi og á að mínum dómi ríkan þátt í áratuga velgengni Sjálfstæðisflokksins á Nesinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá upphafi verið einbeittur í að lágmarka álögur á skattgreiðendur en veita um leið samkeppnisfæra þjónustu. Útsvar er það lægsta á höfuðborgarsvæðinu, fasteignagjöldum er stillt í hóf og Seltjarnarnes er eina sveitarfélag landsins sem ekki leggur á holræsagjald svo dæmi séu tekin. Þrátt fyrir þessa stefnu hefur rekstur bæjarins skilað ágætum afgangi og skuldir bæjarsjóðs eru afar litlar í samanburði við önnur sambærileg sveitarfélög. Þessar aðstæður skapa aðhald fyrir kjörna fulltrúa flokksins við gerð fjárhagsáætlana, leiða til aga stjórnenda í daglegum rekstri en hefur ekki komið í veg fyrir að þjónusta bæjarins við íbúa sé öflug og vel samkeppnisfær.