Laugardagur 23. október 2004

297. tbl. 8. árg.

B ændur njóta mikils ríkisstuðnings hér á landi eins og víðast hvar á Vesturlöndum. Viðkvæði stuðningsmanna styrkjanna er gjarnan að án þeirra leggist landbúnaðurinn af og bændurnir missi allt sitt. Þeir geti ekki keppt við ódýrar innfluttar landbúnaðarafurðir, jafnvel niðurgreiddar á kostnað skattgreiðenda annarra ríkja. Á fréttavef BBC var nýlega fjallað um landbúnað á Nýja-Sjálandi og þar kemur fram að fyrir tveimur áratugum hafi „hljóðlát bylting“ orðið þar í landi þegar niðurgreiðslum hafi verið hætt. Þær hafi áður verið mikilvægur hluti af tekjum bændabýla en frá árinu 1984 hafi bændur þar í landi orðið að komast af án beins fjárhagsstuðnings frá ríkinu. Áður hafi stuðningurinn numið allt að 40% af tekjum bænda á Nýja-Sjálandi, nú sé hann að meðaltali innan við 1% teknanna og flestir bændur komist vel af án stuðningsins.

Afnám niðurgreiðslnanna virðist alls ekki hafa lagt landbúnað á Nýja Sjálandi í rúst, heldur þvert á móti orðið til að gefa honum aukinn kraft, segir í greininni á vef BBC. Landbúnaður vegi nú heldur þyngra í efnahagslífinu en hann hafi gert fyrir hina hljóðlátu byltingu og nóg sé af sönnunargögnum um að bændur sýni nú meiri hugkvæmni við nýtingu jarða sinna. Mjólkurframleiðsla afli nú meiri útflutningstekna en sauðfjárbúskapur, ólíkt því sem verið hafi. Sauðfé hefur fækkað mikið og nú eru rollur í landinu um 40 milljónir en voru yfir 70 milljónir árið 1982. Víða þar sem sauðfé var áður á beit eru nú ræktaðar þrúgur fyrir léttvín og þrúgur hafa  sums staðar tekið við af sauðfénu sem helsta tekjulindin. Annars staðar hafa hjartardýr tekið við og nú eru bændur á Nýja-Sjálandi með um tvær milljónir hjartardýra.

Það er ekki náttúrulögmál að bændur verði að lifa af því sem kallað hefur verið hefðbundinn landbúnaður, sérstaklega ekki með þeim hefðbundna kotbúskap sem landbúnaðarkerfið hér á landi hefur í mörgum tilvikum gert kröfur um. Bændur hafa ekki frekar en aðrir framleiðendur gott af því að vera á framfæri ríkisins og atvinnugreinin stendur aldrei undir nafni á meðan þeir þurfa að reiða sig að stórum hluta á stuðning hins opinbera. Það er mjög líklegt að íslenskur landbúnaður myndi breytast töluvert ef stuðningi við hinn hefðbundna landbúnað yrði hætt, en það felur ekki í sér að bændur yrðu verr settir. Þeir myndu margir fara aðrar leiðir en nú og eftir að hafa lagað sig að nýjum aðstæðum yrðu þeir vafalítið svipaðrar skoðunar og bændurnir sem lýst er í greininni á BBC-vefnum; þeir myndu alls ekki vilja snúa til baka í kæfandi faðm ríkisins.