Miðvikudagur 29. september 2004

273. tbl. 8. árg.

Þingmenn hleyptu kostnaðinum upp“ segir í aðalfyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins svokallaða í gær og má segja að sú fyrirsögn gæti oft átt við enda þingmenn iðulega eyðslusamari en góðu hófi gegnir. Í því tilviki sem hér um ræðir er fullyrðingin í fyrirsögninni hins vegar vafasöm og líklegra að aðrir eigi stærri hlut að máli, ekki síst Fréttablaðið svokallaða sjálft. „Kostnaður er nokkru hærri en áætlað var, meðal annars vegna ófyrirséðs sumarþings. Kostnaður er nú þegar kominn meira en fjórðung fram yfir upphaflega kostnaðaráætlun sem hljóðaði upp á 75 milljónir króna,“ segir í forsíðufréttinni. Látum liggja á milli hluta að þar sem kostnaður er í fréttinni sagður munu fara yfir 100 milljónir króna er ljóst að hann mun fara meira en þriðjung en ekki fjórðung fram úr áætlun. Hitt er lakara að í frétt Fréttablaðsins svokallaða er ekki minnst á þátt blaðsins sjálfs í auknum kostnaði. Málið sem um ræðir er endurbætur á Alþingishúsinu, en meðal annars vegna mikilla þingstarfa í sumar umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir varð kostnaðurinn umfram áætlun. Þingstörfin stöfuðu hins vegar ekki aðeins af því að þingmenn vildu ekki fara í sumarfrí eða vera í sumarfríi, heldur drógust þau á langinn vegna þess að ýmsir aðilar tóku sig saman um að koma í veg fyrir að vondar breytingar á vondum samkeppnislögum og útvarpslögum fengju að standa. Einn þessara aðila er Fréttablaðið, en það fjallaði um fátt annað en frumvarpið þá þrjá mánuði sem það var til umræðu.

Líklega hefur aldrei nokkur fjölmiðill, sem þykist vera almennur fréttamiðill en ekki áróðurstæki, seilst jafn langt og Fréttablaðið svokallaða gerði á þessu tímabili, en eins og Vefþjóðviljinn sýndi fram á í lok júlí rataði þetta eina mál inn á 78% af forsíðum Fréttablaðsins svokallaða á umræddu tímabili. Þar af var frumvarpið til breytinga á samkeppnis- og útvarpslögum aðalfrétt á forsíðu í 49% af útgefnum tölublöðum.

Bókin Cowboy Capitalism: European Myths, American Reality er nýkomin út hjá Cato Institute í Bandaríkjunum. Bókin er eftir Olaf Gersemann þýskan blaðamann hjá Wirtschaftswoche, helsta þýska vikuritinu um atvinnulíf og efnahagsmál. Í kynningu Cato á bókinni segir að flestir Evrópubúar, og margir Bandaríkjamenn, trúi því að þó að fleiri störf verði til í bandaríska hagkerfinu en þeim evrópsku þá séu Evrópubúar betur settir þegar kemur að atvinnuöryggi, tekjujöfnuði og öðrum þáttum. Gersemann, sem er fréttaritari Wirtschaftswoche í Bandaríkjunum, er annarrar skoðunar eftir að hafa kynnt sér stöðu mála þar í landi. Öfugt við það sem ætla mætti telur hann að velferðarríkin á meginlandi Evrópu bjóði ekki upp á neitt sem máli skiptir umfram Bandaríkin.