Undirbúin verði löggjöf um hringamyndun í atvinnulífinu þar sem m.a. komi til greina að skipta upp stórum fyrirtækjum sem eru markaðsráðandi. |
– Tillaga samþykkt á flokksþingi Framsóknarflokksins, febrúar 2003. |
Össur Skarphéðinsson kallaði það í gær „skoðanakúgun af verstu gerð“, að þingflokkur Framsóknarflokksins hefði ákveðið að einhverjir aðrir en Kristinn H. Gunnarsson myndu framvegis koma að málum fyrir hönd Framsóknarflokksins í þingnefndum. Össur, sem leiðtogi annars stærsta stjórnmálaflokks landsins, vill auðvitað ekki vera svo stórorður að trúverðugleiki hans beri skaða af, og tók því ekki fram hvað gæti verið skoðanakúgun af næst verstu gerð, en sennilega hefði gúlagið komið þar til álita. En hvað um það, framsóknarmenn ætla ekki að styðja Kristin til setu í þingnefndum og leiðtogar stjórnarandstöðunnar voru á einu máli um að með því gyldi Kristinn þess að hafa „fylgt samvisku sinni“ í umdeildum málum, einkum „fjölmiðlamálinu“ í vor. Flestir muna hvar atkvæði Kristins og málflutningur í fjölmiðlum lá í því máli; hann var á móti þeim reglum sem meirihluti alþingis ákvað að setja. Og það var vegna samvisku hans, ekki tækifærismennsku, ekki vegna möguleikans á því að slá sér upp eða fá hrós í öflugum fjölmiðlum. Kristinn fylgdi bara samvisku sinni eins og honum bar að gera. Um það efast enginn og Vefþjóðviljinn síst allra. Kristinn fylgir engu nema samviskunni og sveiflast ekki til eftir blæstri í þjóðfélaginu. Honum þóttu reglur fjölmiðlafrumvarpsins bara ganga of langt. Þess vegna var hann á móti málinu, vegna samviskunnar.
En Kristinn er auðvitað mjög á móti hringamyndun í atvinnulífinu og styður heilshugar stefnu Framsóknarflokksins á því sviði. Á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins, sem haldið var skömmu fyrir síðustu alþingiskosningar var einmitt borin fram og samþykkt svohljóðandi tillaga: „Undirbúin verði löggjöf um hringamyndun í atvinnulífinu þar sem m.a. komi til greina að skipta upp stórum fyrirtækjum sem eru markaðsráðandi“. Framsóknarflokkurinn gekk með öðrum orðum til kosninga með flokksþingsamþykkt fyrir þeirri stefnu að berjast gegn hringamyndun og uppskiptingu stórfyrirtækja ef ekki vildi betur. Og þá stefnu styður Kristinn auðvitað. Og ekki bara styður þá stefnu. Maðurinn sem flutti tillöguna á flokksþinginu, það var sko Kristinn H. Gunnarsson.
Og þegar talað er um að fylgja samvisku sinni í fjölmiðlamálinu, þá má enn spyrja hvaða stjórnarandstæðingur fylgdi ekki flokkslínunni í því máli. Þingmenn sem sjálfir höfðu lagt fram og barist fyrir samskonar tillögum, greiddu allir sem einn atkvæði gegn málinu þegar það kom til atkvæða. Svo segja fjölmiðlamenn að flokksaginn sé í stjórnarliðinu, þar sem þó komu fram allar versionir af afstöðu; stuðningur, andstaða og hjáseta.